Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.

Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn. Foreldrar hennar voru: Anna og Gravers Pedersen. Börn Magnúsar og Dagnýjar eru þrjú: 1) Jón viðskiptafræðingur, f. 7.11. 1960, kvæntur Helen P. Brown, markaðsfræðingi, f. 13.2. 1960. Synir þeirra eru: Stefán Daníel, f. 1988, og Davíð Þór, f. 1991. Þau eru búsett í Garðabæ. 2) Halla, læknaritari, f. 12.12. 1964, gift Þórði Bragasyni skrifstofumanni, f. 23.9. 1965. Börn þeirra eru Magnús, f. 1991, Bragi, f. 1993, og Ingibjörg, f. 1997. Þau eru búsett í Hafnarfirði. 3) Anna tannlæknir, f. 19.5. 1970, gift Guðmundi Jóhannssyni, sagn- og viðskiptafræðingi, f. 10.7. 1963. Sonur þeirra er Helgi, f. 1997. Þau eru búsett í Reykjavík.

Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna "Bær í byrjun aldar" og "Hundrað Hafnfirðingar" I, II og III.

Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.

Útför Magnúsar fer fram í dag frá Hafnarfjarðarkirkju og hefst athöfnin klukkan 15.

Mig langar að minnast tengdaföður míns, Magnúsar Jónssonar, í örfáum orðum. Það var sumarið 1988 er dóttir hans Halla og ég vorum að draga okkur saman að kynni okkar Magnúsar hófust. Magnús var þá þegar illa haldinn af parkinsonsjúkdómi, en starfaði sem minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar. Starfið var hans líf og yndi enda mikill grúskari og áhugamaður um sögu og sögulega muni. Áður en sjúkdómurinn fór að verða honum fjötur um fót batt hann inn bækur í tómstundum enda lærður bókbindari. Listavel smíðuð líkön, aðallega kirkjulíkön, smíðaði hann úr krossviði.

Ég sem bílaáhugamaður hafði gaman af að spjalla við Magnús um Ford-T-bílinn sem hann átti í ein 20 ár og fyrir nokkrum árum vélritaði Magnús upp fyrir mig nokkrar blaðsíður um þennan sérstaka bíl sem síðar varð stofustáss uppi í Borgarnesi. Það var árið 1959 sem Magnús keypti Ford-T árgerð 1927 í Danmörku og flutti inn með skipi til Íslands. Flutningarnir kostuðu víst meira en bílinn. Sunnudagsrúntur um Hafnarfjörð og Álftanes var mikið sport hjá börnum hans og börnum úr nágrenninu og fengu jafnvel nemendur hans sem höguðu sér vel, að fara ferð í gamla Ford að launum. Oft fór Magnús með bílinn sýningarrúnt í Reykjavík t.d. 17. júní með Fornbílaklúbbnum, en þar var hann virkur félagi í nokkur ár.

Ein af eftirminnilegustu ferðum Magnúsar á gamla Ford var ferð í Vogana á Vatnsleysuströnd en þá grði svo mikinn hliðarvind að til þess að halda bílnum á fjórum hjólum og á veginum varð hann að opna báðar hliðarrúðurnar og sitja í kulda og trekki við aksturinn. Orðatiltæki notaði Magnús mikið og væntanlega hefur hann talað um að bíta í hið súra epli og að hann hafi verið eins og útspýtt hundskinn eftir ökurferðina.

Í dag er hann aftur á móti eins og nýsleginn túskildingur á æðra tilverustigi. Parkinsonsjúkdómurinn hafði smám saman í gegnum tæpa þrjá áratugi bundið líkama Magnúsar í fjötra en andlegri heilsu hélt hann allt fram undir það síðasta. Ég bið góðan Guð að styrkja eftirlifandi eiginkonu hans Dagnýju og aðra aðstandendur í þeirra sorg.

Þórður Bragason.

Mínar fyrstu minningar um vin minn, Magnús Jónsson, tengjast veru okkar í Barnaskóla Hafnarfjarðar, nú Lækjarskóla, en þar vorum við bekkjarbræður á bernskuárum. Man ég glögtt, hversu Magnús var í ýmsu öðrum fremri í bekknum okkar. Þannig var hann þá byrjaður að semja stökur, kunni orðaleiki, var einkar prúður og gat hlaupið hratt og stokkið langt í skólamölinni. Þá var Magnús mjög lagtækur í handavinnunni og naut sín vel í söngnum hjá Friðriki Bjarnasyni.

Ennfremur leita á hugann atvik við bernskuleiki okkar Magnúsar í litlu húsi á baklóð við Austurgötu, sem móðurforeldrar hans byggðu 1907. Það var rifið 1940 og hýsti síðast dúfur okkar og hænsni. Sögu þessa húss kunni Magnús vel sem flestra annarra horfinna húsa í Hafnarfirði.

Magnús var einn vetur við nám í Flensborgarskólanum, en lauk síðar bókbandsnámi. Eftir kennarapróf 1957 var kennsla hans aðalstarf um árabil, eins og nánar kemur fram í formálsorðum, svo og eru þar tilgreind önnur störf Magnúsar. Merk kaflaskipti urðu á starfsferli hans 1980, en þá gerðist hann minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar. Þar starfaði hann til 1995, en lét þá af störfum vegna veikinda. Var það mikið lán fyrir þessa stofnun að fá notið starfskrafta Magnúsar, áhuga hans, ósérhlífni og þekkingar.

Segja má, að Magnús hafi unnið visst brautryðjendastarf við byggðasafnið. Þrátt fyrir þröngan húsakost gerði hann sér far um að hafa þar allt í röð og reglu, enda nákvæmni honum í blóð borin. Hann var ötull við öflun gamalla muna, mynda og annarra heimilda og oft til hans leitað um upplýsingar varðandi gamla tímann. Alltaf var Magnús tilbúinn að sýna gestum safnið. Og aldrei krafði hann bæinn um endurgjald fyrir eða annað í þágu safnsins, sem féll utan við umsaminn vinnutíma.

Enginn eða fáir hafa lagt meiri alúð og rækt en Magnús við að afla fróðleiks og varðveita heimildir um liðna tíma í Hafnarfirði. Þannig gaf hann út 1967 á eigin kostnað og seldi á vægu verði stórmerka bók með heitinu "Bær í byrjun aldar". Geymir hún ómetanlegar heimildir um byggð og búendur í Hafnarfirði um aldamótin 1900. Það gerir þessa bók einkar sérstæða, að hún er öll handskrifuð af vandvirkni með eigin skrift Magnúsar, sem er falleg og skýr. Þá hefur hann teiknað útlínur margra húsa í bókinni. Þessa einstæða og lofsverða framtaks Magnúsar mun lengi minnst.

Þegar Magnús var eitt sinn spurður um tildrög bókarinnar og hvort hann hefði haft ánægju af fyrirhöfninni, svaraði hann með sinni hógværð: "Já, já, með þessu lengir maður líf sitt til baka. Mér finnst, að verið sé að tala við gamla kunningja, þegar minnst er á Ólöfu í Undirhamri, Jón í Hamarskoti, Pétur í fóninum o.fl., þótt þetta fólk hafi verið komið undir græna torfu, er ég fæddist". En þetta fólk kemur við sögu í bók Magnúsar. Og til marks um látleysi Magnúsar vildi hann ekki taka þetta ritverk sitt sem "örugga fræðimannaheimild", heldur sem "lykil að kunningjarabbi yfir kaffibolla", eins og hann komst að orði.

En Magnús lét hér ekki staðar numið. Áhugi hans á fortíðinni og því fólki, sem hann kynntist á lífsleiðinni, varð að fá frekari útrás. Því réðst hann í að gefa út þrjár bækur undir heitinu "Hundrað Hafnfirðingar", sem geyma myndir af þrjú hundruð Hafnfirðingum, sem Gunnar Rúnar tók á árum áður. Undir hverri mynd er ferskeytla, nær allar eftir Magnús, þar sem lýst er látbrögðum og lífshlaupi viðkomandi. Til gamans er hér valin af handahópi ein af þessum skemmtilegu vísum Magnúsar:

Meinhægan ég Lárus leit

með léttan staf í hendi.

Var úr landsins syðstu sveit,

söng og tónlist kenndi.

Magnús átti létt með að færa hugsanir sínar í búning vísna og ljóða, enda hafa þessar bækur hans notið mikilla vinsælda. Hann átti ekki langt að sækja hæfni sína í ljóðagerð, en foreldrar hans voru ljóðelsk og góðir hagyrðingar. Þannig er mörgum minnisstætt, þegar þau Halla og Jón töluðu saman í ljóðum á efri árum í kvöldstund Sjónvarpsins. Til heiðurs minningu þeirra gaf Magnús út 1985 myndarlega bók með stökum og ljóðum eftir föður sinn, en hann varð níræður það ár.

Lengi tók Magnús virkan þátt í starfi Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Kunni hann vel þá fornu andans list að kveða stemmur og var þá oft gaman að hlusta á Magnús. Þá samdi hann ótal tækifærisvísur og önnur ljóð og var gæddur þeim fágætu hæfileikum að búa til gátuvísur. Hafa margar þeirra birst í Fréttabréfi Öryrkjabandalagsins og víðar. Þær endurspegla málsnilld Magnúsar og mikla þekkingu hans á hlutum og fyrirbærum.

Magnús naut ríkulega ávaxtanna af góðu uppeldi. En í foreldrahúsum var samviskusemi og reglusemi sett í öndvegi ásamt boðorðinu um að gera fyrst og fremst kröfur til sjálfs sín. Og heilræðum foreldra sinna fylgdi Magnús alla ævi. Þannig var hann alger bindindismaður og lagði málstað bindindis öflugt lið meðal annars með því að veita forstöðu um árabil barna- unglingastarfi Góðtemplarareglunnar í Hafnarfirði.

Hæfileikar Magnúsar voru ekki einskorðaðir við ritstörf. Hann var einnig listamaður. Þannig bjó hann til líkön af húsum t.d. af Góðtemplarahúsinu og Kálfatjarnarkirkju, sem hann gaf föður sínum áttræðum, en faðir hans var mikill velunnari þeirrar kirkju. Þá gleymist ekki sú alúð og natni sem Magnús sýndi við störfin í Kirkjugarði Hafnarfjarðar þau nítján sumur sem hann vann þar. Til hans þótti gott að leita og öllum vildi hann þar liðsinna.

Magnús gat stundum verið sekmmtilega frumlegur. Þannig keypti hann 1962 í Danmörku Ford t fólksbifreið af árgerð 1927. Þessi fallegi gamli bíll var lengi einn sá elsti á vegum landsins og nutu Hafnfirðingar þess stundum á hátíðardögum að sjá Magnús aka honum um götur bæjarins. En þótt Magnús hafi á vissan hátt fundið lífsfyllingu með því að taka ástfóstri við liðna tímann, taldi hann það hafa verið sína mestu gæfu í lífinu að kynnast Dagnýju, eftirlifandi eiginkonu. Þau gengu í hjúskap á annan dag jóla 1959 í gamalli, lítilli sveitarkirkju á Jótlandi. Dagný reyndist Magnúsi traustur lífsförunautur og var skilningsrík gagnvart hugðarefnum hans og áhugamálum. Heimili þeirra var lengst eða um 25 ár á Skúlaskeiði 6, en það hús var Magnús nýbúinn að kaupa, áður en Dagný fluttist til Hafnarfjarðar strax eftir giftinguna frá heimahögum í Danmörku. Síðustu árin áttu þau heima á Sólvangsvegi 1, en haustið 1997 fór Magnús á Sólvang vegna veikinda.

Með Magnúsi Jónssyni hverfur af sjónvarsviðinu minnisstæður mannkostamaður, sem var sérstæður um svo margt. Hann fetaði ekki lífsbrautina eftir troðnum slóðum fjöldans, kappkostaði að vera hann sjálfur, hafði ánægju af því að gera örðum greiða og geta orðið góðum málefnum að liði. Að kvarta var honum fjarri skapi. Hann var hrekklaus og heiðarlegur, hógvær og lítillátur. Yfir minningu hans hvílir heiðríkja, sem áfram mun ljóma í verkum hans.

Um leið og Magnús er kvaddur með einlægri þökk fyrir vináttu og hjálpsemi er hér að lokum birt eitt erindi úr Lýðveldisljóði hans frá 1994:

Nú útþenst vor bær, jafnt um hlíðar og

hraun.Og háreist er bygging í miðju.

Í nautnir við ei skulum nota vor laun

en nytsamri vinna að iðju.

Og hafa í umræðum hógværust orð

en hafnandi andúðartóni.

Í huganum æ sú hafnfirska storð

sé hjarfólgnust byggða á Fróni.

Góður vinur hvíli í friði.

Árni Gunnlaugsson.