LANDSBANKI Íslands hf. á Austurlandi efnir til ráðstefnu um atvinnulíf á Ajusurlandi á Hótel Héraði á Egilsstöðum 11. febrúar kl. 13-17.

LANDSBANKI Íslands hf. á Austurlandi efnir til ráðstefnu um atvinnulíf á Ajusurlandi á Hótel Héraði á Egilsstöðum 11. febrúar kl. 13-17. Þar mun hópur fyrirlesara fjalla um stöðu og framtíðarhorfur atvinnulífs á svæðinu í ýmsum atvinnugreinum, svo og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Með ráðstefnunni vill Landsbankinn stuðla að markvissri umræðu um uppbyggingu atvinnulífs á Austurlandi og hvernig unnt sé að styrkja enn frekar atvinnustarfsemi á svæðinu.

Ráðstefnan hefst með setningarávarpi Kristján Einarssonar, svæðisstjóra Landsbankans á Austurlandi, en að því búnu hefjast fyrirlestrar um nýsköpun, rekstur minni fyrirtækja, sjávarútveg, verslun og landbúnað á svæðinu. Seinni hluti ráðstefnunnar verður helgaður umfjöllun um rekstur þekkingarfyrirtækja á landsbyggðinni og möguleika Austurlands almennt í atvinnuþróun. Í því sambandi verður sérstaklega fjallað um hlutverk sveitarfélaganna.

Að loknum fyrirlestrum verða pallborðsumræður undir stjórn Þorkels Sigurlaugssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Eimskips.

Skráning á ráðstefnuna er hjá Landsbankanum á Eskifirði og með tölvupósti kristjan.einarsson@lais.is og oskar.gardarsson@lais.is. Þátttökugjald er 1.000 kr.