Kosningabaráttan hefur að mestu farið fram í sjónvarpi og þar sem stóru stöðvarnar eru fjórar, hefur verið í nógu að snúast hjá þeim Halonen og Aho. Oft hefur fremur verið um að ræða gaman en alvöru en í síðustu kappræðum þeirra á fimmtudagskvöld þót
Kosningabaráttan hefur að mestu farið fram í sjónvarpi og þar sem stóru stöðvarnar eru fjórar, hefur verið í nógu að snúast hjá þeim Halonen og Aho. Oft hefur fremur verið um að ræða gaman en alvöru en í síðustu kappræðum þeirra á fimmtudagskvöld þót
Á sunnudaginn kjósa Finnar ellefta forseta lýðveldisins og í annað skipti á kona verulegan möguleika að ná kjöri. Það eru hins vegar fleiri mál en kynferði frambjóðenda sem munu ráða úrslitum í huga landsmanna.

Á sunnudaginn kjósa Finnar ellefta forseta lýðveldisins og í annað skipti á kona verulegan möguleika að ná kjöri. Það eru hins vegar fleiri mál en kynferði frambjóðenda sem munu ráða úrslitum í huga landsmanna. Tarja Halonen utanríkisráðherra og Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra, njóta nákvæmlega jafn mikils fylgis samkvæmt skoðanakönnunum sem birst hafa nú á lokasprettinum.

Síðari hluti kosningabaráttunnar hefur snúist um sósíalisma, kristna trú og afstöðu til hjónabandssamkynhneigðra og vettvangurinn hefur næstum eingöngu verið sjónvarpið.

Fyrir tæpum þrem vikum sigruðu þau Tarja Halonen utanríkisráðherra (jafn.) og Esko Aho, fyrrverandi forsætisráðherra (miðfl.), í fyrri umferð finnsku forsetakosninganna. Síðan hefur Halonen reynt að sannfæra sveitamenn í dreifbýlinu um að lögfræðingur Alþýðusambandsins, sem fæddist og ólst upp í fátækrahverfi í höfuðborginni, geti orðið forseti allra landsmanna og Aho hefur á hinn bóginn reynt að skapa sér ímynd sem landsfaðir í þéttbýlinu þótt hann sé sonur smábónda og hafi verið orðinn sextán ára þegar hann heimsótti höfuðborgina í fyrsta sinn. Svo kölluð fjölskyldugildi og ættjarðarást hafa verið hornsteinarnir í málflutningi hans. Margir spyrja þó hvers konar fjölskyldufaðir það er, sem varð þingmaður fyrir átján árum og síðar ráðherra og hefur lítið sem ekkert sinnt heimilinu síðan. Ekki láta allir sér nægja þá skýringu að hann hafi notað farsímann til að ala upp fjögur börn.

Verða að höfða til margs konar kjósenda

Strax í upphafi þóttust menn vita, að mjótt yrði á mununum í síðari umferðinni. Að vísu sýndu skoðanakannanir í fyrstu, að fylgi Halonen væri um það bil tíu prósentustigum meira en fylgi Ahos, en skoðanakannanir, sem birtast á lokaspretti kosningabaráttunnar, sýna að fylgi Ahos hefur aukist mikið og nú munar litlu sem engu á þeim. Kosningabaráttan hefur farið skikkanlega fram en hvorki miðflokksmenn né jafnaðarmenn geta einir og sér tryggt sigur frambjóðanda síns. Forsetaefnin verða því að gera hosur sínar grænar fyrir kjósendum annarra flokka og afleiðingin er sú, að pólitíkin verður einhvers konar meðaltal af öllu saman og enginn munur á stefnu frambjóðendanna.

Dansað við Mannerheim

Mikið hefur verið um sjónvarpsþætti þar sem þau Aho og Halonen hafa komið fram sem hreinir skemmtikraftar. Í einum þætti sl. miðvikudag sögðust þau vera orðin svo vön að skemmta saman að þau gætu alveg hugsað sér að halda því áfram.

Það eru samtals fjórar innlendar sjónvarpsstöðvar sem senda út um land allt. Af þeim sökum hafa forsetaefnin stundum orðið að berjast við sjálf sig um lýðhylli áhorfenda. Miðvikudagurinn var gott dæmi um dagskrá skemmtikraftanna Ahos og Halonens. Þau tóku þátt í spurningakeppni milli sjö og átta. Meðal þeirra, sem fram komu í þessum þætti, voru einnig leikarar í gervi hins fræga hershöfðingja Mannerheims og forsetanna fyrrverandi, Kekkonens og Koivistos.

Í lok þáttarins varð Halonen fyrst að dansa við Mannerheim en síðar skipaði marskálkurinn gamli Aho "undirliðsforingja" að taka við af sér til að kjósendur gætu dæmt um dansleikni beggja frambjóðenda.

Aho átti svo viðtal við fréttamenn stöðvar 4 klukkan átta og svo var gert hlé nema hvað varðar fréttatíma ríkissjónvarpsins á TV1 klukkan hálfníu. Fimmtán mínútur fyrir 10 hófst ítarlegur viðtalsþáttur við Aho á stöðinni TV2. Áður en honum lauk um klukkan hálfellefu gátu menn skipt yfir á MTV3-stöðina og horft á fimmtán mínútna daglegan þátt um helstu atburði í kosningabaráttunni. Að lokum komu þau Aho og Halonen fram í gamansömum viðtalsþætti á MTV3.

Munur á afstöðunni til Haiders

Í umfjöllun um utanríkismál hefur stjórnarþátttaka flokks Jörgs Haiders í Austurríki markað nokkurs konar þáttaskil. Aho segist ekki vilja íhlutun erlendra ríkja þar til sannað hafi verið, að um öfgastjórn sé að ræða en Halonen er hins vegar fylgjandi stefnu ESB í þessum málum. Utanríkismál eru helsti starfsvettvangur Finnlandsforseta. Í allflestum málum, sem rædd hafa verið, hafa þau Aho og Halonen þó verið mjög sammála. Þau eru ákveðnir stuðningsmenn ESB-aðildar en hyggjast ekki vinna að því að undirbúa umsókn um aðild Finna að Atlantshafsbandalaginu.

Gamaldags gildi skipta sköpum

Það þykir merkilegt hvers konar gildi hafa verið í brennidepli þessar þrjár vikur. Forsetaefnin hafa orðið að skilgreina sitt kristna gildismat og afstöðu sína til hjónabandsins. Halonen hefur áður starfað fyrir samkynhneigðaog hún sagði sig úr þjóðkirkjunni á unga aldri.

Munurinn á Aho og Halonen í þessum málum virðist helst sá að Aho segist mæla með þeim siðferðisreglum sem meirihluti landsmanna hefur kosið. Halonen hins vegar ræðir opinskátt hverja spurningu fyrir sig. Til dæmis segist Halonen geta hugsað sér að gerast meðlimur í kirkjunni á nýjan leik. Hún hafi þó ekki viljað gera það að einhverju innleggi í kosningabaráttuna.

Síðast en ekki síst hefur draugur sósíalismans orðið vopn í höndum stuðningsmanna Ahos. Þeir minna á að Halonen hafi áður unnið sem lögfræðingur Alþýðusambandsins. Að mati Aho-manna sé óhugsandi að borgaralegur meirihluti landsmanna kjósi sér vinstrimann sem þjóðhöfðingja.

Halonen hefur svarað þessu með því, að hún sé fylgjandi endurreisn velferðarþjóðfélagsins. Hennar stefna sé alls ekki þjóðnýting af neinu tagi.