Allt er að færast í eðlilegt horf hjá Jóhönnu Kristjónsdóttur í Damaskus. Heimsóknir til skriffinna borgarinnar eru komnar á fullt skrið og myndir og skjöl af viðkomandi Íslendingi hrannast upp á hinum ýmsu stofnunum og þá kemur náttúrlega í ljós að allar upplýsingar frá í fyrra hafa menn varðveitt eins og sjáaldur augna sinna.

SÍMINN var hinsvegar afar tregur til að taka til starfa og reyndi nokkuð á þolinmæði mína í því efni. En ekki ber að vanþakka það sem vel er gert og blússandi hiti á ofnum hefur leyst litla rafmagnsofninn af hólmi, tveir gaflar hafa bæst við í eldhúsinu og þessi líka húðvæna gashella. Og bráðum er trúlegt að fleiri húsgögn bætist við svo ég geti boðið íslenskum gesti sem er væntanlegur í næsta mánuði þægilegt sæti.

Svo auðvitað kemur þetta smám saman en þetta er nú Damaskus.

Við dr. Hazem höfum gert plan um hvernig við hyggjumst halda áfram með "orðabókina" okkar sem við hófum í fyrra. Í henni eru nú hátt í fimm þúsund orð og stefnan er að bæta að minnsta kosti öðru eins við.

Skólinn er ekki hafinn svo ég hef nægan tíma til að hrista ryk af mínum skræðum og fara yfir nauðsynlegustu atriði svo Azem sjái að ég hef ekki misst allt úr hausnum sem þangað var troðið í fyrra.

Að vísu hafa æðimargar stundir farið í að vitja þeirra hjá opinberu stofnununum, þótt þeir hafi allar upplýsingar sakar ekki að fá þær aftur, fjölskylduhagir eru þeim forvitnilegir og svo fram eftir götunum.

Þess á milli spranga ég um í sólskini en flýti mér heim þegar kvöldar enda getur þá orðið býsna hráslagalegt.

Ég hef veitt því eftirtekt að það er verið að gera smáátak í hreinsunarmálum hér í bæ og var kannski ekki vanþörf á. Í stað þess að menn slengi plastpokum með rusli út fyrir dyrnar, og svo er undir hælinn lagt hvort kettirnir eða hreinsunarmennirnir verða á undan, eru nú öskutunnur nær því við hvert hús. Því er þó ekki að leyna að götusópararnir í miðbænum mættu vera aðsópsmeiri. En það er óþarfi að ætlast til að allt gerist í einum hvelli.

Þegar ég fór hins vegar að setja út á þessa þrálátu rigningu næstum hverja nótt kom upp úr dúrnum að hennar hafði verið sárt saknað því það hafði ekki komið dropi úr lofti í háa herrans tíð og allir voru himinglaðir að loks fór að rigna. Fyrir slíku verð ég auðvitað að beygja mig, jafnvel þótt það hafi kostað mig ansi mikla mæðu í byrjun veru minnar hér.

Það gefur mér alveg sérstaka tilfinningu að trítla hér um götur og finna að ég rata. Aðeins einu sinni brást áttaskynið og þá er ekki baun í bala að óttast því Damaskus-búar eru alveg sérlega hlýlegir og hjálplegir þegar útlendingur leitar eftir aðstoð þeirra og reynir í ofanálag að babla pínulítið á málinu þeirra.