[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KIRSTEN Hastrup er danskur mannfræðingur, mörgum Íslendingum kunn, því hún hefur skrifað tvö doktorsrit um íslenskt samfélag.

KIRSTEN Hastrup er danskur mannfræðingur, mörgum Íslendingum kunn, því hún hefur skrifað tvö doktorsrit um íslenskt samfélag. Fyrst fyrir tuttugu árum um þjóðveldistímann, síðan annað fyrir áratug um tímabilið 1400-1800, en sama ár birtist auk þess greinasafn hennar um mannfræðirannsóknir sínar á Íslandi. Nýlega sendi hún svo frá sér fjórðu Íslandsbókina, sem færir rannsóknir hennar til nútímans. Um fyrstu bókina skrifaði ég í DV (vorið 1987), að aðferðin væri frumleg og frjó, en of mikið skorti á að höfundur réði við sögulegar heimildir íslenskar.

Hastrup hefur í nokkur ár verið mannfræðiprófessor við Kaupmannahafnarháskóla. Í tilefni þúsaldamótanna hefur hún nú sent frá sér rit sem fjallar um fræðimennsku - annað en náttúruvísindi - um síðastliðið tveggja og hálfrar aldar skeið. Vel hefði mátt hefja ritið fyrr, ef gengið hefði verið út frá textafræði, t.d., þá hefði landi okkar Árni Magnússon komið við sögu. En Hastrup miðar eðlilega við mannfræði, enda þótt hún hafi kynnt sér grannfræði, og dragi fram það sem sameiginlegt er fræðum, öðrum en náttúruvísindum, en það er að fást við aðstæður fólks og sköpunarverk. Hastrup hefur rit sitt á upplýsingartímanum, á 18. öld, og upphafið markast af miklum rannsóknarleiðangri sem Friðrik konungur fimmti sendi til hinnar sælu Arabíu (Yemen), undir forystu Carsten Niebuhr. Leiðangursmenn áttu að rannsaka sem flest, landaskipan, jurtir út frá flokkun Linnés, mál fólksins og siðvenjur. Niebuhr lifði einn af, leiðangursmanna, en þessi leiðangur leiddi til merkilegra uppgötvana. Hastrup segir frá öðrum rannsóknum, meðal Grænlendinga, indíána, og frá rannsóknum sjálfrar sín á Íslandi. En meginefni bókarinnar er þó ekki að fjalla um einstakar rannsóknir eða vísindaniðurstöur, heldur helstu stefnur og viðhorf sem tíðkast hafa í fræðimennsku á þessum tíma, rökræða kosti þeirra og takmarkanir. Öll eru þau enn við lýði, þótt tískan hafi borið þau til vegs eitt af öðru. Í sem stystu máli má rekja að Upplýsingarmenn sáu fyrir sér fræðimann einsog hann stæði utan við heiminn og safnaði hlutlægum staðreyndum, sem síðan þurfti bara að flokka samviskusamlega í kerfi. En með rómantíkinni á öndverðri 19. öld kom meiri áhugi á menningu, einnig allt annars konar en evrópskri fínmenningu, nú hófst m.a. þjóðsagnasöfnun. þessu fylgdi hins vegar oft e.k. framandgerving, (orientalisering), þar sem megináhersla var lögð á það sem aðskildi frumstæðar þjóðir frá okkur, einkum var þá lögð áhersla á að hinir hefðu eiginleika sem neikvæðir þóttu í vestrænni menningu, svo sem leti, losta, mútuþægni o.fl. þ.h.

Gegn einfaldri staðreyndatrú Upplýsingarmanna, hafa menn fyrir löngu bent á það, að staðreyndir verði til þegar menn flokka skynhrif umhverfisins eftir hugmyndakerfi sínu, og í sögunnar rás hafa kerfi staðreynda oftlega breyst eftir því hvaða hugmyndakerfi ríkti. Af þessu hafa sumir gengið svo langt að telja þá flokkun ósambærilega frá einu menningarsvæði til annars, og t.d. bent á mismunandi greiningu litrófsins í liti á mismunandi málsvæðum, þannig nær t.d. blátt ekki yfir öll sömu litbrigði þegar farið er frá einu menningarsvæði til annars, þannig ættu mörg lykilhugtök að vera óskiljanleg fólki frá öðrum menningarsvæðum. En það er augljós fjarstæða, svo sem hver lesandi getur sannreynt í næstu málningarbúð, við greinum miklu fleiri litbrigði en við eigum orð yfir. En mjög útbreitt afbrigði fyrrgreinds viðhorfs er að telja menningarheima ósambærilega, og að einungis innfæddir geti fjallað af skilningi um menningu sína. Spyrja mætti þá, hvers vegna fólk hrífst af listaverkum frá ólíkum menningarsvæðum og tímum, ef það skilur ekki grundvallaratriði þeirra, hvers vegna meta menn þá hvarvetna t.d. Hómerskviður, Shakespeare, Íslendingasögur, Eddukvæði, Dante. Hastrup leggur áherslu á að fræðileg umfjöllun feli ævinlega í sér fjarlægingu frá viðfangsefninu. En andstætt viðhorf fordæmir hún einnig með rökum og dæmum, en það er að telja heiminn allan vera orðinn eina heild, þar sem vestræn viðhorf ríki hvarvetna. Sitja þá mannfræðingar á alþjóðlegum flugvöllum víða um lönd og horfa þreyttum augum á hamborgara, kók, og fistölvur í alnetssambandi. En Hastrup leggur áherslu á að kanna verði þau sérkennilegu fyrirbæri sem enn séu stöðugt að verða til við mismunandi þjóðfélagsaðstæður.

Hér er ekki rúm til að víkja að mörgu í bókinni. En hverfum loks að einstökum dæmum. Hastrup segist sjálf hafa verið gagnrýnd fyrir framandgervingu af Gísla Pálssyni mannfræðingi, því hún setji hærra frásagnir um fortíðina og sérstaka persónulega reynslu en raunverulega félagslega hegðun Íslendinga. En þessi orð finnst Hastrup sýna raunhyggju, þ.e. trú á óumdeilanlegar staðreyndir í anda Upplýsingarinnar. Einnig deilir hún á Jónas Kristjánsson handritafræðing sem dæmi frumbyggjaréttar, en það viðhorf hefur verið mjög í tísku undanfarið, að konur einar geti dæmt um kvennabókmenntir, samkynhneigðir einir um rit homma, einungis innfæddir indíánar geti raunverulega skilið menningu indíána, o.s.frv. Jónas hefur haldið því fram, að einungis Íslendingar geti fyllilega gripið Íslendingasögur, því þeir einir tali enn málið sem þær voru samdar á, og hafi landslag sagnanna daglega fyrir augum. - Á móti mætti benda á, að þótt við getum lesið sögurnar á frummálinu, þá hafa mörg lykilhugtök nú allt annað inntak en þá, t.d. sæmd, himinn, djöfull og helvíti, synd, fyrirgefning, náð, o.s.frv. Skyldi ekki sanntrúað kaþólskt samfélag standa nær hugsunarhætti sagnanna, sem samdar voru á hámiðöldum. Og skyldi ekki þjóðfélagslegt umhverfi fólks skipta meiru en fjallasýn. Samfélag þar sem venjulegt ríkisvald er lítilsmegnugt, en fáeinar voldugar fjölskyldur takast á, svo lykilhugtök verða ætt, sæmd og blóðhefnd. Skyldu ekki Sikileyingar eða Rússar í Mafíuveldi nútímans þá standa hugarheimi Íslendingasagnanna næst. Ekki segir Hastrup þetta, en leggur réttilega áherslu á frelsi fræðimanna; til að velja sér viðfangsefni og aðferðir, en meginmáli skipti síðan að láta sína ályktun takast á við niðurstöður annarra. Ótækt sé að fordæma kenningu vegna þess hver hafi sett hana fram, vegna þjóðernis hans, trúar, kynferðis, kynhneigðar eða annars. Allar túlkanir eiga rétt á að fá að koma fram, og skoðast, takast á, en auðvitað eru þær ekki allar jafngóðar. Fræðimenn eiga að bera þær saman og rökstyðja hver sé best. Fræðimennska er félagslegt fyrirbæri og alþjóðlegt. Hastrup fylgir því Jóni hraki með orðum Stefáns G.:

Hugði ei sannleik hóti betri

hafðan eftir Sankti-Pétri

heldur en ef svo hending tækist

húsgangurinn á hann rækist.

Þetta er víðfeðmt rit, og mikið yfirlit lærdóms, vel rökstutt, og einkar vel skrifað. Það ætti að vera aðgengilegt öllum almenningi sem dönsku les, þótt fletta þurfi upp einstökum orðum, svo sem ontologi.

Kirsten Hastrup: Viljen til viden. En humanistisk grundbog

Gyldendal 1999, 320 bls.

Örn Ólafsson