Ása Helga Ragnarsdóttir
Ása Helga Ragnarsdóttir
Ása Helga Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík 1949. Hún lauk kennaraprófi 1996 en hafði áður lokið prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1976. Hún starfaði sem umsjónarmaður barnatíma Sjónvarps í þrjú ár, hún var einnig lengi dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu, hún hefur einnig um árabil kennt leiklist en starfar nú sem grunnskólakennari í Háteigsskóla. Ása er gift Karli Gunnarssyni líffræðingi og eiga þau samtals fjögur börn.
Ása Helga Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík 1949. Hún lauk kennaraprófi 1996 en hafði áður lokið prófi frá Leiklistarskóla Íslands 1976. Hún starfaði sem umsjónarmaður barnatíma Sjónvarps í þrjú ár, hún var einnig lengi dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu, hún hefur einnig um árabil kennt leiklist en starfar nú sem grunnskólakennari í Háteigsskóla. Ása er gift Karli Gunnarssyni líffræðingi og eiga þau samtals fjögur börn.

Íbúasamtök Vesturbæjar standa um þessar mundir fyrir ljóðasamkeppni meðal Vesturbæinga. Þessi samkeppni er í tengslum við Reykjavík, menningarborg árið 2000. Ása Helga Ragnarsdóttir kennari er í stjórn Íbúasamtaka Vesturbæjar og hefur umsjón með ljóðasamkeppninni.

"Við erum með þrjú viðfangsefni til að yrkja um. Þau er; Gatan mín, kirkjugarðurinn og höfnin. Það verður ljóðadagskrá við þessa staði þegar úrslitin verða tilkynnt. Vegleg peningaverðlaun eru í boði. Samkeppnin er aldursskipt þannig að börn, ungt fólk og fullorðið fólki keppir innbyrðis. Verðlaunin eru sem fyrr sagði peningar og eru upphæðirnar 30 þúsund krónur í hverjum aldursflokki. Skilafresturinn rennur út 15. mars nk. og þeir sem vilja taka þátt í ljóðasamkeppninni eiga að setja ljóð sín í umslag og merkja þau með dulnefni og fæðingarári. Síðan eiga skáldin að setja nafn, símanúmer, fæðingarár og heimilisfang í annað umslag sem er lokað og þetta umslag og ljóðið setja skáldin síðan saman í umslag sem merkt skal vera: Vesturbæjarsamtökin pósthólf 438, 121 Reykjavík."

-Er þetta í fyrsta skipti sem samtökin standa fyrir ljóðasamkeppni?

"Já, þetta er í fyrsta skipti sem staðið hefur verið að slíku, en við höfum hins vegar verið með aðrar uppákomur, svo sem alls konar fjölskylduhátíðir, til að hlúa að fjölskyldunni."

-Á hún í vök að verjast í Vesturbænum?

"Nei, hreint ekki, þetta er bæði grænt og vænt hverfi en það er alltaf gott að minna á mikilvægi þess að vera saman."

-Eru þetta fjölmenn samtök?

"Já, allir eru í þeim sem búa í vesturbæ Reykjavíkur, en auðvitað eru íbúarnir misjafnlega virkir. Við höfum haldið fundi á Kaffi Reykjavík og í Naustinu, þar sem þeir staðir eru í okkar hverfi og við fáum þar góða þjónustu."

-Hver átti hugmyndina að ljóðasamkeppninni?

"Hugmyndin kom upp á stjórnarfundi og við ákváðum að sækja um styrk til Reykjavíkur menningarborgar og urðum satt að segja hissa þegar við fengum styrkinn. Við ákváðum þá að reyna að standa veglega að þessari keppni. Við vonumst til að fólk opni skúffurnar sínar og dragi upp ljóðin sem það hefur geymt þar lengi."

-Eru mörg ljóðskáld búsett í Vesturbænum?

"Já, þau eru nokkur, Þórarinn Eldjárn er í dómnefnd hjá okkur, Sjón býr í okkar hverfi, Didda og Þórunn Valdimarsdóttir búa líka í Vesturbænum og margir fleiri, Ólína Þorvarðardóttir, formaður samtakanna, hefur einnig samið ljóð. Við í stjórninni búumst við fjörugri keppni."

-Eru ljóð farin að berast til ykkar?

"Já, við höfum þegar fengið mörg ljóð frá nemendum Vesturbæjarskóla, eldri borgum og nokkur frá Menntaskólanum í Reykjavík."

-Er Vesturbærinn góð uppspretta fyrir ljóð og listir að þínu mati?

"Tvímælalaust. Hér býr gott fólk og umhverfið býður upp á skemmtilega ljóðagerð. Hér í Grjótaþorpinu sem ég bý er Unuhús þar sem helstu skáld þjóðarinnar voru tíðir gestir. Fjalakötturinn sálugi var hér á næsta leiti og margir hafa ort um hann. Tómas Guðmundsson gekk hér um götur og orti um Vesturbæinn. Vesturbærinn hefur lengi verið skáldum hugleikinn."

-Hver eru helstu baráttumál Íbúasamtaka Vesturbæjar?

"Við höfum aðallega lagt áherslu á verndun gamalla húsa, umhverfismál, svo sem hraðahindranir, til að koma í veg fyrir ógætilegan akstur. Við höfum einnig viljað stuðla að skynsamlegri nýtingu auðra lóða."

-Er byggðin ekki afar þétt í ykkar hverfi?

"Jú, en það þarf ekki að vera verra. Það er í lagi að byggð sé þétt, svo framarlega sem hún er skipulögð af skynsemi, himinhá steinhús sóma sér illa við hliðina á litlum og sætum timburhúsum. Það þarf að gæta samræmis í byggðinni."

-Hvernig hefur gengið að gera Grjótaþorpið barnvænt?

"Það hefur gengið vel. Grjótaþorpið er lokaðra en áður var - minni ágangur og færri opin svæði. Hér er yndislegt að búa, náungakærleikur er í fyrirrúmi. Þetta er raun lítið þorp þar sem allir þekkja alla. Þegar maður býr í miðbænum býst maður við að þar sé meiri hávaði en í úthverfum og sættir sig við það. Það er notalegt að búa í Grjótaþorpinu með öllum þess kostum og göllum - ég vil hvergi annars staðar vera.