Guðni Sigurbjarnason lögreglumaður fæddist í Reykjavík 12. júlí 1957. Hann lést á Landspítalanum 30. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans eru Sigurbjarni Guðnason rennismiður, f. 22. júlí 1931, og Jóhanna Jakobsdótir húsmóðir, f. 1. apríl 1936. Hálfsystir Guðna samfeðra er Sigurborg, f. 1.3. 1952, gift Pétri P. Johnson og eiga þau eina dóttur. Alsystkini Guðna eru, Marta Lilja, f. 8.10. 1958, maki Garðar Sigursteinsson, f. 3.4. 1957, og eiga þau þrjú börn; Edda Sigríður, f. 13.10. 1960; Hanna Birna, f. 19.1. 1963, maki Reynir Steinarsson, f. 19.10. 1962, og eiga þau tvö börn; Hörður, f. 19.1. 1963, maki Erna Björg, f. 24.11. 1964, og eiga þau þrjú börn; Elísabet, f. 26.10. 1965, maki Kristján Sverrisson, f. 15.6. 1963, og eiga þau fimm börn.

Hinn 7. júlí 1990 kvæntist Guðni Þorgerði Bergvinsdóttur, f. 24.2. 1965. Foreldrar hennar eru Björk Björgvinsdóttir, f. 29.9. 1942, og Bergvin Svavarsson, f. 27. júlí 1937 (skilin). Fósturfaðir Þorgerðar er Albert Ólafsson, f. 20.7. 1936. Dætur Guðna og Þorgerðar eru Björk, f. 14. ágúst 1992, og Arndís, f. 1.2. 1994. Fóstursonur Guðna, sonur Þorgerðar, er Guðbjartur Kristinsson, f. 13.1. 1983.

Guðni lauk landsprófi og stundaði nám í Menntaskólanum við Sund 1973-1975 og við Tækniskóla Íslands 1976-1977. <SW,5>Hann lauk námi í Lögregluskólanum í Reykjavík 9.5. 1980. Hann starfaði í lögreglunni í Reykjavík frá 15. október 1978 til 31. desember 1989, og hjá RLR frá 1. janúar 1990. Hann varð rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði 1. júlí 1997. Guðni var trúnaðarmaður hjá almennu deild lögreglunnar í Reykjavík í tvö ár. Hann var öryggistrúnaðarmaður hjá RLR í tvö ár. Guðni var mikill áhugamaður um skák og brids og hlaut fjölda verðlauna á þessum sviðum. Jafnframt var hann áhugamður um alls kyns íþróttir og var knattspyrnan þar efst á blaði.

Útför Guðna fer fram frá Bústaðakirkju á morgun, mánudaginn 7. febrúar, og hefst athfönin klukkan 13.30. Jarðsett verður í Gufuneskirkjugarði.

Ég elska þig svo heitt, elsku bróðir. Sorgin er yfirþyrmandi.

Ótrúlegt hve orð eru fátækleg, mér finnst engin orð geta lýst þér nægjanlega. Ég á mjög erfitt með að sætta mig við að þú sért farinn frá mér. Þegar ég fékk símtalið frá Íslandi þess efnis að þú lægir alvarlega veikur og að ég ætti að koma heim, var eins og heimurinn hryndi.

Flugið til Íslands var það lengsta flug sem ég hef upplifað.

Ég var bæði glaður og sorgmæddur við endurfundi okkar. Glaður að fá tækifæri til að tala við þig og sorgmæddur að sjá þig svo veikan. Eins og alltaf í gegnum líf þitt, barðist þú hetjulega við þennan skæða sjúkdóm. Meiri keppnismann en þig þekki ég ekki.

En útbreiðsla sjúkdómsins var orðin of mikil og nú er þjáningum þínum lokið. Þegar ég hélt um hönd þína og grét hafðir þú styrk til að hugga mig og biðja okkur öll um að vera sterk.

Minningarnar um þig eru svo ótalmargar.

Þú hafðir alltaf tíma fyrir litla bróður, sama hversu annasamt var hjá þér. Ég er þakklátur fyrir hversu margt við gerðum saman. Ferðalag okkar um Evrópu og alla leikina sem við háðum saman, hvort sem var í fótbolta, borðtennis eða öðrum boltaleikjum. Þá gekk mikið á, hvorugur gaf þumlung eftir og við skömmuðumst og rifumst. En alltaf ríkti góð vinátta á eftir og við vorum strax farnir að hlakka til næsta leiks.

Nú hef ég misst þig í þessu lífi, minn besti vinur. Eftir situr minning um yndislegan bróður og vin.

Þegar minn tími kemur hef ég þig, elsku Guðni, til að taka á móti mér.

Ég bið til Guðs að hann gefi okkur styrk. Missir okkar allra er mikill.

Hörður.

Elsku Guðni minn. Það verður erfitt að hugsa sér að lifa lífinu án þess að þú sért hérna hjá okkur. Og aldrei eigum við eftir að heyra bjölluna hringja tvisvar í Ástúni og heyra þig segja hæ hæ.

En, elsku Guðni, ég ætla ekki að kveðja þig, heldur segja sjáumst síðar.

Þín, systir,

Edda.

Í dag kveðjum við ástkæran bróður, mág og frænda. Það eru margar ljúfar minningar sem koma í hugann, sem erfitt er að setja á blað.

Með þessum ljóðum langar okkur að kveðja þig, elsku Guðni.<EL,4.5>

<ljóð3>Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur af skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(HIH.)

Af eilífðarljósi bjarma ber

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri en auga sér

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Ben.)<EL,4.5>

Hafðu þökk fyrir allt, elsku bróðir, þín er sárt saknað. Minning þín lifir í hjörtum okkar allra. Bið ég guð að styrkja foreldra okkar, systkin, mágkonu, dætur þínar og aðra ástvini.

Hanna Birna, Reynir,

Anton og Nadía.

Elsku bróðir minn, mágur og frændi.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.(Ingibj. Sig.)

Þig, sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur,

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, hvern hjartað kallar á,

heyrirðu ei storminn kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildi eina,

sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

(Valdirmar Hólm Hallstað.)<EL,4.5><ljóð1>Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

<EL,-9>Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)<EL,4.5>

Þú ert kominn í faðm annarra ástvina, elsku Guðni, og við biðjum almáttugan Guð að varðveita þig um alla eilífð. Við sjáumst seinna, elsku bróðir minn, mágur og frændi.

Þín systir

Elísabet (Bettý), Kristján, Eva María, Bjarni Þór, Sverrir Freyr og Róbert Óðinn.

Ó, guð ef að lífið mig leikur grátt

þá lát mig ei verða bitra.

Gefðu mér kraft til að horfa hátt,

og hugsa ekki mest um það bitra,

en gefðu að ég skilji hve gott ég hef átt

og gerðu mig hugrakka og vitra.

(Dísa.)Mér finnst það vel við hæfi að byrja þessi fátæklegu minningarorð, með bæninni hennar Dísu systur minnar, þegar við kveðjum hann Guðna systurson okkar sem farinn er frá okkur svo ungur. Ég get samt ekki annað en verið bitur út í almættið, að gefa honum ekki meiri tíma með dætrum sínum og öllum ástvinum hans sem þótti svo vænt um hann. Það þarf meira en lítið hugrekki til að ganga í gegnum allt það sem á hann Guðna var lagt í hans veikindum, hvert áfallið af öðru reið yfir, og baráttunni við vágestinn mikla, krabbameinið, en hann barðist eins og hetja, hugrakkur með bros á vör, með fjölskylduna þétt sér við hlið, það gleymist engum er til þekktu. Guðni var elsta barn Jóhönnu systur minnar, en við systurnar eignuðumst börnin okkar flest um svipað leyti, sum eru fædd í sama mánuði á sama ári, það tengdi okkur kannski ennþá sterkari böndum. Við fylgdumst vel með uppeldi þeirra og velgengni hvor hjá annarri, en við höfum báðar átt miklu barnaláni að fagna. Það er ekki svo lítil hamingja að eignast öll okkar börn, heilbrigð og vel af guði gerð í svona stórum hópi.

Minningarnar hrannast upp, fyrsta myndin er af Guðna í skírnarkjól, hann horfir stórum augum brosandi framan í heiminn, Bjarni og Jóhanna og við á ferðalagi með börnin á gömlum bíl á ferð um Vestfirði - síðan mynd af státnum strákum að veiða - einhverju sinni komu þeir frændur rennandi blautir, höfðu verið að sigla á flekum uppi á stíflu. Fermingardagurinn. Guðni og Todda að gifta sig í Viðey. Ferð í sumarbústað á Flúðum með börnunum. Síðasta myndin frá liðnu sumri tekin af þeim feðgum saman á Laugarvatni, það var alltaf stutt í brosið hans Guðna og þannig vil ég muna hann.

Guð gefi Toddu og dætrum þeirra, foreldrum hans, systkinum og öllum sem þótti svo vænt um hann styrk á þessum erfiðu tímamótum. Minninguna um drenginn góða munum við varðveita alla ævi.<EL,4.5>

<ljóð2>Drottinn vakir, drottinn vakir

Daga og nætur yfir þér,

Blíðlynd eins og besta móðir

Ber hann þig í faðmi sér.

Allir þótt þér aðrir bregðist

Aldrei hann á burtu fer.

Drottinn elskar, Drottinn vakir

Daga og nætur yfir þér.

(Sig.Kr. Pét.) Hulda og fjölskylda,

Litlagerði.

Góður drengur hefur lokið hlutverki sínu hér á jörðu, en þó ekki, því minningin um hann mun lifa og við halda áfram að elska hann og læra af honum. Lífsins skóli getur oft verið strembinn, en Guðni tók því sem að höndum bar með jafnaðargeði, stóískri ró og gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana.

Sáttur en sár heldur bróðir minn áfram göngu lífs síns á æðri sviðum. Tími hans á jörðu var naumt skammtaður. Hann sá öfgar mannlegrar tilveru í starfi sínu en kærleika fjölskyldunnar heima fyrir.

Starf lögreglumanns er erfitt. Erfiðast fyrir hann var að sjá eymd fólks, sérstaklega barna. Hann var viðkvæmur, en skilningsríkur, skarpgreindur og umhyggjusamur fjölskyldufaðir og bróðir, frumburður móður sinnar og vildi allt fyrir alla gera.

Hvernig sættir maður sig við að fá ekki að fylgja börnum sínum eftir til fullorðinsára eða finna ilminn af brumi trjánna einu sinni enn? Hvenær verður þráin eftir hvíld svo sterk að líkaminn gefur eftir? Það er margt sem flýgur í gegnum huga minn þessa dagana. Svörin eru fá og asnaleg. Ég sakna bróður míns, mest sakna ég þess að hafa ekki haft meiri tíma með honum.

Mér brá þegar ég sá alla verðlaunapeningana og bikarana, sem hann hafði fengið fyrir góðan árangur í skák og bridge. Hann var mikill keppnis- og baráttumaður eins og sást svo glögglega í veikindum hans.

Ég fel minn elskulega bróður Guði á vald og okkur öll hin líka. Sérstaklega bið ég skaparann að líta til með Toddu, Björk, Arndísi og Bjarti, pabba mínum og Jóhönnu, Mörtu, Eddu, Hönnu, Herði og Bettý og fjölskyldum þeirra. Guð geymi ykkur öll.

Sigurborg (Sirrý).

Elsku frændi, þegar ég sest niður til að setja á blað hinstu kveðju mína til þín kemur margt upp í hugann - allt of margt, og ég veit vart hvar byrja skal. Hvort ég ætti að tala um allt sem þú gafst af þér, útgeislunina frá þér eða þína mörgu kosti. Það virðist bara svo óþarft því að allir sem þig þekktu þekktu þetta allt vel. Mig langar því að segja þér frá þeim áhrifum sem þú hafðir á mig alveg frá fæðingu. Þú varst alltaf mikill keppnismaður sem aldrei gafst upp og ef það gerðist að þú fórst ekki með sigur af hólmi var ekkert gefið eftir til að það kæmi ekki fyrir aftur. Sá mikli vilji og sú orka sem gerði þig að þeim manni sem þú varst smituðu líka út frá sér til allra sem þig þekktu. Þú sýndir mér að ég gæti gert allt sem hugurinn stæði til ef viljinn væri fyrir hendi og það hef ég í hyggju að gera, ímyndunaraflið verður eina hindrunin.

Þú varst líka kletturinn í fjölskyldunni okkar, alltaf til staðar og alltaf sterkur en steigst ekki fram fyrr en þörf var á. Því var það svo erfitt þegar þú féllst frá, þú bognaðir aldrei heldur stóðst eins og klettur alveg fram á síðasta dag.

Fjölskyldan gengur núna í gegnum erfiða tíma en ég veit að hvert og eitt okkar hefur í sér hluta af keppnisskapinu þínu svo að þegar lengra dregur frá stöndum við uppi sterkari og samstæðari en áður og þannig munt þú hafa áhrif á okkur um ókomna tíð.

Jóhanna.

Guðni Sigurbjarnason eyddi mestum starfsaldri sínum sem lögreglumaður, og lengst af sem rannsóknarlögreglumaður. Það var á þeim vettvangi sem undirritaður kynntist Guðna. Þegar Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður í júlí 1997 fluttist starfsvettvangur okkar Guðna til Sýslumannsins í Hafnarfirði. Breytingum þessum fylgdi óneitanlega óvissa og röskun á daglegu starfsmunstri. Það lá fyrir að álag yrði töluvert í upphafi, þar sem okkur fylgdu málaflokkar, sem í starfstíð RLR höfðu ekki verið rannsakaðir heima í héraði.

Á þessum tímamótum reyndist það mikil gæfa að hafa Guðna að samstarfsmanni. Við unnum áður í sömu deild, í samstilltum hópi góðra félaga, en nú urðum við að snúa bökum saman í bókstaflegri merkingu og reyna að standa undir þeim væntingum sem til okkar voru gerðar. Þegar litið er til baka, þá held ég það sé óhætt að segja að við höfum komist frá þessu vandræðalaust, án þess að fara hamförum, eða setja okkur í stellingar gagnvart nýjum samstarfsmönnum. Þáttur Guðna í því hvernig til tókst verður seint ofmetinn og á ég honum mikið að þakka, bæði persónulega og faglega.

Það er til lítils að fara upphöfnum orðum um hæfni Guðna í starfi, enda er starfsvettvangurinn þorra fólks sem betur fer óþekktur. Þá hefði lofræða í formi minningargreinar ekki átt upp á pallborðið hjá Guðna. Það vita þeir sem til þekkja að eftir því sem álagið var meira og verkefnið flóknara því betur naut Guðni sín. Skákmaðurinn og bridsspilarinn vann markvisst og beitt og missti sjaldan þráðinn. Var framsetningin gjarnan á þann hátt að þegar upp var staðið hlaut hann virðingu manna, beggja megin við borðið.

Það lætur engan ósnortinn að fylgjast með þriggja ára baráttu samstarfsmanns við krabbamein. Sú leið var mörkuð smá sigrum hér og þar, með jafnmörgum áföllum, en vonin og baráttan alltaf til staðar. Það er til lítils að spyrja um tilgang. En svo vitnað sé í heimsbókmenntirnar, þá komst Birtingur að því, í lokakafla bókar Voltaire, að kapteinninn á skútunni lætur sér fátt um finnast þó mýsnar í kjalsoginu krefjist þess að fá að vita hvert skuli sigla. Þá sé ég fyrir mér örlaganornirnar á heiðinni í upphafsþætti leikrits Shakespeare, Macbeth, þar sem nornirnar fara hamförum að vefa örlög manna. Örlagavefur Guðna Sigurbjarnasonar var sleginn harkalega undanfarin misseri, svo ekki sé kveðið fastar að. Það er eins og kerlingarnar á heiðinni hafi komið sér saman um að hafa vefinn sérlega dökkan og meiða vin okkar á sem fjölbreytilegastan máta. Mál var að linnti, megi góður drengur hvíla í friði.

Ég þakka samfylgdina við Guðna Sigurbjarnason og sendi börnum hans, eiginkonu, foreldrum og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Gísli I. Þorsteinsson.

Kveðja frá lögreglunni í Hafnarfirði

Þegar ungir menn í blóma lífsins falla frá setur okkur hljóða og við spyrjum hver sé tilgangur lífsins. Fráfall Guðna kom okkur vinnufélögum hans ekki á óvart þar sem hann hafði átt í baráttu við illvígan sjúkdóm og síðustu mánuðir hafa verið honum erfiðir. Guðni kom til starfa sem rannsóknarlögreglumaður í lögreglunni í Hafnarfirði árið 1997. Hann hafði starfað sem lögreglumaður í 22 ár, í lögreglunni í Reykjavík, hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og síðast hjá lögreglunni í Hafnarfirði.

Það duldist engum sem kynntist Guðna að þar fór drengur góður. Hann var dulur maður og flíkaði ekki tilfinningum sínum. Hann var kappsamur bæði í leik og starfi. Hann var góður skákmaður og stundaði þá íþrótt auk þess sem hann var góður bridsspilari og vann til verðlauna í báðum þessum greinum. Guðni var virkur félagi í samtökum rannsóknarlögreglumanna.

Eðliskostir Guðna nýttust honum vel í starfi lögreglumanns. Hann náði góðum árangri í rannsóknum afbrota þar sem honum tókst að byggja upp traust við menn sem af einhverjum ástæðum höfðu villst út af þeirri braut er leikreglur samfélagsins setja. Guðni var fastur fyrir ef því var að skipta, en fyrst og fremst var hann hreinskiptinn í öllum samskiptum og átti það sama við um alla.

Þegar ég hitti Guðna síðast var hugurinn enn óbugaður og sama æðruleysið, er hann hafði sýnt í veikindunum, þó sjúkdómurinn hefði náð yfirtökum.

Fyrir hönd lögreglunnar í Hafnarfirði vil ég þakka samstarfið og óska föllnum félaga velfarnaðar á þeirri leið sem okkur öllum er ætlað að fara. Eiginkonu, börnum, foreldrum og ættingjum Guðna eru sendar samúðarkveðjur.

Egill Bjarnason.

Veistu

að vonin er til

hún vex

inni í dimmu gili

og eigir þú leið

þar um

þá leitaðu

í urðinni

leitaðu

á syllunum

og sjáðu

hvar þau sitja

lítil og veikbyggð

vetrarblómin

lítil og veikbyggð

eins og vonin

(Þuríður Guðm.)<EL,9>

Kynni okkur Guðna hófust 1966 þegar við gengum barnungir í Taflfélag Reykjavíkur. Við vorum í hópi ungra skákáhugamanna sem héldum hópinn náið fram á fullorðinsárin og samband okkar allra er enn nátengt þó við hittumst sjaldnar í erli fullorðinsáranna. Ég kynntist Guðna hvað best er við fórum í skákferðalög innanlands sem erlendis. Nokkrum Norðurlandamótum tefldi hann á með ágætum árangri og svo var hann einn af okkur sem fórum í hið fræga skákferðalag með Jóhanni Þóri og Benóný til Bandaríkjanna 1978. Þar var margt brallað og mér er minnisstætt að við vildum ávallt hafa Guðna með okkur þegar við fórum í könnunarferðir, við vissum að við værum öruggir með Guðna okkur til fulltingis. Guðni var öflugur skákmaður og fastur fyrir. Þeir eiginleikar reyndust honum vel í ævistarfinu hjá lögreglunni. Ég veit að félagar hans þar sakna hans mikið, því Guðni kom alltaf fram af heiðarleika og æðruleysi.

Sjúkdómurinn sem dró hann til dauða er oft miskunnarlaus, en vonin er alltaf til staðar. Ég vil votta eiginkonu hans og dætrum, ættingjum og vinum innilega samúð mína. Við strákarnir í taflfélaginu höfum misst traustan vin. Guð blessi minningu Guðna Sigurbjarnasonar. Gens una sumus.

Sævar Bjarnason.