[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HEKLA, sem nefnd hefur verið drottning eldfjallanna, hefur gosið nánast á hverri öld frá 12. öld og eru gosin orðin 18 frá upphafi byggðar í landinu. Flest gosin hafa orðið 5 á 20. Á 14.

HEKLA, sem nefnd hefur verið drottning eldfjallanna, hefur gosið nánast á hverri öld frá 12. öld og eru gosin orðin 18 frá upphafi byggðar í landinu. Flest gosin hafa orðið 5 á 20. Á 14. öld gaus Hekla þrisvar sinnum, en spúði ösku og eimyrju einum til tvisvar sinnum á öðrum öldum, nema hvað engin gos urðu í Heklu á 15 öld.

Síðustu gos hafa verið tíð og staðið fremur stutt, og virðist sem Hekla sé nú að ganga í gegnum tímabil tíðra smágosa.

Í gegnum tíðina hafa stórgos úr Heklu valdið miklum búsifjum og fólki staðið ógn af drottningunni. Í fyrstu frásögnum af Heklu þegar á 12. öld sést að menn fóru strax að tengja hana Víti og heimfærðu þannig skoðanir kirkjunnar á eldvirkninni í Etnu upp á hana.

Upphafið að frægð Heklu um veröldina

Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám varð árið 1104. Gosið þótti tíðindum sæta utan landsteinanna og er Hekla t.d er nefnd í erlendu munkakvæði frá því um 1120. Það var upphafið að frægð Heklu víða um heim.

Rannsóknir á öskulögum sýna að þetta Heklugos var jafnframt mesta gjóskugos hennar á sögulegum tíma og er raunar með mestu gjóskugosum sem orðið hafa á landinu frá landnámi. Ekki er vitað til að hraun hafi runnið í gosinu, en gjóskan barst til norðurs og í byggðum varð hún þykkust í Skagafirði.

Margir annálar nefna gos í Heklu 1157 eða 1158. Öskufall var að líkindum fremur lítið og barst askan aðallega til suðurs í byrjun. Ekki er vitað til þess að þetta annað gos í Heklu hafi valdið tjóni.

Í tveimur biskupasögum er getið um gos í Heklu árið 1206. Þrátt fyrir stuttaralegar frásagnir virðist þetta hafa verið allmikið hraungos og líkur á að Efrahvolshraun hafi þá runnið. Öskufall virðist þó hafa verið fremur lítið og ólíklegt að nokkurt tjón hafi af því hlotist.

Árið 1222 gaus Hekla aftur, aðeins 16 árum frá síðasta gosi. Heimildir eru afar orðafáar um gosið og í besta falli er því bætt við að þetta sé fjórða gosið í Heklu. Ekkert hraun er með vissu þekkt frá þessu gosi og öskulagið er lítt áberandi í jarðvegssniðum. Þetta mun hafa verið smágos sem hvarf að mestu í skugga stórbrotnari tíðinda á Sturlungaöld.

Mannskæðasta gosið árið 1300

Hekla gerði vart við sig í fimmta sinn í júlí árið 1300 með kröftugu gjóskugosi og fylgdi því mikið hraunrennsli. Öskufall gerði mikinn usla í Skagafirði og Fljótum, þar sem ekki færri en 500 manns dóu veturinn eftir. Enda féll askan á versta tíma í sláttubyrjun.

Líklegt er talið að Suðurhraun hafi runnið í þessu gosi, en ekkert hraun frá sögulegum tíma hefur náð að renna jafn langt frá háfjallinu. Skálholtsannáll segir að gosið í Heklu hafi varað í nær 12 mánuði.

Öskufall samfara upphafshrinunni var þó mesti skaðvaldurinn í þessu Heklugosi og árið 1301 varð hallæri í landinu. Árferði var einnig fremur óhagstætt í kringum 1300 og fyrir vikið kann fólk að hafa staðið höllum fæti og þolað illa viðbótaráföll.

Ef rekja má manntjónið árið 1301 beint eða óbeint til gossins hefur það líklega verið mannskæðast allra Heklugosa.

Annað stórgos á 14. öld

Aftur hófst stórgos í Heklu 19. maí árið 1341 og olli miklu tjóni og hallæri. Annálum ber saman um að skepnur hafi fallið í stórum stíl vegna öskufallsins. Gosið hófst í vorgróandanum þegar búpeningur var að byrja að bjarga sér með beit, oghey að mestu upp urin. Askan hefur ýmist tekið fyrir beitina eða valdið flúoreitrun svo fénaður drapst unnvörpum úr gaddi.

Öskufallið varð vafalítið nánast allt fyrstu gosdagana, en gosið sjálft líklega varað langt fram eftir sumri. Þau hraun sem upp komu eru líkast til horfin undir yngri gosmyndanir að mestu.

Kyrrð í 120 ár

Síðla árs 1389 gaus Hekla í sjöunda sinn. Öskufall var talsvert og bar öskuna að líkindum aðallega til suðausturs. Öskulagarannsóknir Sigurðar Þórarinssonar hafa leitt í ljós að Norðurhraun rann í þessu gosi. Það er komið upp í gíg sem nefnist Rauðöldur og er neðarlega í norðvesturhlíðum Heklu. Tveir bæir eyddust í gosinu og hugsanlega sá þriðji.

Eftir gosið 1389-90 var kyrrð yfir Heklu í 120 ár, en það er lengsta goshlé sem orðið hefur í fjallinu frá 1104. Gos hófst síðan í Heklu í júlí árið 1510, stórgos sem olli miklum skaða um Suðurland Vindur stóð af norðaustri og askan barst yfir Rangárvelli og Landeyjar, en einnig yfir Landsveit og Holt og allt vestur í Flóa. Í jarðvegi á Suðurlandi er þetta öskulag langþykkasta og grófasta Heklulagið frá sögulegum tíma. Það er tiltölulega auðþekkjanlegt, víðast dökkbrúnt að lit.

Stórgos í Heklu 1693

Níunda Heklugosið hófst að kvöldi 3. janúar 1597 og stóð í að minnsta kosti hálft ár. Þetta gos var mjög áþekkt gosinu árið 1947. Öskufall var fremur lítið og barst til ýmissa átta, mest til suðausturs yfir Mýrdal.

Árið 1636 hófst gos í Heklu hinn 8. maí að kvöldi dags eftir sólsetur. Í heimildum segir að íbúar í nágrenni Heklu hafi orðið óttaslegnir og yfirgefið nokkra nálæga bæi, og að nautgripir hafi ekki snert við sýktu grasinu vegna remmu og óhollustu.

Ekki hafa bæirnir verið yfirgefnirnema um stundarsakir, því að ekki er hægt að sjá að neinir bæir hafi farið í eyði. Öskulagarannsóknir sýna að öskufall hefur ekki verið mikið, en ekkert er vitað um hraun.

Stórgos hófst í Heklu 13. febrúar 1693 og stóð fram á haust, en sumar heimildir telja að það hafi haldist út árið. Öskufall varð mikið í upphafshrinu gossins og askan barst til norðvesturs yfir Þjórsárdal og Biskupstungur og norður um Húnaþing og norðanverða Vestfirði.

Um 55 jarðir spilltust, átta jarðir lögðust í eyði um lengri eða skemmri tíma og ein þeirra, Sandártunga í Þjórsárdal, byggðist aldrei framar. Fiskur drapst í ám og vötnum þar sem askan féll og rjúpur og fleiri fuglar dóu í hrönnum. Búpeningur sýktist af gaddi en skepnufellir varð þó ekki mikill.

Lengsta Heklugos frá upphafi

Aðfaranótt 5. apríl 1766 hófst lengsta Heklugos frá upphafi. Það stóð fram í maí 1768, en lá þó niðri um nær hálfs árs skeið frá ágústlokum 1767 og fram í mars 1768. Öskufall var mikið og hraunrennsli mun meira en í nokkru öðru Heklugosi á sögulegum tíma. Er þetta mesta hraungos á Íslandi síðan sögur hófust, að Skaftáreldum undanskildum. Flatarmál hraunsins er talið vera um 65 ferkílómetrar en rúmmálið um 1,3 rúmkílómetrar.

Að vanda var fyrsta goshrinan kröftug og meirihluti gosöskunnar féll á fyrstu 5-6 tímunum. Talsvert tjón varð á Landi og í Hreppum, en þó mun minna en 1693 þar sem vindur var vestanstæðari. Á Norðurlandi féll hins vegar mikil aska og mest um Húnaþing og vestanverðan Skagafjörð. Þar hrundi búpeningur svo að við auðn lá í sumum sveitum.

Að morgni 2. september 1845 hófst þrettánda gosið í Heklu. Upphafshrina gossins stóð í um 4 tíma og askan barst til austurs og varð þykkust í byggð á Síðu. Er leið á daginn dró úr þeytigosinu og menn urðu varir við hraunrennsli.

Fólk flýði með kýr sínar frá Selslundi og Næfurholti en sneri aftur eftir fyrstu gosdagana. Tjón varð ekki mikið en þó olli flúoreitrun og gaddur nokkrum skepnufelli og drápust bæði kýr og kindur. Gosið stóð samfellt fram í apríl 1846 en lá svo niðri fram í miðjan ágúst er umbrotunum lauk endanlega með smáöskugosi.

Gos í Heklu árið 1947 eftir rúmt aldarhlé

Laugardagsmorguninn 29. mars 1947 hófst fjórtánda gosið í Heklu. Það byrjaði fyrirvaralítið en kom fáum beinlínis á óvart. Þá voru liðin 102 ár frá síðasta gosi, sem er óvenju langt hlé hjá elddrottningunni.

Gosið braust upp úr hátindinum um kl. 6.40, en 10 mínútum síðar varð snarpur jarðskjálftakippur þegar fjögurra metra löng gjá opnaðist eftir fjallshryggnum endilöngum.

Ofsinn var mestur í gosinu fyrstu klukkutímana og um kl. 7 hafði mökkurinn náð um 30 km hæð.

Í Morgunblaðinu daginn eftir er sagt að dunur og dynkir hafi þá heyrst um allt land, allt til Vestfjarða og norður til Grímseyjar. Vindur stóð af norðri svo að öskufall í byggð varð mest um ofanverða Rangárvelli, í Fljótshlíð og undir Eyjafjöllum. Blaðið segir að um kvöldið hafi allar þakrennur í Vestmannaeyjum fyllst af ösku og gjósku.

Fíngert öskuryk barst með háloftavindum austur yfir Atlantshaf og féll m.a. í Helsingfors í Finnlandi á þriðja degi gossins. Talið er að fyrstu 30 mínútur gossins hafi um 75 þúsund rúmmetrar af gjósku ruðst upp úr Heklugjá, sem samsvarar um 200-földu rennsli Þjórsár. Hraun flæddi úr endilangri eldgjánni fyrsta gosdaginn og huldi stór svæði. Þeytigosið stóð allt sumarið og lauk í september.

Annan nóvember um haustið varð það hörmulega slys að jarðvísindamaðurinn Steinþór Sigurðsson, sem var við rannsóknir, fékk á sig stein sem kastaðist úr hraunjaðrinum og lést hann samstundis.

Gosið hélt áfram í 13 mánuði, en lauk seint í apríl 1948. Ný hraun þöktu þá 48 ferkm en lengsti hraunstraumurinn varð 8 km langur.

Öskufall í gosinu olli nokkru tjóni. Ellefu jarðir voru innan þess svæðis þar sem öskulagið náði 5 sentímetra þykkt eða meir og talið var að þær myndu allar leggjast í eyði, en byggð lagðist á endanum af á tveimur bæjum.

Um miðjan apríl 1948 tóku menn eftir að neysluvatn sem sótt var í Næfurholtslæk var orðið, sápa freyddi ekki í því og hvít skán settist innan í ílát. Síðar um vorið tók að bera á kolsýruútstreymi úr hrauninu við Loddavötn, sem varð a.m.k. 15 sauðkindum að bana.

Gos verða styttri og tíðari í Heklu

Gosið sem hófst 5. maí árið 1970 kom mönnum í opna skjöldu. Það gerði lítil sem engin boð á undan sér og liðu aðeins 22 ár frá síðasta gosi.Klukkan 21.23 sást að gos var hafið í sprungum sem opnuðust nær samtímis í suðsuðvestur- og vesturhlíðum fjallsins. Rúmum klukktíma síðar hófst gos í Skjólkvíum, norðnorðvestan í Heklu, í 7 km fjarlægð frá hinum eldstöðvunum, en gosið stóð í rétta tvo mánuði. Öskufall var lítið og varð einkum vart í Húnaþingi. Á hinn bóginn varð nokkur flúoreitrun svo að skera varð sauðfé í þúsundatali.

Þetta gos var óvenjulegt að því leyti að Heklugjá sjálf opnaðist ekki, heldur einungis gossprungur til hliðar við hana.

Rétt fyrir klukkan hálftvö hinn 17. ágúst árið 1980 heyrðust miklar drunur frá Heklutindi og í sama bili reis dökkur gosmökkur af fjallinu, öskubólstrar og vatnsflóð geystust einnig niður hlíðarnar og hraunrennsli hófst. Skömmu síðar var gosið í algleymingi og þá sáust eldar á endilöngum fjallshryggnum. Gjóskan barst yfir Mið-Norðurland og olli lasleika í kúm en litlu tjóni. Á afréttum norðan Heklu var fé smalað í skyndi og það rekið heim.

Þótt eldurinn kæmi upp með allmiklum ákafa stóð gosið stutt og 20. ágúst taldist hrinunni lokið. Gosvirknin var þó ekki afstaðin með öllu. Aðfaranótt 9. apríl 1981 varð vart við öskufall í Búrfelli og hraunstraumar komu niður beggja vegna Litlu. Öskufalls varð vart en 16. apríllauk þessu tvískipta gosi.

Tvö met féllu í gosinu árið 1991

Að vanda hafði Hekla lítinn fyrirvara 17. janúar 1991 á umbrotum sínum, en mælitæki merktu smáskjálfta síðasta hálftímann fyrir gos. Suðvesturhluti Heklugjár gaus en að auki opnuðustu eldrásir á nokkrum stöðum í hlíðunum. Mökkurinn steig hratt upp og svartur öskugeiri teygði sig yfir Hofsjökul og hvítar fannbreiður hálendisins. Snjó grámaði í inndölum Eyjafjarðar og öskufallið teygði sig allt noður á Melrakkasléttu.

Strax daginn eftir var mjög tekið að draga úr gosinu og á næstu dögum einangraðist eldvirknin við einn gíg neðarlega í hlíðinni austan Toppgígs. Þar gaus fram til 11. mars og hraun rann hæglátlega til suðvesturs milli Heklu og Vatnafjalla.

Með gosinu féllu tvö met í sögunni. Hléið frá lokum næsta goss á undan var tæp níu ár, það skemmsta sem heimildir kunna að nefna. Samkvæmt því var þetta eitt smæsta gosið í Heklu og helst sambærilegt við eldana 1980 og 1222.

Með þessu gosi var undirstrikað að Hekla hafði breytt um hátt og virðist nú ganga í gegnum tímabil tíðra smágosa. Gosið 26. febrúar árið 2000 styður þá kenningu.

Í samantekt þessari var stuðst við Árbók Ferðafélags Íslands árið 1995, Á Hekluslóðum, eftir Árna Hjartarson, Íslandselda eftir Ara Trausta Guðmundsson, Hekluelda eftir Sigurð Þórarinsson jarðfræðing, og frásagnir í Morgunblaðinu.