Ungur drengur bíður eftir mat við hjálparmiðstöð í hverfinu Staropromíshlovskí.
Ungur drengur bíður eftir mat við hjálparmiðstöð í hverfinu Staropromíshlovskí.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
GROSNÍ, höfuðborg Tsjetsjníu, hefur nánast algjörlega verið lögð í rúst; hún er óbyggileg, jafnvel eymdarstaður fyrir hungraða villihunda sem rífa í sig líkin sem liggja enn í húsarústunum.

GROSNÍ, höfuðborg Tsjetsjníu, hefur nánast algjörlega verið lögð í rúst; hún er óbyggileg, jafnvel eymdarstaður fyrir hungraða villihunda sem rífa í sig líkin sem liggja enn í húsarústunum.

"Hundarnir éta líkin," hefur breska blaðakonan Janine di Giovanni eftir Hussein, tsjetsjneskum sjálfboðaliða sem hefur tekið að sér að grafa lík í borginni.

400.000 manns bjuggu í Grosní áður en árásirnar hófust en hún er nú orðin að draugaborg eftir látlaust sprengjuregn í fjóra mánuði, hörðustu sprengjuárásir í Rússlandi frá síðari heimsstyrjöldinni.

Fréttamenn í borginni segja að erfitt sé að finna byggingu sem ekki hafi verið stórskemmd eða lögð algjörlega í rúst. Þeir fáu sem dvelja enn í borginni hírast í kjöllurum, án rennandi vatns, rafmagns, húshitunar og símasambands.

Pýrrhosarsigur?

Breski blaðamaðurinn Mark Franchetti segist ekki hafa séð eina einustu óskemmda byggingu í fjögurra klukkustunda ökuferð frá útjaðri Grosní til miðborgarinnar. Fögnuður Rússa eftir að þeir náðu borginni á sitt vald virðist innantómur í ljósi eyðileggingarinnar í borginni. "Tsjetsjneska höfuðborgin er á valdi Rússa, en það er erfitt að sjá hvað þeir geta gert við hana. Líklega þarf að ryðja meginhluta hennar í burtu með jarðýtum. Jafnvel rússneskir herforingjar viðurkenna að miklu erfiðara verði að endurreisa borgina en að hertaka hana."

Franchetti segir ennfremur í grein í The Times að orrustan um Grosní virðist hafa verið algjörlega tilgangslaus, "pýrrhosarsigur sem kostaði þúsundir manna lífið."

Talið er að allt að 40.000 Grosníbúar hafi verið í borginni þar til árásunum lauk þegar þorri skæruliðanna hörfaði úr borginni um síðustu mánaðamót. Nú er talið að þeir hafi verið miklu færri og flestir hafi flúið borgina löngu áður, annaðhvort til þorpa og bæja í Tsjetsjníu eða til nágrannahéraðsins Ingúsetíu.

Þeir sem dvelja enn í borginni, aðallega konur og aldrað fólk, saka rússneska hermenn um að stela öllu steini léttara, skjóta af handahófi inn í kjallara og nema ungar konur á brott.

Mannréttindahreyfingin Human Rights Watch segir að rússnesku hersveitirnar haldi hundruðum saklausra borgara í fangabúðum í Tsjetsjníu þar sem fólkið sæti daglegum pyntingum. Hermennirnir hafi flutt þangað 400 manns frá Grosní einni og algengt sé að konunum sé nauðgað.

Þýski ljósmyndarinn Thomas Dworzak tók þessar myndir þegar hann var í Grosní 12.-15. þessa mánaðar.