Sveitrasetrið Mas Els Botins sem er eitt af 50 sveitagistihúsum sem ferðamálaráð Katalóníu mælir með.
Sveitrasetrið Mas Els Botins sem er eitt af 50 sveitagistihúsum sem ferðamálaráð Katalóníu mælir með.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með náttúruna að vopni hafa ferðamálasamtök Barcelona undanfarin ár keppst við að markaðssetja nýja ímynd Spánar fyrir sólþyrsta ferðalanga. Margrét Hlöðversdóttir segir að ekki sé eingöngu um sól og strandlengju0r að ræða, heldur einnig stórbrotna náttúrufegurð og sögulegar minjar.

Gistimöguleikarnir eru óendanlegir, allt frá fjallakofum upp í gulli skrýddar hallir.

Ferðamálasamtök Katalóníu, sem eru í höfuðborginni, Barcelona, hafa verið iðin við að kynna innlendum sem erlendum ferðamönnum hin mörgu, ólíku og litríku sveitahéruð svæðisins, sem mótvægi við hina þekktu ímynd Costa Brava-strandlengjunnar.

400 sveitasetur

Ferðamenn sem koma til Katalóníu geta valið á milli ríflega 300 tjaldsvæða, 1.000 mismunandi hótela , 400 sveitasetra, hátt í 90 "paradora" sem eru oft gömul klaustur eða hallir auk þess sem hótelin á vinsælustu ferðamannastöðunum, eins og t.d. á Costa Brava ,bjóða upp á séríbúðir eða hús til leigu.

Vilji menn komast fjær helstu ferðamannastöðunum og nær náttúrunni, staðarfólkinu og menningu þess er fátt sniðugra en að gista á spænskum sveitasetrum sem oftar en ekki búa yfir mörg hundruð ára "sjarma".

Í Katalóníu er hægt að velja á milli um 400 sveitasetra, eða þess sem oft er kallað bændagisting. Þau eru hinsvegar jafn mismunandi og þau eru mörg og ýmist hægt að leigja þau í heild sinni eða leigja herbergi með tiltekinni þjónustu.

Cemma Carol, verkefnisstjóri hjá ferðamálaráði Katalóníu, hefur stýrt markaðsátaki á sveitasetrum sem nefnast einu nafni GITES DE CATALUÑA. Hún segir að undir þennan hóp heyri 50 sveitasetur, sem hafi verið sérstaklega valin af ferðamálaráði og uppfylli því ákveðnar gæðakröfur. Þau eigi það sameiginlegt að vera staðsett í litlum bæjum eða þorpum þar sem umhverfið sé fallegt, hönnunin vönduð í upprunalegum stíl og við setrin séu stórir garðar og oft sundlaug. Þá sé kappkostað að veita á hverjum stað persónulega þjónustu og upplýsingar um nálægar skoðunar- eða skemmtiferðir.

20.000-25.000 krónur vikan

Ekki spillir svo fyrir að verðið er yfirleitt í lægri kantinum, allt frá 40-50.000 pesetum vikan sem eru um það bil 20.000-25.000 krónur. Þó er ekki hægt að gefa neitt meðalverð.

Ekki eru nema 3 ár síðan farið var að markaðssetja sérstaklega þessa tegund húsa og segir Cemma að í Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi sé þetta þegar orðið mjög vinsælt. Fram að þessu hafi menn ekki verið með hugann við Ísland, en vissulega sé það spennandi markaður.

Fjölmörg önnur sveitasetur, oft í sambærilegum gæðaflokki, bjóða herbergi til leigu, þar sem persónuleg þjónusta er í fyrirrúmi og oftar en ekki boðið upp á heimatilbúinn og hefðbundinn mat og vín viðkomandi svæðis.

Klaustur og hallir

Auk sveitasetranna er víða í fallegum sveitahéruðum Spánar, borgum og bæjum, að finna spænsku paradorana, sem eru oftast sögulegar byggingar eins og klaustur eða hallir sem hafa verið gerðar upp sem fjögurra- eða fimmstjarna gististaðir. Ríkir Ameríkanar hafa lengi verið meðal helstu viðskiptavina paradoranna, auk Spánverjanna sjálfra, og verðið því svipað og á hótelum. Aðalsmerki paradora er fallegt umhverfi, stórfenglegt útsýni, gómsætur og hefðbundinn matur og persónuleg þjónusta.

Þeir sem heimsækja Barcelona þurfa ekki að fara langt til að upplifa ekta, spænska sveitamenningu í bland við hin hröðu klukknaslög borgarinnar. Allt er þetta jú spurning um tíma og peninga.