ÞJÓÐIR heims, allt frá smáríki lengst í austurátt, hafa nýlega, með lifandi og litríkum hætti, eins og sjónvarp hér gaf okkur kost á að fylgjast með, fagnað veglega hinum miklu mótum hins kristna tímatals.

ÞJÓÐIR heims, allt frá smáríki lengst í austurátt, hafa nýlega, með lifandi og litríkum hætti, eins og sjónvarp hér gaf okkur kost á að fylgjast með, fagnað veglega hinum miklu mótum hins kristna tímatals. Hér á Ísa-köldu-landi var einnig vel fagnað með margvíslegum hætti þessum miklu tímamótum, m.a. með meiri flug- og skoteldum en áður hafa þekkst hér.

Þó voru hér á meðal okkar vitringar og nokkur hópur fylgjenda þeirra, sem ákváðu að bíða eitt ár með fögnuð sinn, því hin miklu mót væru enn ekki upprunnin, því m.a. sé 0 ekki að finna í hinu rómverska talnakerfi og því verði að byrja talninguna frá fæðingu Jesúbarnsins í Betlehem, sem hið kristna tímatal er miðað við, á tölunni 1, eins og þegar við teljum tær og fingur, eða kartöflur upp úr poka. Auk þessa koma lærðar útlistanir, sem við fáfróð eigum erfitt með að skilja. Þær minna mig á litla frásögn, sem vinur minn einn sagði mér eitt sinn eftir samstarfsmanni sínum, tryggingastærðfræðingi, sem nam þau fræði í nágrannalandi hjá hálærðum fræðingi í þeirri grein. Þegar líða tók að lokum námsins í tölfræðinni, sagði námsmaðurinn, glettinn á svipinn, bað lærifaðirinn unga manninn að yfirlíta skýrslu eina, sem hann umbeðinn hafði gert fyrir stórfyrirtæki í landinu. Það gerði hinn ungi lærisveinn og fór síðan á fund skýrsluhöfundarins, sem spurði: Skildir þú þetta? Já, var svarið, en haldið þér að móttakandinn skilji skýrsluna? Nei, svaraði hinn hálærði með blendnum svip, og hann á alls ekki að skilja skýrsluna. Það var nú það, og svo er nú það, að í samfélagi okkar er þó nokkuð af lærdómsmönnum, sem leitast við að gera sig ómissandi, með því að gera einfalda og augljósa hluti óskiljanlega. Þegar svo er komið er óhjákvæmilegt að tilkalla rándýra sérfræðinga til að leysa málin. Lengi dugði heilbrigð skynsemi eða brjóstvit til að leysa viðfangsefni á farsælan hátt.

Við mæður vitum að börn fæðast ekki eins árs, hvað sem fingra- og kartöflutalningu líður. Á fyrsta aldursárinu umtölum við þau sem svo og svo margra daga, vikna eða mánaða gömul. Er 12 mánuðir eru liðnir frá fæðingu barnsins tendrum við glaðar eitt ljós og fögnum yfir undri lífsins. Vona að þetta sé öllum ljóst, einnig fræðimönnum okkar.

HELGA R. INGIBJARGARDÓTTIR,

Espigerði 2, Reykjavík.

Frá Helgu R. Ingibjargardóttur: