Kristbjörg Sveinsdóttir fæddist á Barðsnesi í Norðfirði 29. júlí 1922. Hún lést á Dvalarheimilinu Víðihlíð í Grindavík 29. janúar síðastliðinn. Heimili hennar var í Innri-Njarðvík frá 16 ára aldri. Kristbjörg var næstyngst sjö barna hjónanna Sveins Guðmundssonar, frá Parti og Hundruðum í Sandvík, f. 22. september 1883, d. 10. október 1932, og Oddnýjar Halldórsdóttur frá Þuríðarstöðum í Eiðaþinghá, f. 5. september 1892, d. 16. febrúar 1976. Bróðir Kristbjargar er Sveinn, f. 8. júlí 1932, skipasmiður í Neskaupstað. Önnur systkini Kristbjargar eru öll látin, en þau voru: Guðrún Rósa, f. 5. janúar 1910, búsett í Danmörku; Guðmundur, f. 12. mars 1912, d. 3. desember 1994, bóndi á Geirólfsstöðum í Skriðdal; Guðbjörg Halldóra, f. 5. febrúar 1916, d. 14. apríl 1992, síðast búsett í Kópavogi; Þórarinn, f. 26. október 1917, d. 25. júlí 1996, verkstjóri í Neskaupstað; Árni Halldór, f. 5 febrúar 1919, dó á barnsaldri.

Kristbjörg giftist 6. janúar 1945 Ragnari Guðmundssyni matreiðslumanni frá Tjarnarkoti í Innri-Njarðvík, f. 22. júní 1920. Móðir hans hét Þóra Steindórsdóttir, dóttir Steindórs Steindórssonar á Dalhúsum, landspósts. Fósturforeldrar hans voru Þorkelína Jónsdóttir, f. 7. mars 1888, d. 11. mars 1968, og Finnbogi Guðmundsson, Tjarnarkoti, Innri-Njarðvík, f. 1. mars 1886, d. 17. mars 1972. Kristbjörg eignaðist fimm börn: 1) Oddný Rósa, f. 26. október 1940, búsett í Reykjavík, maður hennar er Stefán Guðmundsson. Dætur þeirra eru Kristín og Hrönn. 2) (Steinunn) Margrét, f. 21. júní 1943, búsett í Mosfellsbæ, maður hennar er Sigurður Hrafn Þórólfsson. Dætur þeirra eru Hólmfríður Hemmert og Ragnhildur. 3) Steinar, f. 23. maí 1944, búsettur í Sandgerði, kona hans er Hulda Kragh. Synir þeirra eru Ragnar og Örvar. Sonur Huldu og uppeldissonur Steinars, Helgi Birgir, fórst af slysförum árið 1998. Steinar á tvær dætur, Freyju og Kristbjörgu, með fyrri eiginkonu sinni. Þær eru búsettar í Bandaríkjunum. 4) Þorkelína Ragnheiður, f. 20. apríl 1957, búsett á Akranesi, maður hennar Ólafur Haraldsson. Dætur þeirra eru Jórunn María og Bergrós Fríða. 5) Helga Björk, f. 6. júlí 1962, maður hennar er Sigtryggur Páll Sigtryggsson. Þeirra börn eru Eva Dögg, Daníel Bergmann og Hjalti Freyr.

Útför Kristbjargar fer fram frá Innri-Njarðvíkurkirkju mánudaginn 7. febrúar og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku amma. Ég minnist þín með eftirsjá og þakklæti fyrir allar góðu minningarnar. Sérstaklega þær frá því ég var barn, er ég kom í heimsókn í gamla húsið ykkar sem var mér sem ævintýraheimur. Garðurinn, kirkjan, sjórinn og fjaran.

Nú legg ég augun aftur.

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virzt mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson)

Ragnhildur.