Stuttbuxnaveður var alla dagana  meðan á ferðalaginu stóð. Arndís yngri er lengst til vinstri, síðan Viktor, Ásgeir, Arndís eldri og Valdimar.
Stuttbuxnaveður var alla dagana meðan á ferðalaginu stóð. Arndís yngri er lengst til vinstri, síðan Viktor, Ásgeir, Arndís eldri og Valdimar.
Á borðstofuborðinu hjá Arndísi Jónsdóttur er gjarnan búið að breiða úr landabréfi. Þá er kominn ferðahugur í hana og Valdimar Jörgensson, eiginmann hennar, og fáar vikur þar til lagt verður í hann. Stundum er kortið frá Íslandi, stundum erlendis frá.

Á borðstofuborðinu hjá Arndísi Jónsdóttur er gjarnan búið að breiða úr landabréfi. Þá er kominn ferðahugur í hana og Valdimar Jörgensson, eiginmann hennar, og fáar vikur þar til lagt verður í hann.

Stundum er kortið frá Íslandi, stundum erlendis frá. Í fyrra var kortið á borðinu af ánni Thames í Englandi. Stefnt var á siglingu um ána á litlum fljótabáti.

"Þrjú elstu barnabörnin okkar fóru með okkur," segir Arndís, sem er 7 barna amma og býr í Grafarvogi í Reykjavík. "Við boðuðum þau á fund í fyrravor, fórum með þau inn í herbergi og sögðum þeim að við þyrftum að fá þau til að hjálpa okkur við mikilvægt verkefni þegar þau væru búin í prófunum."

Ætla þau kannski að mála

Barnabörnin, Ásgeir og Arndís Halldórsbörn og Viktor Jörgensson, voru heldur betur til í að hjálpa til, enda vön því að taka til hendinni með afa sínum og ömmu. Kannski amma og afi ætli að mála í sumar, sögðust þau hafa hugsað, áður en hulunni var svipt af leyndarmálinu. Það kom þeim því alveg í opna skjöldu hversu viðamikið verkefnið reyndist vera: 10 daga ferðalag í útlöndum. Langamma þeirra, sem lést á Þorláksmessu árið áður, hafði látið eftir sig svolítinn sjóð og hann höfðu Arndís og Valdimar ákveðið að nota í þágu barnabarnanna.

Arndís og Valdimar skipuleggja ferðalög sín gjarnan sjálf. "Við erum vön að taka eintak af ferðabæklingum sem verða á vegi okkar," segir Arndís. Þegar heim er komið er bæklingunum fundinn vís staður og þeir síðan dregnir fram þegar næsta ferðalag nálgast.

Meðal bæklinga sem hjónin höfðu viðað að sér var einmitt einn frá breska fyrirtækinu Blakes Holiday Boating. Þau höfðu samband þangað, fengu nýjar og betri upplýsingar og myndabæklinga og ákváðu síðan að leigja sér fimm manna bát í lok maí. "Við gátum líka pantað kort og ferðabækur; þá borgar maður eitthvað smávegis í viðbót," segir Arndís.

Heilabrot við Windsor

Í lok maí flugu ferðalangarnir fimm af stað til London þar sem þau lentu á Heathrow-flugvelli. "Við völdum staðinn þar sem við tókum við bátnum þannig að við kæmumst þangað með leigubíl frá flugvellinum. Okkur þótti það þægilegra þar sem barnabörnin voru með."

Báturinn og starfsmaður ferðaskrifstofunnar biðu í Wargrave, litlu þorpi í útjaðri London. Starfsmaðurinn sigldi með þeim einn hring á ánni til að kenna þeim á bátinn og kvaddi síðan. Í bátnum var káeta með þremur rúmum, salerni með sturtuaðstöðu, eldunaraðstaða og ísskápur og borðstofa þar sem tveir gátu sofið. Hægt var að draga þakið yfir borðstofunni og stýrishúsinu niður.

"Við byrjuðum á því að leita að verslun til að kaupa í matinn. En þorpið er svo lítið að við fundum ekki annað en lítið kaupfélag með litlu vöruúrvali. Við keyptum mjólk og morgunkorn og fátt annað," segir Arndís, sem greinilega þótti rýrt vöruúrval ekki spilla ferðagleðinni heldur auka á sjarmann, ef eitthvað var.

Síðan var lagt í hann og stefnan tekin á Windsor. Þar er Windsor-kastali, eitt af heimilum Elísabetar drottningar, og um hann hafði unga fólkið lesið sér töluvert til, áður en ferðin hófst. "Skyldu Vilhjálmur og Harry mega spila fótbolta á grasinu?" veltu krakkarnir fyrir sér undrandi á öllum herlegheitunum. Kastalinn og líf þeirra sem þar bjuggu varð sannarlega tilefni heilabrota og fjörugra umræðna, rétt eins og flest annað sem á dagana dreif.

Aldrei vefja kaðlinum um handlegginn

Fjöldinn allur af skipastigum er á ánni. Strax við fyrsta stigann sem varð á leið þeirra, kom til þeirra maður sem kenndi unga fólkinu réttu handtökin, "m.a. að þau mættu aldrei vefja kaðlinum um handlegginn á sér," segir Arndís. Frændsystkinin skiptust á, tvö og tvö í einu, að sjá um kaðalinn og strekkja á honum eða slaka eftir atvikum, á meðan yfirborð vatnsins í þrepunum hækkaði eða lækkaði. Á meðan var afi þeirra með skipstjórahúfuna og amma gjarnan með myndavélina á lofti.

Arndís segir að töfrar ferðalagsins hafi ekki síst falist í fjölbreytninni; þau gátu gert stans á litlum stöðum eða í borgum allt eftir því hvað þau langaði hverju sinni. Meðfram ánni var grænt og grösugt landslag, kyrrð og ró, en yfirleitt stutt að fara, ef þau þurftu að sækja þjónustu. Einu sinni sigldu þau fram á nýjan frístundagarð (e. Leisure Center), þar sem þau undu sér lengi dags í vatnaparadís með rennibrautum, gosbrunnum og sundlaugum. Þau fylgdust líka með í sjónvarpinu þegar Manchester United varð Evrópumeistari í fótbolta og settu sig inn í stemmninguna sem því fylgdi. "En það var ánægulegt að sjá hvað krökkum þykir gaman að menningu og sögu. Það þarf ekki alltaf að mata þau á afþreyingu og fjöri. Þau undu sér líka vel um borð í bátnum og slöppuðu af og spjölluðu saman á meðan við sigldum á milli staða."

Bátsferðinni lauk á sjöunda degi. Þá var haldið til Lundúna þar sem þau höfðu tekið hótelíbúð á leigu. Þar fóru þau í marga könnunarleiðangra m.a. að Kensingtonhöll, í dýragarð, þinghúsið, rútuferð um borgina og út að borða í miðborginni á föstudagskvöldi.

"Og við fórum að minnisvarðanum um Viktoríu drottningu, því langamma krakkanna, sem arfleiddi okkur að ferðafénu, hét Viktoría."