einkabanki.is
einkabanki.is
ELLEFU þúsund manns eru tengdir Einkabanka Landsbanka Íslands, sem býður bankaþjónustu á Netinu.

ELLEFU þúsund manns eru tengdir Einkabanka Landsbanka Íslands, sem býður bankaþjónustu á Netinu.

Kristján Guðmundsson, markaðsstjóri Landsbankans, segir að eins og aðrir bankar hafi Landsbankinn lagt áherslu á að gefa viðskiptavinunum kost á að eiga flest sín viðskipti í gegnum einkabankann, sem tekinn var í notkun fyrir um það bil tveimur árum. "Síðan hefur orðið gríðarlegur vöxtur í viðskiptum í einkabankanum og sífellt fleiri kjósa að gera sín bankaviðskipti á Netinu," segir Kristján. Á Netinu greiði menn í auknum mæli reikninga, annist millifærslur og aðrar almennar færslur. "Enn gegna útibúin þó lykilhlutverki í að

þjónusta og taka við viðskiptavinum og við teljum að svo muni verða áfram þótt hlutverk þeirra kunni að breytast," segir hann.

Auk einkabankans rekur Landsbankinn Landsbankavefinn, "sem er að mestu upplýsingavefur um afurðir okkar og þjónustu," segir Kristján, "en þó með ýmsa möguleika til að veita gagnvirka þjónustu. Til dæmis geta einstaklingar gert þar bráðabirgðagreiðslumat varðandi heimilislán. Þarna rekum við líka sérstaka þjónustu í tengslum við Vörðuna, sem er þjónusta fyrir okkar bestu kúnna."

11.000 í Einkabankanum

Kristján segir að unditektir við netbanka Landsbankans hafi verið geysilega góðar. Um 11.000 viðskiptavinir séu skráðir í bankann og þeim fjölgi stöðugt. Hann segir útilokað að svara því hve hátt hlutfall heildarviðskipta einstaklinga við Landsbankann fari þessa leið; viðskiptamenn séu misvirkir á Netinu en almennt fari þeir, sem nota Netið í bankaviðskiptum, sárasjaldan í útibú heldur sinni velflestum bankaviðskiptum sínum frá heimilistölvunni.

Um þróun netvæðingar bankakerfisins hér á landi næstu misserin segir Kristján að sennilega muni netbankar halda áfram að þróast þannig að fleiri þjónustumöguleikar komi til sögu. Hins vegar sé margt annað að gerast á Netinu. Hann nefnir WAP-síma, sem bjóða upp á þráðlausa nettengingu. Símar séu farnir að gegna meira og meira hlutverki og Netið og síminn muni þróast samhliða. "Símar gegna meira og meira hlutverki, sérstaklega hjá yngra fólki. Það eru 150.000 GSM-símar í landinu og þeir eru notaðir daglega í vaxandi mæli."

Hann segir að mikil gerjun sé í þessum málum og allir séu að velta fyrir sér möguleikunum en óljóst sé hvaða stefnu þróunin taki.

Þegar Kristján er spurður um markmið Landsbankans um aukningu netvæðingar viðskiptanna á þessu ári og næstu misserum segir hann að bankinn leggi áherslu á það í sinni stefnumótun að veita einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum heildarfjármálaþjónustu hér eftir sem hingað til. Kappkostað verði að taka upp nýjungar til að sinna þörfum viðskiptamanna sem best. Fyrst og fremst sé lögð áhersla á þjónustuþættina og notaðar verði allar þær dreifileiðir sem viðskiptamenn vilja nota, og kappkostað verði að sinna þörfum þeirra sem vilja nýta Netið.

Landsbankinn rekur víðfeðmt útibúanet sem teygir anga sína til smæstu byggðarlaga um landið þvert og endilangt. Útibúin veita ekki bara þjónustu á landsbyggðinni. Atvinnutækifærin sem bankarnir veita skjóta líka stoðum undir búsetu í byggðum sem eiga undir högg að sækja. Mikil umræða er um grisjun útibúaneta, og sameiningu banka. Mun ódýrara er að þjónusta viðskiptavini í gegnum Netið en frá útibúi. Kristján var beðinn um mat á áhrifum netvæðingar bankaviðskiptanna á bankakerfið í heild í ljósi þessarar umræðu.

Hann ítrekaði að þótt viljinn til að nýta Netið til bankaviðskipta fari hraðvaxandi gegni útibúin áfram lykilhlutverki. "Við munum hugsanlega sjá útibúin breytast og þróast í framtíðinni. Nýir tímar kalla á nýjar áherslur. Útibúin munu í framtíðinni verða sölustaðir og staðir þar sem fólk fær faglega ráðgjöf fremur en að stunda þar greiðslumiðlun."

Hann segist ekkert geta fullyrt um fækkun útibúa en auðvitað sé verið að hagræða innan bankanna. Útibúum sé ekki lokað en starfseminni breytt og hún aðlöguð breyttum tímum. Fækkun útibúa sé uppi á teningnum en ekki áhersluatriði. Óljóst sé hversu ör þróunin verður. "Við höfum séð það gerast sums staðar að bankaþjónustan fer vel saman við ýmsa aðra þjónustu á smærri stöðum og í þeim efnum eru margir möguleikar á hagræðingu," segir Kristján.

Ekki afskrifa persónuleg tengsl

Frá því netvæðing bankaviðskiptanna hófst hafa afkomutölur bankanna hér á landi farið batnandi ár frá ári án þess að hér skuli fullyrt um samhengið þar á milli.

Um áhrif netvæðingarinnar á rekstrarkostnað bankans segir Kristján:"Það segir sig sjálft að þegar fram í sækir er arðbært að beina stórum hluta viðskiptanna í gegnum netbanka. Að sama skapi getum við ekki afskrifað þessi persónulegu tengsl sem eru þáttur í afgreiðslu útibúanna. Ennþá vill fólk tala við fólk," segir Kristján.

Hann vill engar tölur nefna um áhrif netvæðingarinnar á rekstrarkostnaðinn og samanburð á kostnaði við hverja færslu í útibúi og yfir Netið enda segi það sig sjálft að netvæðingin kalli á miklar fjárfestingar í upplýsingatækni og slíkar fjárfestingar séu veigamikill þáttur í fjárfestingum bankans í dag.