ÞEIR, SEMhlustuðu á kvöldfréttir Ríkisútvarpsins kl. 18 sl. laugardag, ráku upp stór augu, þegar þulurinn tilkynnti, að Almannavarnir hefðu sent frá sér viðvörun um yfirvofandi eldgos í Heklu.

ÞEIR, SEMhlustuðu á kvöldfréttir Ríkisútvarpsins kl. 18 sl. laugardag, ráku upp stór augu, þegar þulurinn tilkynnti, að Almannavarnir hefðu sent frá sér viðvörun um yfirvofandi eldgos í Heklu. Síðan tilkynnti þulurinn, að eldgosið myndi hefjast eftir fimmtán mínútur. Þegar til kastanna kom stóðst þessi yfirlýsing. Eldgosið í Heklu hófst um fimmtán mínútum eftir að yfirlýsingin í útvarpinu var lesin upp.

Hlustendur rak í rogastans við þessa frétt, en enn meiri varð undrunin þegar hún gekk eftir. Augljóst er af gangi mála, hversu mikilvægt öryggishlutverk Ríkisútvarpsins er í slíkum tilfellum. Viðvörun vísindamanna til Almannavarna barst tafarlaust til útvarpsins og þar með til hlustenda þess. Vegna eðlis eldgossins var ekki hætta á ferðum að þessu sinni, en viðvörunin barst samstundis út og síðan mátti fylgjast gjörla með þróuninni í útvarpinu. Það er mikilvægt á slíkum stundum.

Gosið nú er tiltölulega lítið og tjón virðist verða lítið af þess völdum. Eftir stendur hins vegar sá merki atburður, að íslenzkir vísindamenn geta nú séð eldgos fyrir með nokkrum fyrirvara. Hafi þeir til þess nauðsynleg tæki eins og t.d. skjálftamæla og þeir séu rétt staðsettir. Það sama á við aðrar náttúruhamfarir eins og jarðskjálfta og jökulhlaup. Tækniþróun gefur vonir um, að í framtíðinni verði unnt að segja fyrir um slíkar náttúruhamfarir með lengri og lengri fyrirvara. Í landi elds og íss geta þessar framfarir skilið milli lífs og dauða. Ekkert má til spara, að íslenzkir vísindamenn fái í hendur nauðsynlega tækni til að vera í fararbroddi á þessu sviði, því svo mikið er í húfi.

OLÍULEIT Á ROCKALL-SV ÆÐINU

ÍSLENDINGAR hafa nú á ný sett fram óskir við brezk stjórnvöld þess efnis að viðræður um réttindi okkar á Hatton-Rockall-svæðinu verði teknar upp en þær hafa legið niðri í nokkur ár. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra átti viðræður við Robin Cook utanríkisráðherra Breta síðastliðinn föstudag og hafði þá frumkvæði að því að ræða þetta mál. Ráðherrarnir urðu þar ásáttir um að viðræðurnar hæfust á nýjan leik.

Augljóst er, hvers vegna utanríkisráðherra tekur málið upp nú. Bandarískt olíufélag hefur lýst áhuga á að leita að olíu á hafsbotni í námunda við Ísland. Fram hefur komið, að fyrirtækið hefur ekki sízt áhuga á Hatton-Rockall-svæðinu, sem við Íslendingar höfum gert tilkall til í viðræðum við Færeyinga, Breta og Íra.

Talið er að á Hatton-Rockall-svæðinu geti verið gas og olía. Olíuleit við Færeyjar styður þá skoðun. Á árinu 1976 lagði Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður fram tillögur, með tilvísun til ákvæða í Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, þess efnis, að Íslendingar gerðu kröfu til réttinda á þessu svæði. Kröfugerð íslenzkra stjórnvalda hefur byggzt á þeim málatilbúnaði Eyjólfs Konráðs. Á grundvelli hans hafa íslenzk stjórnvöld krafizt réttinda á víðáttumiklu svæði á landgrunninu, sem nær allt suður undir fimmtugasta breiddarbaug. Ytri mörk landgrunnsins voru skilgreind í reglugerð, sem Geir Hallgrímsson þáverandi utanríkisráðherra gaf út árið 1985. Tveimur árum áður hafði Alþingi samþykkt þingsályktunartillögu Eyjólfs Konráðs um að leita skyldi samkomulags við Færeyjar, Bretland og Írland um yfirráð á Hatton-Rockall-svæðinu.

Krafa Íslands er byggð á hafréttarsamningnum, m.a. á ákvæðum um "eðlilega framlengingu" landsvæðis strandríkis að ytri mörkum landgrunnsins. Kröfugerð Íslands byggist á því að fundnar séu rætur landgrunnshlíðarinnar og dregin lína 60 sjómílur þar fyrir utan, eins og hafréttarsamningurinn heimilar.

Í reglugerðinni frá 1985 er kveðið á um að leita beri samkomulags milli Íslands og annarra hlutaðeigandi ríkja um endanlega afmörkun landgrunnsins í samræmi við almennar reglur þjóðréttar. Tvíhliða viðræður hafa farið fram á undanförnum árum við Írland, Bretland og Danmörku fyrir hönd Færeyja.

Það hefði mátt vinna af meiri festu að framgangi þessa máls. Á síðustu mánuðum og misserum hefur hins vegar tvennt gerzt sem undirstrikar mikilvægi þessa svæðis fyrir okkur Íslendinga og þá jafnframt framsýni flutningsmanns tillögunnar. Í fyrsta lagi hafa íslenzk fiskiskip leitað fyrir sér um veiðar á þessu svæði og í öðru lagi leita nú erlend olíufélög eftir samningum við okkur um olíuleit á svæðinu á grundvelli þess, að við höfum gert tilkall til réttinda þar. Þarna kunna að vera mikil verðmæti í hafsbotninum og því nauðsynlegt að reka á eftir málinu, svo lengi sem það hefur verið látið liggja í láginni, enda brátt liðinn aldarfjórðungur frá því er Eyjólfur Konráð Jónsson fyrst hreyfði því.