12. febrúar 2000 | Viðskiptafréttir | 959 orð | 1 mynd

Íslandspóstur mætir netverslun með nýju dreifingarkerfi

Nýr angi af póstversluninni

postur.is
postur.is
VERSLUN með vörur á Netinu er háð því að til sé gott dreifingarkerfi sem kemur vörunum til kaupandans. "Netverslun er ekkert nýtt fyrir þá starfsemi sem við erum í.
VERSLUN með vörur á Netinu er háð því að til sé gott dreifingarkerfi sem kemur vörunum til kaupandans. "Netverslun er ekkert nýtt fyrir þá starfsemi sem við erum í. Við höfum lengi tengst póstverslun og þetta er nýr angi af því máli," segir Einar Þorsteinsson, forstjóri Íslandspósts. Íslandspóstur er eini aðilinn hér á landi sem hefur rekstrarleyfi til bögglapóstþjónustu og hefur aðlagað rekstur sinn þeim nýjungum, sem netverslunin boðar, með heimkeyrslu bögglapósts. 95% landsmanna hafa nú aðgang að slíkri þjónustu frá Íslandspósti.

Almennt er gengið út frá því að netverslun sé ekki orðin nema brot af því sem hún á eftir að verða. Einar segir að þótt vöxturinn í pakkaflutningum hafi orðið mikill sé heildarfjöldi sendinganna enn ekki mjög mikill.

Hann segir að hjá fyrirtækinu hafi menn lagt mikla vinnu í að rannsaka vöruviðskipti á Netinu og hvaða hindranir hafi staðið í vegi fyrir að þau hafi vaxið eins og spádómar gerðu ráð fyrir. Einar segir að fyrsta vandamálinu, aðgengi fólks að Netinu, hafi verið rutt úr vegi á Íslandi, þar sem um 80% fólks er komið með netaðgang. Önnur hindrunin sé að koma vörum til kaupenda með góðu dreifingarkerfi. Hann segir að dreifingarþátturinn hafi valdið verulegum erfiðleikum í netverslun í Bandaríkjunum fyrir síðustu jól. Ekki orðið sú sprenging í netverslun fyrir jólin, sem margir hafi vænst, en einnig hafi komið í ljós að innviðir netverslananna voru oft ekki nógu traustir til að geta tryggt kaupendum afhendingu með viðunandi hætti. Íslandspóstur telur sig nú búinn að leggja grunn að því að ryðja þessari hindrun úr vegi hér á landi.

Traust

Þriðja hindrunin í vegi netverslunar segir Einar að sé skortur á því trausti sem nauðsynlegt er að ríki milli seljanda og kaupanda varðandi greiðslumiðlun, afhendingu og gæði vörunnar. Íslandspóstur telji að með breytingum á starfsemi sinni sé fyrirtækið að að auka traust á dreifingunni. Auk þess komi fyrirtækið til móts við þá, sem ekki hafi traust á greiðslum með kreditkortum í netverslun með því að bjóða póstkröfu, þannig að neytandinn geti greitt um leið og hann fær vöruna í hendur heima við dyrnar hjá sér.

Nýja þjónustan, sem Íslandspóstur hefur boðið frá 19. janúar sl. og hafði áður gert tilraunir með fyrir jólin 1998 og 1999, felur að meginstefnu í sér þann afhendingartíma að það sem pantað er í dag er afhent á morgun. "Það sem kemst til okkar í dag skilar sér fyrripartinn á morgun til fyrirtækja og seinnipartinn til einstaklinga," segir Einar. Um 95% þjóðarinnar á nú aðgang að þessari þjónustu. Sendingar til einstaklinga eru bornar heim til þeirra milli klukkan 17 og 22, þegar mestar líkur eru á að finna fólk heima. Ef enginn er heima þegar pósturinn hringir upp á er skilin eftir tilkynning um að varan bíði á næsta pósthúsi. Einar segir að með þessu kerfi hafi náðst gríðarlega góð skil á vörum heim til fólks.

"Til viðbótar þessu grunnkerfi bjóðum við boðsendingarþjónustu með samdægurs afhendingu," segir Einar.

Einar segir að nauðsynlegt hafi verið að taka til endurskoðunar gamla kerfið, sem var þannig að borin var heim tilkynning um að pakki biði á næsta pósthúsi.

Það gagnist ekki netversluninni að fólk þurfi að fara út á næsta pósthús að ná í vörurnar. Þurfi það á annað borð að fara úr húsi eftir vörunni geti fólk alveg eins sótt hana alla leið í verslunina.

"Það sem mun gerast til lengri tíma litið er að dreifingin í gegnum pósthús minnkar en á sama tíma mun nýtt dreifingin um nýja kerfið, heimkeyrslukerfið, aukast," segir Einar spurður um hvernig hann telji að starfsemi fyrirtækisins muni þróast vegna netverslunar.

Hann segir að þessi breyting muni hafa lítil áhrif á heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins en leiða af sér tilfærslu starfa frá pósthúsum og út í bílana, sem sjá um að koma vörum til viðtakenda.

Einar segir að undanfarin ár hafi orðið allt að þreföldun í pakkaflutningum milli ára en magnið sé samt enn tiltölulega lítið. "Það er langt í frá að farið sé að reyna á þanþol okkar kerfis," segir hann.

"En við trúum því að vöruverslun á Netinu eigi eftir að margfaldast og heildarmagnið vaxa mjög mikið.

Við erum með hugmyndir um að pakkaflutningar okkar eigi eftir að tvöföldast eða þrefaldast."

Hann segir að þótt vöruverslun á Netinu margfaldist telji hann ekki að hún ógni hefðbundinni verslun. Í Finnlandi sé vöruverslun á Netinu langt komin og þar í landi eigi póstverslun sér mikla hefð. Þar hafi menn hins vegar berlega orðið þess varir að verslanamiðstöðvar hafi fengið nýtt þjónustuhlutverk við almenning. Með lengri afgreiðslutíma og nýjum verslanamiðstöðvum, þar sem hægt er að komast í verslanir, veitingastaði, kvikmyndahús og alls konar afþreyingu og menningu langt fram á kvöld og um helgar, verði verslunarferðir í auknum mæli liður í dægradvöl og skemmtanamynstri fjölskyldna. Þetta vinni á móti því að vöxtur netverslunar verði jafnmikill og sumir spá. Auk þess verði seint útrýmt þörf manna til þess að nota skilningarvitin til þess að þreifa á vörum, horfa á þær og halda á þeim áður en þær eru keyptar.

Kostnaður ekki hindrun

Um þróun sendingarkostnaðarins segir Einar að ef spádómar um aukið magn rætist muni einingarkostnaðurinn lækka. "Við trúum að sendingarkostnaðurinn verði ekki hindrun en það ber að hafa í huga að rekstri netverslunar fylgir ekki sama fjárfesting í húsnæði, starfsfólki og þjónustu og hjá þeim verslunun þangað sem fólk kemur. Við samanburð á netverslun og annarri verslun þarf að hafa í huga að verðið er verð netverslunarinnar að viðbættum sendingarkostnaði." Til að auðvelda kaupendum slíkan samanburð hefur Íslandspóstur á heimasíðu sinni sett upp reiknilíkan þar sem fólk getur reiknað út sendingarkostnað.

Íslandspóstur hefur yfirburði á þessum dreifingarmarkaði hér á landi en Einar segir fyrirtækið í bullandi samkeppni við vöruflytjendur. Íslandspóstur er hins vegar eini aðilinn í landinu sem hefur rekstrarleyfi til þess að veita þá grunnþjónustu sem bögglapósturinn er.

Hann segir að þróunin sé að breyta ímynd fyrirtækisins. Þetta sé ekki lengur "gamli, góði Pósturinn" heldur framsækið þjónustufyrirtæki á dreifingarsviðinu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.