Davíð Oddsson forsætisráðherra tekur í hönd Ólafs F. Magnússonar, talsmanns Umhverfisvina. Fyrir aftan þá standa Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra. Lengst til hægri stendur Kristín Halldórsdóttir, einn af fors
Davíð Oddsson forsætisráðherra tekur í hönd Ólafs F. Magnússonar, talsmanns Umhverfisvina. Fyrir aftan þá standa Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra. Lengst til hægri stendur Kristín Halldórsdóttir, einn af fors
FORSVARSMENN Umhverfisvina, óformlegra samtaka sem staðið hafa fyrir söfnun undirskrifta til stuðnings kröfunni um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, afhentu forsætisráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra...

FORSVARSMENN Umhverfisvina, óformlegra samtaka sem staðið hafa fyrir söfnun undirskrifta til stuðnings kröfunni um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar, afhentu forsætisráðherra, umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra afrakstur söfnunarinnar, undirskriftir 45.386 Íslendinga, í Alþingishúsinu í gær. Ólafur F. Magnússon, talsmaður Umhverfisvina, segist ánægður með söfnunina og fullyrðir að hún komi til með að auka þrýsting á Norðmenn um að fram fari lögformlegt umhverfismat en Davíð Oddsson forsætisráðherra bendir á að þegar hafi farið fram lýðræðisleg umræða um málið á Alþingi þar sem niðurstaðan hefði orðið sú að framkvæmdum yrði fram haldið.

"Umhverfisvinir afhenda nú þessar undirskriftir til marks um vilja mikils hluta þjóðarinnar um að lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð verði höfð í heiðri við ákvörðun um framkvæmdir, sem hafa stórfelld áhrif á umhverfið," sagði Ólafur F. Magnússon m.a. við afhendinguna í gær. Benti hann á að náttúra Íslands væri auðlind, sem umgangast yrði með varfærni og virðingu og að stórfelld röskun af völdum virkjunarframkvæmda yrði ekki aftur tekin. "Það er algjör lágmarkskrafa að slíkar framkvæmdir séu undirbúnar á besta hugsanlegan máta." Kvað hann Umhverfisvini skora á stjórnvöld að virða þennan vilja og treysta því, að viðtakendur undirskriftanna sjái til þess, að þær verði varðveittar á öruggan hátt til vitnis um lýðræðislega aðgerð almennings í mikilvægu máli, sem varðaði komandi kynslóðir á Íslandi.

Davíð Oddsson forsætisráðherra þakkaði við afhendinguna Umhverfisvinum fyrir þann mikla áhuga sem þeir sýndu málinu en benti jafnframt á að miklar þinglegar umræður hefðu orðið um málið á Alþingi fyrir jól er rædd var þingsályktunartillaga Finns Ingólfssonar, þáverandi iðnaðarráðherra, um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Niðurstaða þeirrar umræðu hefði orðið sú að "aukinn meirihluti hefði ákveðið að halda framkvæmdunum til streitu."

Forsætisráðherra tók einnig fram að umtalsverðar umhverfisrannsóknir hefðu farið fram á fyrirhuguðu virkjanasvæði og sagði sömuleiðis ekki ljóst hve margir þeirra er ritað hefðu nafn sitt á undirskriftarlistana myndu styðja framkvæmdirnar ef farið yrði í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum. Sagði hann að lokum sjálfsagt að taka það fram að undirskriftunum yrði komið vel fyrir.

Ákveðið form andófs

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra tók undir orð forsætisráðherra og benti á að með undirskriftunum væri fólk ekki að mótmæla framkvæmdunum sem slíkum heldur því að ekki skyldi farið með þær í lögformlegt umhverfismat. "Undirskriftirnar segja okkur ekkert um það hvort fólk sé með eða á móti framkvæmdunum sem slíkum," sagði hún. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra tók síðust ráðherranna til máls og sagð það gleðilegt hve margir sýndu umhverfismálum mikinn áhuga en benti á eins og forsætisráðherra að á umræddu svæði hefðu þegar farið fram umtalsverðar umhverfisrannsóknir.

Samtökin Umhverfisvinir voru stofnuð í nóvember sl. og hafa síðan unnið að söfnun umræddra undirskrifta, en undirskriftalistar hafa m.a. legið í verslunum víða um land en einnig hefur verið hægt að skrá sig á listana í gegnum Netið og í gegnum síma. Spurður um áhrif þessara undirskrifta segir Sveinn Aðalsteinsson, einn talsmanna Umhverfisvina, að þótt stjórnvöld myndu ekki fara í lögformlegt umhverfismat vegna þeirra þá væri með undirskriftunum verið að sýna ákveðið form andófs. Ólafur F. Magnússon segir hins vegar alveg ljóst að undirskriftirnar muni hafi áhrif á ráðamenn þjóðarinnar til lengri tíma litið. "Lýðræðissinnar eins og þeir hljóta að fara að efast um réttmæti umræddra aðgerða þegar þeir sjá undirskriftir sem þessar," segir hann. "Þá er það ekkert launungarmál að þetta skapar einnig þrýsting hjá gagnaðilunum sem eru Norðmenn," bætir hann við. Hann segir að flestar undirskriftirnar hafi safnast á fimm vikna tímabili frá miðjum nóvember sl. og fullyrðir að svo stór söfnun á svo stuttum tíma hafi aldrei fyrr átt sér stað hér á landi.