Það voru níu hundar sem drógu sleðann og eigandinn, Denis Pedersen, segir að yfirleitt séu hundarnir á bilinu 9-11 sem dragi hvern sleða.
Það voru níu hundar sem drógu sleðann og eigandinn, Denis Pedersen, segir að yfirleitt séu hundarnir á bilinu 9-11 sem dragi hvern sleða.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hundarnir eru ákafir, þeir virðast skynja að nú fái þeir að spreyta sig. Það er níu ára stúlka með mér í för sem fer að klappa ferfætlingunum sem kunna auðsjáanlega að meta vinahótin.

Hundarnir eru ákafir, þeir virðast skynja að nú fái þeir að spreyta sig. Það er níu ára stúlka með mér í för sem fer að klappa ferfætlingunum sem kunna auðsjáanlega að meta vinahótin.

Andrúmsloftið er framandi þegar fátt heyrist annað en spangólið í hundunum og danskar skipanir eigandans Denis Pedersens. Hann stjórnar hundunum með tóntegundinni, kallar á þá með nafni og hrósar í léttum tón þegar vel gengur og vandar um við þá með annarri tóntegund.

Denis er vanur hundasleðaferðum. Hann var í tólf ár í danska hernum og bjó þar af tvö ár á Grænlandi. Einnig þjónaði hann í lífvarðasveit Margrétar Danadrottningar um skeið.

Á Grænlandi fór hann m.a. í 2.500 km ferð á hundasleða. "Við vorum tveir sem ferðuðumst saman á hundasleða með ellefu hunda. Þetta ferðalag tók okkur fjóra mánuði. Við sváfum í tjöldum og á hálfs mánaðar fresti komum við að kofa þar sem hægt var að fá birgðir af hundamat, mat fyrir okkur og olíu. Þetta var lengsta ferðin sem ég hef farið í á hundasleða en í fyrra fór ég í mánaðarferð með vini mínum og við fórum m.a. á Vatnajökul, í Jökulheima og við komum niður skammt hjá Egilsstöðum.

Með 6 hunda til Íslands

Þegar Denis er spurður hvernig honum hafi upphaflega dottið í hug að koma til Íslands með grænlenska hunda í þessum tilgangi segist hann hafa þurft að hafa eitthvað fyrir stafni þegar ljóst lá fyrir að hann myndi flytja til Íslands með konunni sinni, Berglindi, sem er íslensk.

"Berglind var líka viss um að Íslendingar og erlendir ferðamenn kynnu að meta þessar ferðir.

Ég kom með sex grænlenska hunda með mér og síðan hef ég verið að rækta þá og nú eru þeir orðnir þrjátíu," segir Dennis

Það var fyrst í fyrra sem hann hóf að bjóða upp á hundasleðaferðir af alvöru. "Ég hef verið í samstarfi við vélsleðaleiguna Geysi og við byrjuðum á að bjóða ferðir á Mýrdalsjökul. Þá bjó ég á jöklinum og tók á móti fólki þegar það kom upp á jökulinn á vélsleðum. Við fórum þaðan í sleðaferð sem tekur hálftíma til klukkutíma."

Dennis ákvað að vera með ferðir frá Hellisheiði í vetur og hann býður upp á stuttar ferðir fyrir fjölskyldufólk og aðra áhugasama. "Ég er með aðsetur rétt fyrir ofan Skíðaskálann og hef opið frá miðvikudögum og fram til sunnudags ef veður leyfir þ.e. ef það er nægur snjór.

Við erum frá hálftíma og upp í klukkustund og getum tekið fjögurra manna fjölskyldu á einn sleða en við erum með tvo sleða alla jafna.

14 daga ferðir framundan

En hvað um lengri ferðir?

"Já, það er ýmislegt framundan. Við erum að bjóða allt frá klukkustundar ferðum og upp í nokkurra daga ferðir og allt upp í hálfan mánuð ferðir fyrir áhugasama. Þá gistum við í tjöldum og skálum og förum t.d. um miðhálendið eða á Vatnajökul."

En meiða hundarnir sig ekkert?

"Nei, ekki ef passað er að leggja ekki of mikið á þá og þá hafa þeir gaman af þessu. Grænlensku hundarnir eru alltaf úti og þeir eru orkumiklir og þurfa mikla hreyfingu. Hver hundur getur dregið allt að 50 kíló og því geta 9-13 hundar dregið sleða með fjórum fullorðnum eða eftir þyngd farþega og færðinni."

Hvað kostar svo fyrir fjölskyldu að fara í hundasleðaferð á Hellisheiði?

"Gjaldið fyrir stuttu ferðirnar eru 4.900 krónur fyrir fullorðna og 3.000 krónur fyrir börn."