NÝIR bílar menga mun meira við venjulega notkun en framleiðendur þeirra gefa upp. Ástæðan er sú að útblástur bifreiða er mældur og staðfestur við talsvert aðrar aðstæður en notkunin fer síðan fram við.

NÝIR bílar menga mun meira við venjulega notkun en framleiðendur þeirra gefa upp. Ástæðan er sú að útblástur bifreiða er mældur og staðfestur við talsvert aðrar aðstæður en notkunin fer síðan fram við. Mestur munur kemur fram við innanbæjarakstur og ef ekið er á mikilli ferð. Þetta kemur fram í grein í Tæknifréttum sem gefnar eru út af Fræðslumiðstöð bílgreina í samvinnu við Bílgreinasambandið og Bíliðnafélagið/Félag blikksmiða.

Í greininni segir að óháð sænsk prófunarstofa, Rototest, hafi rannsakað útblástur þriggja bíla við hefðbundna notkun. Í ljós kom að mengunin frá bílunum var verulega miklu meiri en framleiðendur gáfu upp, en tölur þeirra eru miðaðar við staðlaðar mælingar sem eru ákveðnar af Evrópusambandinu. Við notkun í almennri umferð var magn köfnunarefnisoxíðs í útblæstrinum níu sinnum meira en upp var gefið, átta sinnum meira af komónoxíði og tvisvar sinnum meira af kolvetni.

Við rannsóknina kom í ljós að hvarfakútar ná ekki að hreinsa útblástur þegar verið er að auka hraðann og ekið er á mikill ferð. Skortur á súrefni þegar blandan er "feit" gerir það að verkum að hvarfakúturinn nær ekki að umbreyta kolmónoxíði í koldíoxíð og kolvetni í vatn og koltvíoxíð. Hins vegar nær hvarfakúturinn að hafa nokkur áhrif á magnið af köfnunarefnisoxíði.

Hegðun bílstjóra önnur en staðlar gera ráð fyrir

Samkvæmt fyrrnefndum stöðlum Evrópusambandsins er við útblástursmælingar gert ráð fyrir að bílum sé gefið rólega inn og að gjöfin sé aldrei sett í botn. Hegðun bílstjóra í hefðbundinni umferð er hins vegar ekki með þessum hætti og oft á hraðaaukning úr kyrrstöðu upp í 50-60 km/klst sér stað á fáum sekúndum, til dæmis þegar tekið er af stað á umferðarljósum.

Samkvæmt niðurstöðum sænsku mælinganna er nokkur munur á hversu illa þeir þrír bílar sem notast var við í rannsókninni hreinsa útblásturinn. Var það allt frá því að hreinsunin byrjaði að skerðast við hálfa gjöf og upp í að skerðast fyrst þegar gjöfin er í botni.

Þrjár mismunandi gerðir bifreiða voru notaðar með ólíkar stærðir véla og mismunandi útbúnaði. Þrátt fyrir þetta telur Rototests að niðurstöðurnar séu marktækar en stofnunin bendir á að nauðsynlegt sé að gera frekari mælingar til að geta lagað staðla og reglugerðir sem best að raunveruleikanum. Þó væri best að hvarfakútarnir virkuðu fullkomlega við allar aðstæður og að því bæri að stefna.