Sigríður Andrésdóttir fæddist á Hamri í Múlasveit í Austur-Barðastrandarsýslu 22. febrúar 1929. Hún lést af slysförum 30. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðný Gestsdóttir, f. 12. ágúst 1895, d. 9. apríl 1987, og Andrés Gíslason, f. 21. apríl 1888, d. 5. mars 1976. Sigríður var níunda í röðinni af fimmtán systkina hópi. Elstur Haukur Breiðfjörð, f. 23. ágúst 1919; Gísli, f. 22. september, d. 21. febrúar 1945; Guðbjartur Gestur, f. 22. janúar 1922; Sigurbergur, f. 4. febrúar 1923, d. 12. febrúar 1989; Kristín, f. 11. maí 1924; Andrés Berglín, f. 28. júní 1925; Guðrún Jóhanna, f. 3. janúar 1927; Páll Straumberg, f. 29. janúar 1928; Bjarni Kristinn, f. 3. mars 1930; Jón, f. 26. mars 1931; Ingibjörg Sigurhildur, f. 27. apríl 1932, d. 12. ágúst 1943; Eggert, f. 17. ágúst 1933; Garðar, f. 20. mars 1935 og Björg, f. 23. janúar 1937.

Sigríður var í sambúð með Kolbeini Guðjónssyni. Þau slitu samvistir. Þeirra börn eru: Gestný Kolbrún, f. 11. september 1955, gift Böðvari Erni Sigurjónssyni, og Sigurgísli Ellert, f. 15. nóvember 1957, kvæntur Ólöfu Jósepsdóttur. Börn Gestnýjar og Böðvars Arnar eru: Katrín Ólöf, f. 19. nóvember 1980, og Sigurjón Örn, f. 16. júní 1986. Börn Sigurgísla og Ólafar eru: Sindri Freyr, f. 12. nóvember 1980, og Sara Björk, f. 16. október 1987.

Árið 1962 giftist Sigríður eftirlifandi eiginmanni sínum, Þóri Kristjáni Bjarnasyni, pípulagningameistara, f. 10. ágúst 1930. Þeirra börn eru: Þórdís Sif, f. 1. febrúar 1962, í sambúð með Árna Egilssyni; Bjarni Kristinn, f. 6. nóvember 1963, kvæntur Ingibjörgu Sólveigu; Alma, f. 9. október 1964, í sambúð með Olgeiri Karli Ólafssyni; Anna Sigurbjörg, f. 19. mars 1968; Jón Þórir, f. 21. nóvember 1969, í sambúð með Valgerði Margréti Gunnarsdóttur. Helgi Róbert, f. 15. júní 1974. Börn Þórdísar og Árna eru: Vilhjálmur, f. 29. október 1983 og Jóel Þór, f. 29. apríl 1988. Börn Bjarna og Ingibjargar eru: Sigríður Ósk, f. 29. janúar 1990, Sunna Dís, f. 1. ágúst 1991, Bjarnveig Rós, f. 27. apríl 1993, Lilja Dóra, f. 18. janúar 1996 og Stella Dröfn, f. 1. júlí 1997. Börn Ölmu og Olgeirs eru: Sigurbjörg Sandra, f. 19. október 1986, Ægir, f. 18. nóvember 1989, og Þórir Kristinn, f. 8. janúar 1998. Börn Önnu Sigurbjargar og Halls Símonarsonar, en þau slitu samvistir eru; Tinna Lind, f. 26. október 1990, og Embla Sigurást, f. 30.janúar 1993. Fósturbörn Jóns Þóris, börn Valgerðar Margrétar eru: Atli Hrannar, Daníel Geir, og Ásdís Helga.

Sigríður lauk almennri grunnmenntun í sinni sveit. Hún var lengst af húsmóðir, en síðustu tvo áratugi starfaði hún utan heimilis, síðustu árin í mötuneyti Landsbankans á Suðurlandsbraut 24.

Útför Sigríðar fer fram frá Kópavogskirkju mánudaginn 7. febrúar, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ó, Drottinn, þú gjörðir oss svo smá. Ævi vor líður hjá eins og saga væri sögð. Hjálpa oss til að muna, að handan við fáa ævidaga vora bíður eilífð kærleika þíns.

(Reinhold Niebuh.r)

Elskuleg móðir mín og amma okkar.

Þegar við hugsum um þig finnum við hlýju þína í hjarta okkar. Þú varst svo dugleg að sá í líf okkar kærleika þínum og sá kærleiki mun ríkja í okkur, sem þekktum þig.

Þú varst alltaf til staðar þegar við þurftum á þér að halda, án þess að ætlast til einhvers til baka. Iðulega þegar við hittumst gafstu okkur gott veganesti bæði fyrir líkama og sál, bestu pönnukökurnar fengum við hjá þér og alltaf stakkstu einhverju góðgæti að okkur þegar við kvöddumst. Þrátt fyrir allan þann fjölda sem í kringum þig var áttum við það sameiginlegt að finna okkur sem heima, hjá þér. Sjálfsagt hefur margt farið í gegnum huga þinn á lífsleiðinni sem þú lagðir ekki á aðra að bera, maður gerði sér oft ekki grein fyrir að mömmu gæti liðið illa því það var alltaf svo létt yfir þér, þú varst svo áhyggjulaus og tókst lífinu eins og það kom fyrir. Við erum þakklátar fyrir þann tíma sem við fengum að hafa þig því það er svo margt sem við lærðum af þér, elsku mamma, elsku amma. Það verður erfitt að vera án þín, söknuðurinn er mikill en með Guðs náð og styrk og þeirri vitneskju að þú ert hjá honum munum við halda lífinu áfram eins og þú hefðir óskað. Við kveðjum þig með sömu orðum og þú notaðir þegar þú kvaddir okkur, Guð veri með þér. Drottinn styrki þig, elsku pabbi, afi, og okkur öll sem eigum um sárt að binda.

Leið oss, algóði Drottinn, og ráð í oss með anda þínum, svo að vér megum lifa í slíkri einingu með þér hér, að eigi verði sundurskilinn þegar þér þóknast að kalla oss héðan, heldur megum vér ganga samferða inn til dýrðar þinnar fyrir Jesú Krist, vorn blessaða Drottin og frelsara.

(John Wesley.)

Þín dóttir og ömmustelpur,

Anna, Tinna Lind og

Embla Sigurást.

Það er skammt milli lífs og dauða, og milli gleði og sorgar. Alltaf erum við minnt á þetta reglulega í fréttum fjölmiðla, og vitum þetta af reynslu okkar af lífinu. Dauðinn er alltaf yfirvofandi og hremmir okkur öll einhvern tíma. Við veitum þessu sem betur fer ekki mikla athygli, fyrr en höggvið er skyndilega og óvægið í vina- og ættingjahópinn. Glöð og ánægð óku tengdaforeldrar mínir, Þórir og Sigga, suður á leið eftir velheppnaða skemmtiför til barna sinna þriggja og fjölskyldna þeirra í Skagafirði. Þau höfðu skemmt sér vel á þorrablóti, og tekið þátt í afmæli sonardóttur, og notið samvista við ástvini sína. Við heyrðum í þeim í síma í Austur-Húnvatnssýslu, ferðin gekk vel. En í einni svipan var gleðin orðin að sorg. Hræðilegt slys hafði orðið. Sigga, mín kæra tengdamóðir, var dáin. En það er huggun harmi gegn að tengdafaðir minn bjargaðist úr helju ómeiddur, og verður það að teljast kraftaverk miðað við allar aðstæður.

Sigga er alin upp í stórum systkinahópi í sveit vestur á fjörðum. Hún mat sveitina sína mikils, og talaði alltaf af virðingu um foreldra sína, systkin og uppvaxtarárin á Hamri. Hún ólst upp í fátækt, en kærleikur var ríkur þáttur í uppeldinu. Sigga naut þess mjög á síðustu árum að fara í heimsóknir að Hamri, tína ber, kanna fjöruna, og rifja upp minningarnar frá því að sveitinn hennar iðaði af mannlífi. Það urðu tengdamóður minni að sama skapi mikil vonbrigði að upplifa það fyrir nokkrum árum að fjölskyldan þurfti að afsala sér æskuheimilinu vegna þess að jörðin hafði verið gefin kirkju sveitarinnar fyrir nærri eitt hundrað árum. Það eru nær þrjátíu ár síðan ég kynntist Siggu fyrst. Ég minnist þess hve hún var góð við okkur unglingana og umgekkst okkur á jafnréttisgrundvelli. Hún var glaðlynd, stutt í hláturinn og grínið, og alltaf hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Þegar kynnin urðu nánari varð mér ljóst hve góð manneskja tengdamóðir mín var. Ekki aðeins við fólk almennt heldur dýrin í kringum hana. Ég minnist þess sérstaklega, þegar hún hrellti nágranna sína í Holtagerðinu með því að gefa útigangandi köttum mat. Einnig leitaði einstaka máfur í matinn líka, og þeir voru velkomnir líka. Allir voru velkomnir á heimili Sigríðar og í faðm hennar. Hún var húsmóðir allrar fjölskyldunnar. Öll barnabörnin leituðu strax í fangið hennar. Hún gældi við þau eða huggaði. Sigga elskaði alla, og leitaði að því góða í fólki. Ég er viss um að hún átti aldrei neina óvini.

Ég sakna minnar góðu tengdamóður. Minningarnar um hana munu hugga vini hennar og ættingja. Það er til hafsjór góðra minninga. Megi almættið styrkja Þóri og börnin hennar í þeirra sorg.

Ég vil drúpa höfði í lotningu fyrir Siggu og þakka henni fyrir frábær kynni og samveruna á lífsins braut.

Böðvar Örn.

Það er svo margs að minnast þegar maður hugsar til baka. Allar minningarnar sem við höfum að geyma verða svo dýrmætar. Hún Sigga amma okkar var nú engri lík.

Við hugsum oft um það núna hve óskaplega heppin við vorum að fá að hafa þau ömmu og afa í þessa sex mánuði, sem þau bjuggu hjá okkur. Það var svolítið undarlegt fyrst þegar þau komu, að amma og afi skyldu alltaf vera hér, en þegar líða tók á tímann var maður óneitanlega farin að leiða hugann að því hvernig það yrði þegar þau færu frá okkur. Þau áttu að fá nýju íbúðina sína afhenta núna í febrúar.

Nú er hún amma farin og söknuðurinn er mikill. Það var svo margt sem við gerðum með ömmu. Hún var alltaf til í að bregða á leik, baka pönnukökur, strjúka manni á bakinu og nudda tærnar. Hún hugsaði svo vel um okkur og fylgdist með því sem við voru að gera í hinu daglega lífi af heilum hug. Maður var varla komin inn úr dyrunum þegar hún spurði "Ertu búin að borða, elskan mín?" Þegar við vorum að faraspurði hún alltaf hvert við værum að fara. Við vorum stundum að fíflast með það að amma væri alltaf að hafa áhyggjur af okkur, t.d. hvort við værum svöng, en samt sá maður hana svo sjaldan setjast niður og borða með okkur öllum. Þá veltum við því svona fyrir okkur, hvort ömmur þyrftu ekkert að borða.

Sigga amma var svo ungleg og frísk.Við leiddum aldrei hugann að því að hún myndi kveðja okkur svo snögglega. Það verður tómlegt í vor, þegar líða fer að fermingu og stúdentsútskrift og Sigga amma verður ekki viðstödd þessa viðburði í lífi okkar á þann hátt er við helst vildum, þó að við vitum með vissu að hún fylgist með okkur. Við systkinin munum alltaf minnast ömmu. Hún verður hress og kát í minningunni og hjálpsöm eins og hún var ætíð í lifanda lífi. Við söknum hennar sárt.

Katrín Ólöf og Sigurjón Örn.

Elsku Sigga amma, það er erfitt að trúa því að þú sért farin frá okkur og það svona snöggt. Ég hefði ekki trúað því, þegar ég kyssti þig bless á sunnudaginn, að það yrði síðasta sinn sem við hittumst. Samt muntu alltaf búa í hjarta okkar allra sem elskuðum þig svo heitt. Þú sem alltaf varst svo hress og skemmtileg amma. Það var alltaf jafn mikil tilhlökkun að koma til þín og afa og fá heita og góða kjötsúpu og þínar bestu pönnukökur. Þú gafst þér alltaf tíma til að spjalla við okkur krakkana og það var svo gott að kúra í fanginu á þér. Ég man svo vel þegar við fórum í einn veiðitúrinn, þá fórum við upp í móa og tíndum heilu föturnar fullar af berjum. Þú varst til í að fara í alls konar leiki með okkur krökkunum og alltaf varstu jafn hress. Ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman í sveitinni, sem þér þótti svo vænt um, þar sem þér leið svo vel og hver klettur og hver hóll hét ákveðnu nafni. Þar tíndum við upp í okkur stærstu og bestu aðalbláber sem til eru. Við öll hlökkuðum svo til eftir tvær vikur þegar við ætluðum að hjálpa ykkur afa að flytja í nýju fallegu íbúðina ykkar, sem þið voruð búin að bíða svo lengi eftir.

Elsku amma, þú varst alltaf til staðar, þegar ég þurfti á þér að halda og ég þakka þér fyrir allar góðu stundirnar.

Elsku afi, megi guð gefa þér styrk í þinni miklu sorg og vera með þér í framtíðinni.

Sara Björk Sigurgísladóttir.

Nú er sú stund runnin upp að hún Sigríður amma mín, eða Sigga amma, eins og ég kallaði hana frá því ég man eftir mér, er dáin. Hún átti svo mikið eftir. Hún var alltaf svo ungleg og skemmtileg. En svona eru slysin. Þau gera ekki boð á undan sér. Maður verður lengi að átta sig á því að Sigga amma sé ekki lengur hjá okkur. Það er furðulegt að fara í Kópavoginn til að hitta fjölskylduna og hitta enga ömmu, en samt veit ég og finn að hún er alltaf hjá mér. Ég verð að segja frá því að sem betur fer flutti ég til hennar í sex mánuði í fyrra og sá tími var mér ómetanlegur. Mér fannst alltaf svolítið skrítið að þegar ég var að fara í vinnuna á morgnana rauk hún oft á fætur og fram í eldhús og sagði að ég yrði að borða áður en ég færi í vinnuna. Ég fór alltaf mjög snemma, þannig að ég skildi þetta aldrei, en svona var hún alveg æðisleg. Hún gerði allt sem hún mögulega gat fyrir mig og stundum meira en það. Maður reynir að lifa með þessu þótt það sé erfitt því ég veit að hún hefði viljað það. Afi og amma komu á þorrablót norður á Hofsós um síðustu helgi og það var yndislegt. Þau skemmtu sér mjög vel og ég líka, enda var hún amma mín með þeim síðustu sem fóru að sofa. Þetta var mjög dýrmæt helgi að geta séð hana og verið með henni, en því miður endaði helgin með þessu hörmulega slysi.

Guð veri með þér, afi minn.

Sindri Freyr.

Elsku Sigga amma! Okkur þykir leitt að þú hafir farið frá okkur. Þegar við komum heim til Gestnýjar var allt svo tómlegt, því að það vantaði þig. Við munum vel eftir því þegar þú varst með okkur í berjamó í sumar. Það var alltaf svo gaman að sjá þig brosa. Við systurnar söknum þín svo mikið. Og við elskum þig allar og þú verður alltaf í brjósti okkar allra. Við skiljum ekki af hverju þú þurftir að fara frá okkur. Amma, Guð og Jesú, viljið þið passa afa eins vel og þið getið fyrir okkur öll. Viltu passa afa fyrir okkur öll, að hann lendi ekki í slysi eða veikist. Okkur þykir svo vænt um hann. Og þakka þér fyrir, kæri Guð, að leyfa afa að lifa. Við værum mjög mjög þakklát, ef amma hefði sloppið eins og afi. Við gleymum aldrei öllum góðu stundunum sem við áttum saman. Elsku amma, vonandi líður þér vel. Það var svo gaman að fá þig og afa í heimsókn í sveitina til okkar. Þú varst alltaf svo kát og glöð og nenntir að gera allt með okkur. Við söknum þín svo mikið, amma mín. Við söknum þess að þú segir okkur ekki fleiri sögur eins og þú sagðir okkur svo oft.

Vertu guð faðir faðir minn

í frelsarans Jesú nafni

hönd þín leiðir mig út og inn

svo allri synd ég hafni.:

Drottinn blessi þig, elsku amma.

Sigríður, Sunna, Bjarnveig, Lilja og Stella.

Elsku amma Það var þungt og erfitt högg sem við bræðurnir fengum þegar pabbi tilkynnti okkur það, að þú værir látin. Það tók okkur langan tíma að trúa því að þú værir farin frá okkur. Þó að þú yrðir alltaf eldri og eldri var ekki hægt að sjá það, þar sem þú varst alltaf svo hress og ungleg. Þú varst okkur alltaf svo góð og skemmtileg amma og vildir alltaf gera okkur gott. Alltaf þegar við komum suður til þín beiðst þú okkar með eftirvæntingu. Þegar við vorum að fara að sofa heima hjá þér komst þú alltaf og klóraðir okkur á bakinu og við fórum með faðirvorið saman. Þú passaðir alltaf upp á það, að við værum ekki svangir þegar við komum til þín eða þegar við fórum heim. Okkur var fagnað með pönnukökum og kvaddir með lambasteik. Við hlökkuðum mjög mikið til að koma næst suður og hjálpa ykkur að flytja í nýja húsið, sem þú varst að fara að flytja í. Okkur þykir gaman hvað þú skemmtir þér vel hérna fyrir norðan, þar sem þú hittir börnin og barnabörnin þín og skemmtir þér mjög vel á þorrablótinu með okkur. Elsku amma, við vitum að þér líður vel í örmum guðs. Hann passar þig og við vitum að þú passar og fylgist með okkur öllum og Þóri afa.

Bræðurnir,

Vilhjálmur og Jóel Þór.

Elsku Sigga amma mín, þú varst alltaf aðalskvísan á háu hælunum og þrönga pilsinu. Það var alltaf svo gaman þegar ég var lítil, þá var ég alltaf að máta skóna þína. Þú áttir svo mikið af skóm, allskonar skó græna, bleika og jafnvel silfurlitaða. Svo var líka svo gott að koma til þín því þú varst sannkallað 1000 stjörnu hótel. Alltaf fékk maður gistingu hjá þér og nóg að borða. Það var sama hvað maður borðaði mikið þú varst alltaf að bjóða mér meir af allskonar góðgæti og alltaf þótti mér kjötsúpan jafn yndislega góð. Það var sama hvernig stóð á þú varst alltaf til með kjötsúpu.

Þegar ég var yngri þá fannst mér svo gott að lúlla hjá þér og afa.

Elsku amma, þú varst og verður alltaf í minningunni yndisleg og ég á eftir að sakna þín.

Þín ömmustelpa,

Sandra.

Þegar ég kveð Siggu mína eftir 38 ára vinskap er mér efst í huga hvað hún var alltaf hress, kát og tilfinningarík. Það er margt að minnast á þessum tíma og eins t.d. allra ferðalaganna sem við fórum í ásamt börnum okkar og mökum. Af okkur sem vorum saman í spilaklúbb eru þrír fallnir frá, Sigurður, Hermann og Sigga. Þegar við fórum eitt sumar í Hrafnadalinn um helgi rigndi allan tímann. Þótt ég hefði ekki verið par hrifin af veðrinu lét Sigga það ekki á sig fá og gerði gott úr öllu með sinni kímni. Það var dæmigert fyrir Siggu að sjá björtu hliðarnar á öllum málum og lífinu yfirleitt. Hún átti miklu barnaláni að fagna og þótt því hefði fylgt mikið annríki var hún alltaf hress og hafði alltaf tíma aflögu fyrir aðra. Það er því margs að minnast eins og t.d. allra ættarmótanna á Suðureyri við Tálknafjörð og allra árshátíðanna hjá Barðstrendingafélaginu. Við vorum t.d. stofnfélagar í Klúbb 44 fyrir 24 árum en það er félagsskapur eiginkvenna pípulagningamanna. Á síðasta fundi okkar nokkrum dögum áður en hún fór í sína hinstu ferð keyrði ég hana heim. Það var í síðasta sinn sem ég sá Siggu þar sem ég kvaddi hana við heimili hennar í Kópavoginum. Þá óraði mig ekki fyrir því að þetta væri okkar síðasta samverustund. Ég bið Guð að styrkja Þóri mág minn og börn í sorg þeirra við fráfall eiginkonu og móður.

Þín vinkona

Ruth.

Sunnudaginn 30. janúar barst okkur sú sorgarfregn að Sigga vinkona okkar og samstarfskona hefði látist af slysförum þann sama dag. Okkur setti hljóð og hugur og hjarta fylltist djúpri sorg.

Kynnin við Siggu hófust í ferð með skólahljómsveit Kópavogs þar sem hún var fararstjóri ásamt undirritaðri, en nánari kynni hófust svo síðar þegar Sigga réðst til starfa í mötuneytinu á Suðurlandsbraut 24. Þar kynntumst við þeirri hlýju og léttlyndu persónu sem Sigga hafði að geyma. Jafnframt því að spyrja okkur alltaf hvernig okkur liði, hvort allir væru frískir og allt gengi ekki vel sagði hún okkur frá börnum sínum og barnabörnum sem voru henni einstaklega hugleikin. Sigga var félagslynd kona. Hún söng með kór SFR og starfaði með Kvenfélagi Kópavogs, þar var Sigga vel liðin og er hennar sárt saknað.

Okkur fjölskylduna langar að þakka Siggu samfylgdina jafnt í leik sem starfi, megi góður guð geyma elsku Siggu okkar.

Ó, þá náð að eiga jJesú

einkavin í hverri þraut.

Ó, þá heill að halla mega

höfði sínu í drottins skaut.

Ó, það slys því hnossi að hafna,

hvílíkt fár á þinni braut,

ef þú blindur vilt ei varpa

von og sorg í drottins skaut.

(Þýð. M. Joch.)

Elsku Þórir, börn, tengdabörn og barnabörn, ykkur sendum við alla okkar samúð. Megi góður guð styrkja ykkur í ykkar miklu sorg. Minningin um góða konu lifir.

Guðrún Tómasdóttir

og fjölskylda.