Af margræðri skipan Önnu Líndal í Galleríi Sævars Karls.
Af margræðri skipan Önnu Líndal í Galleríi Sævars Karls.
Til 18. febrúar. Opið á verslunartíma.

ANNA Líndal hefur löngum verið upptekin við að rannsaka lífið og tilveruna með því að setja sig í hlutlægar stellingar og reyna að skoða eigin upplifun frá rökvísum og óvilhöllum sjónarhóli. Það er ekki laust við að persónulegar athuganir Mary Kelly, svo sem rannsókn hennar á hugarheimi sonar síns - og fram komu í Post Partum heimildum hennar - hafi vísað Önnu veg til listar sem er uppfull af krítískri spennu þótt það liggi ef til vill ekki í augum uppi sökum smellinnar og fágaðrar framsetningar hennar.

Í Galleríi Sævars Karls hefur hún komið fyrir nokkrum sjónvarpsskermum með ýmsum heimilislegum munum inni á milli, auk þess sem á austurvegginn er varpað stóru myndbandi sem nær yfir allan vegginn. Anna segist vera að nálgast vísindin og rannsóknarhvötina með þessari skipan, en eitt af því sem hún segir heilla sig er margræðni veraldarinnar, allt eftir því frá hvaða sjónarhorni hún er athuguð.

Tækifæri til að fylgjast með rannsóknum Jöklarannsóknafélagsins beindi athygli hennar að hugmyndinni um hið stórbrotna - sublima - í náttúrunni. Bæði fyllumst við minnimáttarkennd frammi fyrir jafn stórbrotnu náttúrufyrirbæri og Vatnajökli, en jafnframt margfaldast sú tilfinning að við - sem einstaklingar frammi fyrir slíkum ægifögrum og yfirþyrmandi máttarvöldum - séum að einhverju leyti útvaldir, í líkingu við þá sem náðarsamlegast er hleypt inn í helgidóm musterisins af því þeir eru traustsins verðir og munu ekki afhjúpa upplifunina með fleipri.

Hafi það verið tilgangur Önnu að velta lauflétt fyrir sér hugmynd Kants um hið sublima, eða mikilfenglega, þá er tvennt sem birtist aukreitis við þær vangaveltur, og hleypir óvæntu fjöri í sýningu hennar.

Vísindaleiðangurinn sem gerir henni kleift að halda á vit hins stórbrotna er nefnilega ekkert minna en táknmynd spillingarinnar á upplifun hins útvalda í helgidómnum náttúrulega. Vísindamennirnir bora í jökulhettuna, grafa ofan í hana, mæla og kanna, með það eitt að leiðarljósi að afhjúpa mikilfenglega leyndardóma hennar svo hún verði okkur viðráðanlegri. Vísindamennirnir eru hinir guðlausu sem ekki virða neinn átrúnað. Fyrir þeim er ekkert svo heilagt að ekki megi svipta það árunni.

Hitt atriðið sem slær áhorfandann er samsafn þjóðlegra táknmynda sem hvarvetna skína út úr skipan Önnu. Unglingurinn sem stautar sig fram úr lokaköflum Njálu án þess að skilja beinlínis inntak þess sem lesið er - gæti verið oltinn út úr verki eftir Gary Hill - og krumminn uppstoppaður milli sjónvarpsskjánna eru skjaldarmerki og verndarar hefðarinnar; tákn um það hvað okkur Íslendingum finnst vera íslenskt. Aftur eru vísindin af öðrum meiði; öðru sauðahúsi; reiðubúin að spilla þeirri mynd sem við varðveitum í skuggsjánni. Þannig er sýning Önnu Líndal einstaklega gjöful sökum þess hve hún er óvenjulega margvísandi.

Halldór Björn Runólfsson