Sigríður Björnsdóttir
Sigríður Björnsdóttir
ÚT ER komin geislaplatan "Hve glöð er vor æska" þar sem Sigríður Björnsdóttir frá Kleppustöðum syngur íslensk einsöngslög við píanóundirleik Úlriks Ólasonar. Sigríður Björnsdóttir fæddist 9.

ÚT ER komin geislaplatan "Hve glöð er vor æska" þar sem Sigríður Björnsdóttir frá Kleppustöðum syngur íslensk einsöngslög við píanóundirleik Úlriks Ólasonar.

Sigríður Björnsdóttir fæddist 9. nóvember árið 1918 á Grænanesi við Steingrímsfjörð en ólst upp á Kleppustöðum, innsta bæ í Staðardal undir Steingrímsfjarðarheiði, elst tólf systkina.

"Foreldrar Sigríðar, Björn og Elín frá Kleppustöðum voru höfðingjar heim að sækja og enginn kotungabragur á neinu hvort sem um var að ræða atlæti eða umræðu. Kleppustaðir var menningarheimili þar sem íslensk alþýðumenning átti sér djúpar rætur. Björn, faðir Sigríðar, hafði afar fagra söngrödd og var söngmaður góður. Snemma fór að bera á óvenju góðum sönghæfileikum Sigríðar. Tveggja ára var hún farin að syngja hárri raustu og sagt er að Björn bóndi á Kleppustöðum hafi átt þá ósk í brjósti að Sigríði dóttur hans gæfist tækifæri til að læra söng. Það var þó ekki fyrr en Sigríður var komin vel á áttræðisaldurinn að hún hóf markvisst söngnám þó kórsöng hafi hún stundað alla tíð," segir í fréttatilkynningu.

Nú síðsumars "um hábjargræðistímann", eins og Sigríður segir sjálf, lagði hún land undir fót, komin á níræðisaldur, og hélt til Reykjavíkur til að láta gamlan draum verða að veruleika, en það var að syngja inn á tónband nokkur íslensk einsöngslög og að varðveita þar með rödd sína. Þessar hljóðritanir hafa nú verið gefnar út og hlaut útgáfan styrk frá framkvæmdastjórn Árs aldraðra en Polarfonia Classics ehf. sér um útgáfuna.

Geisladiskinn tileinkar Sigríður minningu foreldra sinna Björns og Elínar frá Kleppustöðum.

Diskurinn er fáanlegur í mörgum hljómplötuverslunum en hann er einnig hægt að panta hjá útgefanda, polarfonia@itn.is.