Heimskautajeppinn var fyrstur frá rásmarkinu framan við höfuðstöðvar dagblaðsins Gulf News. Í kjölfarið óku meira en 500 jeppar af ýmsum gerðum.
Heimskautajeppinn var fyrstur frá rásmarkinu framan við höfuðstöðvar dagblaðsins Gulf News. Í kjölfarið óku meira en 500 jeppar af ýmsum gerðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskir jöklajeppar hafa gert garðinn frægan á hjarnbreiðum og jöklum Íslands, í Grænlandi, á Suðurskautslandinu og nú síðast í arabískri eyðimörk. Guðni Einarsson ræddi við Frey Jónsson tæknifræðing um ferðalag á heimskautajeppa um sjóðheitar sandöldur arabíska fursta- dæmisins Dubai við Persaflóa.

JÖKLAJEPPAR á belgmiklum hjólbörðum eru gott dæmi um hvers íslenskt hugvit er megnugt. Líklega hefur fáa í hópi jeppakarlanna sem fyrstir breyttu bílum til snjóaksturs órað fyrir því hvert þróunin leiddi. Þessi tækni hefur opnað mönnum leiðir á hálendi og jökla Íslands nær allan ársins hring.

Það vakti mikla athygli víða um heim þegar breyttir Toyotajeppar frá Íslandi brunuðu um Suðurskautslandið og síðan fram og aftur yfir Grænlandsjökul, fyrstir bíla. Útbúnað þessara heimskautajeppa annaðist dótturfyrirtæki Toyota á Íslandi, P. Samúelssonar ehf., sem heitir Arctic Trucks og hefur sérhæft sig í jeppabreytingum.

Í kjölfar fyrrnefndra jeppaferða um nýjar slóðir heimskautalanda barst fjöldi fyrirspurna víða að úr heiminum. Þar á meðal frá umboði Toyota í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Al Futtaim Motors í Dubai. Fyrirtæki þetta er mjög umsvifamikið á mörgum sviðum. Það er stærsti bílainnflytjandi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fyrirtækið er einnig helsti styrktaraðili skemmtiaksturs sem stærsta dagblað furstadæmisins, Gulf News, efnir til á hverju ári. Þá er farið í tveggja daga ferð á torfærubílum um eyðimörkina og náttað í óbyggðum. Samkomulag tókst um að Arctic Trucks sendi heimskautaajeppa til þátttöku í þessum skemmtiakstri í Dubai. Tilgangur ferðarinnar var þó fyrst og fremst að reyna breytta jeppa í eyðimerkurakstri og heitu loftslagi Arabíuskagans. Einnig almennt að kynna þessa tegund bíla, sem eru einstakir á heimsvísu.

Víðförull jeppi

Skemmtiaksturinn, sem nú var haldinn í sextánda sinn, fór fram um helgi að hætti islams, það er fimmtudaginn 27. og föstudaginn 28. janúar síðastliðinn. Fulltrúar Arctic Trucks voru Freyr Jónsson, tæknifræðingur og jöklafari, Emil Grímsson, framkvæmdastjóri P. Samúelssonar ehf. og stjórnarformaður Arctic Trucks, og Eiríkur Magnússon, verkstæðisformaður Arctic Trucks í Noregi.

Eftir að ökuferð íslensku jeppamannanna fram og til baka yfir Grænlandsjökul lauk í Syðri-Straumfirði þann 1. júní síðastliðinn voru jepparnir sendir til Danmerkur. Bíll Arctic Trucks var sýndur í Danmörku og Noregi. Haldnir voru fyrirlestrar um ökuferðina yfir Grænland og vakti bíllinn mikla athygli. P. Samúelsson ehf. stofnaði dótturfyrirtæki í Noregi undir nafni Arctic Trucks sem sérhæfir sig í jeppabreytingum fyrir Norðmenn. Jöklajeppinn var síðan notaður til að kynna nýja fyrirtækið í Noregi. Rétt fyrir jól var bíllinn sendur með skipi til Dubai og er því orðinn með víðförlustu bílum á íslenskum númerum.

"Þegar við komum á flugvöllinn í Dubai beið okkar kona sem leiddi okkur í gegnum tollskoðun, vegabréfaskoðun og annað eftirlit," sagði Freyr. "Við vorum í boði Al Futtaim Motors, en það er erfitt að komast inn í landið nema vera boðið. Það tók litla tvo tíma að komast í gegnum allt eftirlitið." Jehanbaz Ali Khan, fyrrum rallkappi, sérfræðingur í jeppaferðum og skipuleggjandi skemmtiakstursins, tók á móti Íslendingunum. Jehanbaz Ali Khan skipuleggur einnig Desert Challenge-keppnina, en þar hefur Karl Gunnlaugsson tvívegis keppt á mótorhjóli. Annar tengiliður Íslendinganna var Páll Hermannsson, sem stýrir flutningadeild Al Futtaim-viðskiptaveldisins.

Freyr segir að í Dubai sé mikill bílaáhugi og jeppamenning. Verð á bílum er ekki hátt í Dubai, að sögn Freys. Dubaimenn borga einungis 4% innflutningsgjald, engan virðisaukaskatt og svo kostar eldsneytið sama og vatnið, um 20 krónur lítrinn. Það er sagt að vatnið sé niðurgreitt! Algengasti bíllinn á götum þar er Toyota LandCruiser 100, eða "stóri-krúserinn", og því varla að furða að breyttir heimskautajeppar veki athygli.

Um leið og Íslendingarnir komu til Dubai tóku þeir Freyr og Eiríkur til við að breyta Toyota Prado-jeppa fyrir Al Futtaim Motors. Þessi bíll er sá sami og hér er seldur undir heitinu LandCruiser 90, eða "litli-krúserinn". Allt sem þurfti til breytinganna hafði verið sett í skottið á heimskautajeppanum. Sá hafði tafist í flutningum og var ekki kominn til landsins. Því þurfti að senda annað sett af breytingabúnaði með vöruflugi. Bíllinn var hækkaður upp fyrir 33" dekk, yfirbyggingu breytt og settir nýir brettakantar. Jöklajeppinn með breytingahlutunum kom svo daginn fyrir skemmtiaksturinn.

Meira en 500 jeppa lest

Skemmtiaksturinn Gulf News Overnight Fun Drive felst í því að ekin er 300 km leið á tveimur dögum og gist yfir nótt í eyðimörkinni. Að þessu sinni voru skráðir þátttakendur á meira en 500 jeppum og svo fylgdu nokkrir óskráðir í kjölfarið. Freyr sagði þessa ökuferð minna að ýmsu leyti á viðburði á borð við Toyota-daginn hér á landi. Áður en lagt var af stað var öllum ökumönnum afhentur kassi með vatnsflöskum, leiðarlýsingu, matseðlum, öðrum upplýsingum og ýmsu smádóti á borð við penna og veifur. Búið var að stika alla leiðina og setja upp vegskilti. Eins fengu ökumennirnir leiðarvísi líkan þeim sem rallíökumenn nota og staðsetningarpunkta.

Heimskautajeppinn frá Íslandi var hafður fremstur í flokki bílanna sem tóku þátt í skemmtiakstrinum. Leiðin lá um mikil sandflæmi þar sem kyrkingslegur runnagróður og einstaka eyðimerkurtré settu svip á landslagið. Þeir Freyr Jónsson og Jehanbaz Ali Khan skiptust á um að aka bílnum. "Mér hafði verið sagt að færið væri þungt í sandinum og fyllti því eldsneytistankana, 300 lítra," sagði Freyr. "Pólbíllinn flaut svo vel í sandinum og fór svo létt yfir að hann eyddi ekki nema 50 lítrum í allri ferðinni." Hann hleypti lofti úr dekkjunum þar til þrýstingurinn var 8 pund á ferþumlung, það er rétt svo að belgmiklir 44" barðarnir fari að dala við svo lágan þrýsting. Með þessu fékkst mikil akstursmýkt sem kom sér vel á þvottabrettunum sem víða höfðu myndast á eyðimerkurslóðanum.

"Jehanbaz þótti ótrúlegt að finna ekkert fyrir þvottabrettunum í stað þess að hristast eins og þeir eru vanir í bílum á minni dekkjum," sagði Freyr.

Skriðgír í sandöldum

Þótt hávetur væri var vel heitt í Dubai. Þegar leið á daginn steig hitinn í 33ºC. Sem vænta má er heimskautajeppinn ekki búinn loftkælingu, enda þarf yfirleitt ekki að hafa áhyggjur af háum lofthita á þeim slóðum sem hann ekur um. Nú þurfti að aka með alla glugga opna svo það væri líft í bílnum. Fersku loftinu fylgdi fíngerður sandur. "Sandurinn smaug um allt. Eftir þennan tveggja daga bíltúr í eyðimörkinni, án þess að komast í sturtu, fannst mér ég skítugri en eftir tvær vikur án baðs á Grænlandsjökli," sagði Freyr.

Þegar heimskautajeppinn kom í náttstað fréttist að margir hefðu lent í erfiðleikum á einni sandöldunni. Jepparnir voru yfirleitt á þeim dekkjum sem fylgdu frá verksmiðjunum. Þeir sukku því auðveldlega þar sem foksandur hafði myndað sandöldur. Þarna hagaði svo til að bílarnir þurftu að vera á töluverðri ferð til að komast upp ölduna, um leið og einn stoppaði stöðvaðist runan fyrir aftan og sökk í sandinn. Heimskautajeppinn sneri við til aðstoðar. "Þegar við komum á ölduna voru margir bílar fastir og drógum við 22 jeppa úr festunni," sagði Freyr. Drengur sem fékk far með póljeppanum hélt bókhald yfir björgunina. Heimskautajeppinn flaut svo vel á stórum dekkjunum að hann gat ekið fram og aftur í sandinum án þess að sökkva nokkru sinni.

Í heimskautajeppanum er skriðgír, íslensk uppfinning. Með þessum aukagír verður niðurgírun helmingi meiri en ella og hægt að fara löturhægt. "Það kom mér á óvart hvað skriðgírinn kom vel út. Þegar við ókum upp lausar sandbrekkur í skriðgírnum mokaði bíllinn lausa sandinum undir dekkin og þjappaði honum aftan við. Ef notað var hærra gírstig vildi bíllinn grafa sig niður," sagði Freyr. Heimskautajeppinn er búinn mismunadrifslæsingum á báðum hjólöxlum. Það kemur sér vel í snjóakstri, þar sem ekki má spóla, að geta læst á milli hjóla. Þetta virtist ekki skipta eins miklu í sandinum, að sögn Freys. "Það virðist vera miklu jafnari mótstaða í sandinum en snjónum, svo læsingar skiptu ekki sköpum."

Sofið í kulda og trekki

Þegar allir voru komnir í náttstað var slegið upp mikilli veislu. Allar hugsanlegar kræsingar voru á borðum og ekkert til sparað. Þó var þetta vínlaus veisla eins og við var að búast undir merkjum islam. Íslendingarnir völdu sér ólíka náttstaði. Emil svaf í tjaldi, Eiríkur í bílnum en Freyr breiddi þunna dýnu á sandinn og lagðist þar til svefns í þunnum flíssvefnpoka. Þegar leið á nóttina kólnaði og fór að blása. Á endanum var Freyr búinn að breiða yfir sig úlpu og önnur tiltæk föt, enda ekki mikið klæddur.

"Ég svaf ágætlega, þótt ég svæfi ekki einn! Þegar ég vaknaði um morguninn sá ég af förum í sandinum að það höfðu einhver kvikindi komið í heimsókn um nóttina. Sporin lágu að pokanum og frá honum aftur. Ég hafði séð lítinn sporðdreka um kvöldið og þarna eru líka litlar eðlur og snákar. Þó voru þetta ekki snákaför."

Freyr segir að sér hafi komið á óvart hvað það gat orðið napurt í eyðimörkinni og eins að rétt fyrir sólarupprás kom áfall og morgunsólin speglaðist í daggarperlunum. Döggin var þó fljót að gufa upp um leið og sólin sýndi sig.

Ökumennirnir óku fram á bedúína sem eiga heima í eyðimörkinni. Þeir rækta úlfalda og búa í heldur hrörlegum bústöðum, að því er Íslendingunum þótti. Snjósprungugrindin hafði ekki verið tekin af heimskautajeppanum, þótt litlar líkur væru á jökulsprungum á þessum slóðum. "Okkur þótti betra að hafa grindina uppi, ef svo slysalega vildi til að við ækjum á úlfalda. Þessar skepnur eru svo háfættar að þær hefðu komið beint inn um framrúðuna," sagði Freyr. "Þarna eru líka villtir asnar. Bedúínarnir höfðu asna til að sækja vatn í vinjarnar, allt þar til farið var að flytja Toyota-pallbíla til Dubai. Þá slepptu þeir ösnunum lausum og fengu sér pikkuppa í vatnsflutninginn!"

Allir heilir í höfn

Seinni daginn var ekin lengri leið og endað á hóteli þar sem stjórnstöð ferðarinnar var til húsa. Þar var aftur haldin veisla til að fagna ferðarlokum, enda gekk allt að óskum með smá ævintýrum.

Freyr segir að heimskautajeppinn hafi vakið mikla athygli. "Það komu margir að skoða bílinn. Sá eini sem ekki kynnti sig með nafni lýsti miklum áhuga á að eignast bíl á svona stórum dekkjum. Mér var sagt að hann væri náskyldur furstanum," sagði Freyr. Hann hefur einnig fengið fréttir af því að bíllinn sem Íslendingarnir breyttu fyrir Al Futtaim Motors hafi reynst mjög vel. Eftir er að sjá hvernig búnaðurinn reynist í sumarhitunum, þegar hitinn stígur yfir 50ºC á daginn. Ef bíllinn reynist jafn vel og til er ætlast og kaupendur sýna áhuga munu Arctic Trucks og Al Futtaim Motors væntanlega vinna í sameiningu að jeppabreytingunum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.