LAUGARDAGINN 8. janúar sl. var sýnd í ríkissjónvarpinu myndin Sense and Sensibility (Vit og viðkvæmni) eftir sögu Jane Austen. Af því tilefni langar mig til að kom á framfæri eilítilli athugasemd. Í myndinni er einum þrisvar sinnum vitnað í 116.

LAUGARDAGINN 8. janúar sl. var sýnd í ríkissjónvarpinu myndin Sense and Sensibility (Vit og viðkvæmni) eftir sögu Jane Austen. Af því tilefni langar mig til að kom á framfæri eilítilli athugasemd. Í myndinni er einum þrisvar sinnum vitnað í 116. sonnettu Williams Shakespeare og farið með brot úr henni, varla þó nema eitt og hálft eða tvö erindi. Í öll skiptin var í sýningu ríkissjónvarpsins sett upp íslensk þýðing í textalínum. Af ákveðnu orðavali í fyrsta erindinu hvarflaði hugur minn strax til þýðingar Daníels Á. Daníelssonar (1902-1995) skálds og fyrrv. héraðslæknis á Dalvík og víðar, sem gaf út á bók þýðingu sína á öllum sonnettum Shakespeares, 154 talsins (William Shakespeare; SONNETTUR; Bókaútgáfa Menningarsjóðs; Rvk. 1989). Greip ég þegar til bókarinnar og fullvissaði mig um að þangað væri þýðingin sótt. Kom mér því mjög á óvart þegar á skjánum birtust stafirnir H.H. aftast og innan sviga í síðasta skiptið sem vitnað var í sonnettuna. Reikna ég með að þar sé átt við Helga Hálfdanarson, hinn mikilvirka og góðkunna Shakespeare-þýðanda, sem að vísu á í fórum sínum þýðingu á umræddri sonnettu en hefur þó í símtali staðfest við mig að er ekki sú sem notuð var í þetta sinn.

Í heild er sonnettan svona í þýðingu Daníels, birt með góðfúslegu leyfi rétthafa og útgefanda:

116

Tveir hjartans vinir hvergi meinbug sjá

á helgum eiði: rangnefnd er þá tryggð

ef breytist hún þá brigðir þola má,

ef bifast þá hún mætir lygð og styggð.

Nei! hún er viti byggður bjargi á,

í byljum haggast ei, en lýsir fleyi

sem úthafs-farsins himinstjarna há,

þar hæðin verður mæld en stærðin eigi.

Hún er ei kennd við tímans tál og sýnd

þó tærist hennar rjóða kinn og vör,

en ein og söm, til undanláts ei brýnd

hún endist meðan stendur lífsins för.

Því ef ég mótsögn er við þennan sann

ég aldrei reit - og tryggð ei prýðir mann.

Finnst mér báðir þessir jöfrar vera þess verðugir að rétt sé með höfundarverk þeirra farið.

SOLVEIG BRYNJA

GRÉTARSDÓTTIR,

Laufvangi 5, Hafnarfirði.

Frá Solveigu Brynju Grétarsdóttur: