VIÐMÆLENDUR Morgunblaðsins nefndu margir gríðarlegar framfarir Finna í vísindaheiminum á undanförnum árum.

VIÐMÆLENDUR Morgunblaðsins nefndu margir gríðarlegar framfarir Finna í vísindaheiminum á undanförnum árum. Töldu þeir einsýnt að Íslendingar gætu lært margt af frændum vorum, sem í miðri efnahagskreppunni, sem hófst skömmu áður en Sovétríkin liðuðust í sundur, hefðu ákveðið að margfalda framlög til vísindastarfsemi, einkum þó grunnrannsókna, og við það hefði allt vísindastarf í landinu tekið vaxtarkipp.

Stórfyrirtækið Nokia er líklega besta dæmið um hátæknifyrirtæki sem sprottið er upp úr þeim frjóa jarðvegi sem verið hefur í finnskum grunnrannsóknum síðasta hálfan annan áratug eða svo. Stórfyrirtækið, sem áður var einkum þekkt fyrir stígvélaframleiðslu sína, hefur á allra síðustu árum þanist út á heimsvísu, einkum vegna þeirrar þekkingar og þess forskots sem finnskir vísindamenn tóku í heimi fjarskiptanna. Nokia-farsíma þekkja nú flestir og aðra hátækniframleiðslu fyrirtækisins.

Finnar hafa einnig tekið stórt stökk fram á við í lyfjaiðnaði svo eftir hefur verið tekið. Finnsk fyrirtæki eru nú mörg í fararbroddi í rannsóknum og þróun nýrra lyfja.

Íslenskir læknar telja finnska dæmið kjörna áminningu til stjórnvalda hér á landi. Hugsanlegur ávinningur þess að auka framlög til rannsókna sé mikill og fjárhagslegt mikilvægi öflugra vísindastofnana og fyrirtækja muni aukast enn frekar á komandi árum.