GRIKKIR ætla að reyna að fá stuðning ýmissa nánustu bandamanna Breta við þá kröfu sína, að Bretar skili þeim aftur Elgin-marmarastyttunum, sem svo eru kallaðar. Var það haft eftir menningarmálaráðherra Grikklands í fyrradag.
Elisavet Papazoi, menningarmálaráðherra Grikkja, sagði, að reynt yrði að fá stjórnvöld eða frammámenn í ýmsum ríkjum, til dæmis Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu, til að leggja að Bretum að skila styttunum, sem eru 2.500 ára gamlar. Eru þær kenndar við Elgin lávarð, sem var sendiherra Bretlands í Ottómanaríkinu eða Tyrkjaveldi. Keypti hann stytturnar 1801 og lét fjarlægja af Parþenon eða Meyjarhofinu á Akrópólishæð í Aþenu.
Keyptar af Tyrkjum
Papazoi kom með fyrrnefnda yfirlýsingu eftir viðræður við Jeff Kennett, fyrrverandi forsætisráðherra Viktoríuríkis í Ástralíu, en hann situr í ástralskri nefnd, sem skorað hefur á neðri deild breska þingsins að skila Grikkjum styttunum. Eru þær 17 talsins og auk þess er um að ræða hluta af 160 metra langri myndræmu, sem skreytti á sínum tíma Meyjarhofið. Bretar halda því fram, að listaverkin hafi verið keypt með löglegum hætti þegar Grikkland var hluti af Ottómanaríkinu og þeir neita þeim ásökunum Grikkja, að myndirnar hafi verið skemmdar í hreinsun.Jeff Kennett sagði, að um væri að ræða mikilvægustu deilu um menningarleg verðmæti í upphafi þessarar þúsaldar. "Stytturnar eru óaðskiljanlegur hluti af Meyjarhofinu og þangað á að skila þeim," sagði hann.