Gísli Stefánsson fæddist á Ísafirði 8. september 1922. Hann lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur í Fossvogi 26. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Stefán Janus Björnsson, umsjónarmaður verkamannabústaða í Reykjavík og innheimtumaður hjá Reykjavíkurborg, f. 25. janúar 1888, d. 10. nóvember 1949, og kona hans Ragnheiður Brynjólfsdóttir, húsfreyja og saumakona í Reykjavík, f. 21. apríl 1884, d. 10. nóvember 1959. Systir hans er Kristjana Stefánsdóttir, f. 10. mars 1921, húsmóðir í Reykjavík og lengi starfsmaður á Hrafnistu í Reykjavík. Hennar maður var Páll Júníus Pálsson, f. 21. mars 1920, látinn. Börn þeirra eru Júníus, f. 24. nóvember 1942, Grétar, f. 28. mars 1945, Þórdís, f. 9. október 1948, og Stefanía, f. 14. nóvember 1951.

Barnsmóðir Gísla er Margrét Sæmundsdóttir, f. 26. október 1924. Þau slitu samvistir. Dóttir þeirra er Ragnheiður Gísladóttir, f. 14. mars 1951, var gift Hannesi Einarssyni, f. 11. október 1950, en þau slitu samvistir. Þeirra synir eru Einar, lögfræðingur, f. 16. janúar 1971, og Grétar, lögfræðingur, f. 10. júní 1972.

Gísli kvæntist Sigríði Sigurðardóttir, húsfreyju í Reykjavík, f. á Vopnafirði 31. október 1923. Þau kynntust í febrúar 1953 og gengu í hjónaband 31. desember 1967. Þeirra sonur er Sigurður Gísli Gíslason lögfræðingur, f. 28. febrúar 1963, sambýliskona hans er Sólborg Ósk Valgeirsdóttir, skrifstofumaður, f. 22. nóvember 1975, synir hennar eru Agnar Freyr og Eyþór Ingi Kristjánssynir.

Gísli fluttist til Reykjavíkur með foreldrum sínum þegar hann var eins árs og bjó í Reykjavík alla tíð síðan. Hann ólst upp hjá einstæðri móður sinni, en foreldrar hans skildu þegar hann var barn. Hann bjó hjá móður sinni uns hún lést, og hóf þá sambúð með eftirlifandi konu sinni.

Gísli var í Miðbæjarbarnaskólanum og lauk þar skyldunámi. Var síðan í skóla Ingimars Jónssonar og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Eftir að hann lauk gagnfræðaprófi vann hann ýmis verkamannastörf, s.s. í Bretavinnunni, hjá Efnagerð Reykjavíkur og hjá H. Ben. hf. Gísli innritaðist í Samvinnuskólann haustið 1950 og lauk tveggja ára námi vorið eftir. Eftir Samvinnuskólaprófið vann hann hjá Skrifstofum Reykjavíkurborgar sem skrifstofumaður og næturvörður uns Gjaldheimtan var stofnuð 1962, en þar vann hann uns hann lét af störfum um miðjan 9. áratuginn.

Útför Gísla hefur farið fram í kyrrþey.

Föstudaginn 4. febrúar var borinn til grafar Gísli Stefánsson, faðir besta vinar okkar, Sigurðar Gísla. Fráfall Gísla er okkur mikið harmsefni enda reyndist hann okkur einstaklega vel í gegnum súrt og sætt.

Við félagarnir vorum nær daglegir gestir á heimili Gísla um margra ára skeið, ekki síst í kringum efri bekki grunnskóla og menntaskólaárin. Gestrisni Gísla og Sigríðar var takmarkalaus og alltaf fengum við einstaklega hlýlegar móttökur í hvert sinn sem við litum inn. Þótt heimsóknir okkar hafi verið orðnar fátíðari hin síðari ár staldraði hugur okkar beggja samt oft við í Mávahlíðinni.

Þegar við vorum smápollar og komum fyrst í heimsókn fundum við strax hversu velkomnir við vorum og það átti aldrei eftir að breytast. Ef Gísli yngri var ekki heima vorum við samt alltaf velkomnir inn til að bíða eftir honum og þiggja kaffi og kleinur. Við hljótum stundum að hafa verið orðnir ansi þreytandi enda minnti heimili þeirra hjóna oft og tíðum á félagsmiðstöð, slíkur var ágangur okkar.

Gísli var einstaklega vel lesinn og gat rætt um flest milli himins og jarðar, sérstaklega pólitík og samtímasögu. Hann hafði fastmótaðar skoðanir á pólitík og lífinu almennt en virti skoðanir okkar ef við vorum á öndverðum meiði, enda sannfærður um að við myndum snúast til skoðana hans þegar við kæmumst til vits og ára. Gísli lagði ekki mikið upp úr veraldlegum gæðum en vildi öllu fremur skapa fjölskyldu sinni öruggt skjól og áhyggjulausa framtíð. Hann þurfti ekki að elta ólar við allar tækninýjungar eða annað í þeim dúr enda vissi hann sem var að hamingjunnar er að leita innan okkar sjálfra en ekki í nýjungagirni eða stöðutáknum.

Gísli var duglegur við að fara í göngutúra um Hlíðarnar og notaði hvert tækifæri til að skreppa í sundlaugarnar. Hann bjó fjölskyldu sinni öruggt heimili þar sem ekkert skorti enda erum við sannfærðir um að viðskilnaður hans á búinu til eftirlifandi afkomenda er allur til fyrirmyndar. Hann var alltaf mjög stoltur af einkasyninum Sigurði Gísla og náði stoltið sjálfsagt hámarki þegar hann útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands vorið 1988. Mátti þá vart á milli sjá hvor þeirra Gísla væri stoltari.

Með aldrinum hrakaði heilsu Gísla en hann gat þó yfirleitt verið heima við þar sem hann undi sér best. Hann var enn lífsglaður og fylgdist vel með öllu í samfélaginu. Rétt fyrir síðustu jól kom þó að því að Gísli varð það slæmur af veikindum sínum að hann þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Hann sýndi hins vegar mikinn kraft og dugnað og náði sér upp úr erfiðleikunum en því miður aðeins um skamma hríð og allt fór í sama farið aftur. Það læðist að manni sá grunur að Gísli hafi viljað hressast aðeins við til að geta kvatt sína nánustu með virðingu og átt nokkra góða daga undir það síðasta.

Við þökkum Gísla samveruna og vonum að hann öðlist frið í nýjum heimi. Um leið vottum við Diddu og Gísla yngri okkar dýpstu samúð og vonum að Guð gefi þeim þann styrk sem þau þurfa á að halda nú þegar Gísli er allur.

Grétar og Ágúst.