[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Qaanaaq-byggð, eða Thule, í Norðvestur-Grænlandi er nyrsta byggðarlag í heimi. Þar er þess nú beðið að birti eftir fjögurra mánaða heimskautanótt. Ragnar Axelsson ljósmyndari heimsótti Qaanaaq áður en dimmdi í fyrra.

Fjóra mánuði á ári sér ekki til sólar í Qaanaaq. Sumarið bætir það upp þegar sólin er jafnlengi á lofti. Heimskautamyrkrið hefur nú legið yfir Norður-Grænlandi frá því snemma í nóvember. Þar er þó sjaldnast almyrkvað því hjarnið endurkastar stjörnuskininu og tunglsljósinu í heiðríkju heimskautaloftsins. En nú er farið að skíma við sjóndeildarhring og veiðimennirnir greina aftur lit á hundum sínum. Sólin gægist yfir fjöllin í Qaanaaq þann 17. febrúar og verður henni fagnað að vanda með söng og gleðskap líkt og hún var kvödd með trega í haust er leið. Þegar birtir fer kaldasti tími ársins í hönd. Frostið getur farið niður í -40°C og jafnvel -50°C í febrúar og mars. Á sumrin getur hitinn stigið í allt að 18ºC enda skýlt og stillt í þröngum fjörðunum. Úrkoma er ekki mikil á Norður-Grænlandi, að meðaltali einungis um 6 cm, og er svæðinu stundum líkt við eyðimörk hvað það varðar.

Sveitarfélagið er nú nefnt eftir höfuðstaðnum Qaanaaq en hét áður Avanersuaq sem þýðir "landið lengst í norðri" eða "landið í mikilli fjarlægð". Svæðið er einnig oft kennt við Thule, nafn verslunarstaðar þeirra Knuds Rasmussens og Peters Freuchens, sem yfirfærðist á alla byggðina. Sveitarfélagið nær frá Stenstrup-jökli við Melville-flóa í suðri og allt norður að Peterman-jökli, heila 750 km í beinni loftlínu. Þarna er að finna nyrstu mannabyggð í heimi, að undanskildum nokkrum bækistöðvum, sem staðsettar hafa verið nær norðurpólnum, til að afla þekkingar á náttúru og veðurfari eða til að nema verðmæti úr jörðu. Í Qaanaaq er meðalhiti níu mánaða ársins undir frostmarki. Þetta byggðarlag er því ótvírætt á mörkum hins byggilega heims og hefur raunar oft reynst vera handan þeirra marka.

Byggðin í þessu víðfeðma héraði var einkum við tvo firði, Kangerlussuaq (Inglefield-fjörð) og Uummannaq Kangerlua (Wolstenholme-fjörð), og við norðanverðan Qimuseriasuaq (Melville-flóa). Fólkið lifði á veiðum og flutti sig um set eftir árstíðum. Yfir veturinn bjó það í torfkofum og í skinntjöldum á sumrin. Á vetrarferðum voru hlaðin snjóhús eða gist í hellum.

Fleiri hundar en menn

Þorpið Qaanaaq er á norðurströnd Inglefield-fjarðar og höfuðstaður héraðsins. Orðið Qaanaaq hefur tvenns konar merkingu: "Þar sem fyrst sér til sólar" og "staðurinn sem líkist holinu undir svefnbekknum". Í þorpinu búa 650 manns af rúmlega 800 í héraðinu, en íbúafjöldi Grænlands er um 56 þúsund manns. Í héraðinu um 1.000 sleðahundar, snöggtum fleiri en mannfólkið. Hundasleðinn er eitt helsta samgöngutæki almennings og nauðsynlegur við öflun lífsbjargar.

Gamli og nýi tíminn mætast í þorpinu. Þar er skóli, fiskvinnsla, pósthús, símstöð, kirkja, verslun, tvö minjasöfn og snyrtilegt hótel. Þess má geta að hótelstjórinn er með heimasíðu um Qaanaaq. Slóðin er http://www.iserit.greennet.gl/hansje/hotel.html.

Þorpið Qaanaaq er um 1.300 km norðan við heimskautsbaug og þaðan eru um 1.400 km á norðurpólinn. Nyrsta byggðin í Qaanaaq-héraði er í Siorapaluk við Robertson-fjörð. Nafnið merkir "litlu sandar" og dregið af sandfjöru framan við byggðina. Þar búa um 80 manns og lifa einkum á veiðum. Robertson-fjörður er þekktur fyrir mikið haftyrðlavarp sem löngum hefur reynst heimamönnum búbót. Frá Siorapaluk eru 1.362 km á norðurpólinn. Enn norðar var svo byggðin í Etah sem nú er í eyði.

Veitt til matar

Þótt hin óendanlega hvíta auðn virðist ekki hentug til búsetu í augum malbiksfólks, hafa dugmiklir veiðimenn og fjölskyldur þeirra dregið þarna fram lífið kynslóð eftir kynslóð. Tilvera fyrri kynslóða var algjörlega undir því komin sem náttúran gaf á hverjum tíma. Þá komu hvorki vorskip né haustskip. Þegar veiðin brást féll fólkið úr hor eða gekk fyrir ætternisstapa. Sögur eru til af mæðrum sem bundu enda á líf barna sinna í hallærum.

Margir hafa enn framfæri sitt af veiðiskap og sækja björg í bú að hætti forfeðranna á hundasleða eða húðkeip. Oftast hefur náttúran reynst gjöful og þá er gaman að lifa. Sjávarspendýrin hafa reynst drýgst, selir, rostungar og náhvalir og svo ísbirnir og sjófuglar, þar eru haftyrðlar og æðarfuglar efstir á matseðlinum. Enginn kvóti er á ísbjarnaveiði á Grænlandi, en landstjórnin hefur sett reglur um veiðarnar, sem m.a. kveða á um verndun birna með húna. Ísbirnir veiðast helst við austur- og norðvesturströnd Grænlands. Þeir hafa löngum þótt mesti happafengur og eftirsóttir vegna kjötsins og feldsins. Kjötið þykir lostæti og björninn étinn upp til agna, að undanskilinni lifrinni. Meira að segja sleðahundunum verður illt af ísbjarnarlifur. Úr feldinum voru saumaðar buxur á karlana og "kamikkur", eða stígvél, á kvenfólkið. Sauma mátti þrennar brækur og einar kamikkur úr meðalfeldi.

Ísbirnir áttu sinn sess í þjóðtrúnni og bar þeim tilhlýðileg virðing, líkt og öðrum veiðidýrum. Veiðimaður sýndi sál bjarnarins virðingu með því að hengja húðina upp í snjóhúsi sínu í nokkra daga. Ef bangsi hafði verið karlkyns, þótti við hæfi að setja verkfæri á borð við hnífa og nafra hjá húðinni, ef um birnu var að ræða voru þar settir hnífar, sútunarsköfur og nálhús. Frumbyggjarnir trúðu því að birnirnir leyfðu fólki að drepa sig til að komast yfir sálir verkfæranna svo þeir gætu tekið þær með sér inn í næstu tilveru. Sú var trú manna að björn sem felldur hafði verið með virðingarverðum hætti gerði öðrum björnum viðvart. Eftirlifandi birnir myndu þá sækjast eftir því að láta slíka heiðursmenn vega sig, frekar en að falla fyrir einhverjum rustum, sem enga siði kunnu.

Hálendingar heimskautsins

Fyrstu sögur af ferðum Evrópumanna um þessar slóðir eru af William Baffin árið 1616. Hann var að leita að "norðvesturleiðinni" svokölluðu, siglingarleið frá Evrópu til Indlands. Ekki fer neinum sögum af kynnum Baffins við mannfólkið í Thule, en sýnilegur árangur af ferð hans er fjöldi örnefna. Fyrstu sagnir af kynnum Evrópumanna og Thule-fólksins eru frá árinu 1818. Þá sigldi skoski landkönnuðurinn John Ross í kjölfar Baffins, einnig í leit að norðvesturleiðinni. Ross sigldi norður Melville-flóa og hitti fólk við Jórvíkurhöfða sem hann nefndi "Hálendinga heimskautsins". Þeir hafa einnig verið nefndir Thule-eskimóar og heimskautaeskimóar. Sjálfir nefna þeir sig Inughuit, sem merkir "stolta fólkið" eða "mikla fólkið".

Næstu áratugi lögðu hvalveiðimenn leið sína á þessar slóðir og áttu nokkur viðskipti við heimamenn. Frá miðri 19. öld færðist það í vöxt að hvítir menn hefðu vetursetu á þessum slóðum. Bandaríski landkönnuðurinn Robert Peary setti þar upp bækistöðvar fyrir leiðangra sína á árunum 1892-1909. Peary bar virðingu fyrir menningu heimamanna, en dvöl hans á svæðinu markaði þáttaskil í samskiptum Thule-fólksins við umheiminn. Veiðimennirnir eignuðust riffla og stálhnífa og í stað gömlu hvalbeinssleðanna komu trésleðar með járnmeiðum. Peary, sem Thule-menn kölluðu Píúlí, lærði af frumbyggjunum og naut hjálpar þeirra og þekkingar á ferðum sínum. Hann komst fyrstur manna á norðurpólinn, 6. apríl 1909, ásamt blökkumanninum Henson og fjórum Thule-búum.

Verslun í Thule

Leiðangur undir stjórn dansk-grænlenska landkönnuðarins Knuds Rasmussens kannaði þessar slóðir á árunum 1903-4. Fram að því höfðu inughuitarnir norðan Melville-flóa ekki átt samskipti við fólkið sunnan flóans. Nokkrir veiðimenn norðan úr Thule fylgdu leiðangri Rasmussens suður yfir Melville-flóa og kynntust þá fyrst löndum sínum á Vestur-Grænlandi.

Þegar Rasmussen sneri aftur til Danmerkur óskaði hann eftir því að Danir gerðu þetta svæði að nýlendu sinni. Ekki var orðið við þeirri ósk, en safnað peningum og skip sent til Thule árið 1905 með ýmsar nauðsynjar að gjöf til íbúanna þar. Rasmussen sneri aftur og dvaldi í Thule 1906-8. Dönsk stjórnvöld urðu ekki við endurteknum óskum Rasmussens um að stofna þar bækistöð, en kirkjan óskaði aðstoðar hans við að setja upp kristniboðsstöð. Sumarið 1909 kom skipið Godthaab á Norðurstjörnuflóa með tilsniðið timbur í íbúðarhús fyrir kristniboða og í vörugeymslu. Það tók tólf daga að reisa húsin og því næst var danski fáninn dreginn að húni. Sagan segir að þegar Peary kom frá norðurpólnum og sá danska fánann blakta í Thule hafi honum brugðið svo mjög að hann hafi siglt skipi sínu í strand.

Enn kom Rasmussen til Danmerkur og bað um að Norðvestur-Grænland yrði gert að nýlendu. Dönsk stjórnvöld voru ekki viss um hvaða viðbrögð það fengi hjá öðrum þjóðum að þau lýstu yfirráðum á svæðinu. Árið 1910 fóru þeir Knud Rasmussen og Peter Freuchen, rithöfundur og landkönnuður, til Thule og settu á stofn verslun í eigin nafni, Jórvíkurhöfðastöðina við Norðurstjörnuflóa. Þar var Uummannaq-byggðin og nefndu þeir félagar verslunarstöðina Thule sem um síðir yfirfærðist á allt héraðið. Peter Freuchen var gerður að verslunarstjóra og gegndi því embætti til 1920. Frá Thule fóru Knud Rasmussen, Peter Freuchen og fleiri í langa leiðangra um óþekktar slóðir Grænlands og vestur um norðurhéruð Kanada.

Íslendingar sem komnir eru yfir miðjan aldur þekkja margir til bóka Peters Freuchens og Knuds Rasmussens um lífið þarna á norðurhjara. Peter Freuchen hefur stundum verið sakaður um að færa hressilega í stílinn, en hann verður seint vændur um að hafa skrifað leiðinlegar bækur. Undir lok þriðja áratugar aldarinnar var byggt sjúkrahús í Thule og hús sem kennt var við Knud Rasmussen. Þar var skólinn til húsa. Um svipað leyti reis einnig kirkja á staðnum.

Knud Rasmussen hafði forgöngu um að sett voru svonefnd Thule-lög og skipað veiðimannaráð 1927. Veiðimannaráðið var stjórn svæðisins og í því áttu sæti stjórnandi Thule-stöðvarinnar, presturinn, læknirinn og þrír veiðimenn, hver úr sinni byggð. Danir staðfestu Thule-lögin 1931 og tóku að fullu við stjórn á Thule-svæðinu árið 1937. Þessi yfirtaka Dana tengdist landakaupum í Vestur-Indíum með sérstökum hætti. Danir seldu Bandaríkjunum hinar dönsku Jómfrúreyjar árið 1917. Í samningnum var ákvæði þess efnis að Bandaríkin viðurkenndu yfirráð Dana í Norður-Grænlandi. Þeir munu hafa óttast að landkönnunarferðir sjóliðsforingjans Pearys veittu Bandaríkjunum tilkall til yfirráða á þessu svæði.

Herstöðin í Thule

Þegar síðari heimsstyrjöldinni lauk var sett á fót dönsk-amerísk veðurathugunar- og fjarskiptastöð í Pitufik, nálægt Uummannaq. Bandaríkjamenn byggðu þar síðan stóran flugvöll og ratsjárstöð á árunum 1951-53. Þá bjuggu 105 manns, veiðimenn og fjölskyldur þeirra í nágrenni vallarins. Vorið 1953 var fólkið flutt nauðugt og með skömmum fyrirvara 130 km norður þangað sem þorpið Qaanaaq er nú.

Thule-fólkið hefur ekki getað sætt sig við nauðungarflutninginn. Það höfðaði mál gegn danska ríkinu þar sem krafist var hárra fébóta fyrir röskun á lífshögum og þjáningar, afsökunarbeiðni af hálfu danskra stjórnvalda og óhefts aðgangs að gömlum veiðilendum.

Hinn 27. ágúst sl. kvað Eystri landsréttur í Danmörku upp dóm í málinu. Viðurkennt var að um nauðungarflutning hefði verið að ræða og 63 íbúum í Thule dæmdar skaðabætur upp á samtals 1,2 milljónir danskra króna. Hinn 2. september sl. bað Paul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra, fyrir hönd danska ríkisins, íbúa Thule afsökunar á nauðungarflutningunum 1953 og í lok sama mánaðar ákváðu íbúar Thule að áfrýja dóminum.

Herstöðin í Thule er enn til umræðu. Bandaríkjamenn hafa farið fram á að gera endurbætur á ratsjárstöðinni svo hún geti orðið hluti af fyrirhuguðu eldflaugavarnakerfi. Grænlendingar segjast vilja leyfa það, með þeim skilyrðum að þeir fái að vera viðstaddir samningafundi Dana og Bandaríkjamanna; að tryggt sé að ekki verði unnin spjöll á náttúru og lífríki landsins og að því tilskildu að Rússar séu ekki andvígir framkvæmdinni.

Íslendingar byggja flugvöll

Siglingaleiðin til Qaanaaq er aðeins fær frá því í lok júlí og fram í október. Áætlunarflug er frá Kaupmannahöfn og Kanada um völlinn í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) í Suður-Grænlandi til flugvallarins í Pitufik. Völlurinn er herflugvöllur og þarf því að sækja um leyfi með mánaðarfyrirvara til að fara þar um. Grænlandsflug annast svo þyrluflug frá Pitufik til þorpanna í héraðinu.

Undanfarin sumur hefur verið unnið að gerð 1.100 metra langrar flugbrautar um 4 km frá þorpinu Qaanaaq. Flugvöllurinn verður opinn almennri flugumferð og er stefnt að því að ljúka flugvallargerðinni næsta sumar. Þarna eiga Íslendingar hlut að máli en Ístak er aðili að verktakasamssteypunni Permagreen sem vinnur verkið.

Bjarki Laxdal hjá Ístaki fór í fyrra til Qaanaaq og var verkstjóri við flugvallargerðina. Staðurinn er afskekktur og unnið allan sólarhringinn til að nýta tímann sem best.

Bjarki segir að um miðjan júní sé jörð farin að þiðna að því marki að hægt sé að hefja jarðvinnu. Það sé þó ekki fyrr en um mánaðamót júní og júlí sem hægt sé að fara á fullan skrið. Þarna er sífreri undir og rétt yfirborðið sem þiðnar. Um leið og kólnar fer klakinn að skríða upp undir yfirborðið, ólíkt því sem hér gerist þar sem frýs ofanfrá. Þegar kemur fram í byrjun september fer að hægja á framkvæmdum og störfum hætt í byrjun október.

Að sögn Bjarka hafa um 25 manns unnið við flugvallargerðina, þar af 10-12 Íslendingar. Bjarki segir Íslendinga hafa þótt reynast vel við vinnu af þessu tagi. Þeir séu "skorpumenn" og tilbúnir að leggja mikið á sig. Ekki veiti af til að nýta þetta stutta sum ar.

Bjarki segir allar aðstæður erfiðar. "Ef ég hefði til dæmis ákveðið í fyrrahaust að breyta um tækjauppstillingu hefði það verið of seint fyrir næsta sumar. Vorskipið kemur í byrjun ágúst og þá erum við búnir að vera að hálft sumarið."

Krónprins úti í kuldanum

Ævintýri og hetjudáðir heimskautafara heilla margra. Þótt nú hafi nær allar slóðir verið þaulkannaðar og búið að sigrast á flestum hindrunum kjósa menn enn að reyna sig við harðneskjuna í norðri.

Um þessar mundir er Friðrik krónprins Dana að leggja upp ásamt fimm ferðafélögum í 3.500 km langa hundasleðaferð. Leiðangurinn, sem kallast Expedition Sirius 2000, hefst í Qaanaaq og á að ljúka, ef allt fer að óskum, í Daneborg norðan við Scoresby-sund á Austur-Grænlandi í júní næstkomandi.

Ferðin er farin í tilefni af 50 ára afmæli Grænlandsflotadeildar danska flotans. Ferðafélagar krónprinsins hafa flestir þjónað í Sirius-herdeildinni sem er sérþjálfuð til starfa í óbyggðum Grænlands. Farartækin eru hefðbundnir hundasleðar og gist í tjöldum og kofum á leiðinni. Hægt er að fylgjast með framvindu þessa ævintýris á Netinu. Slóðin er www.ekspeditionen.tv2.dk.