SAGA félagslegra íbúðabygginga á Íslandi er ekki orðin löng í árum talið, frekar en saga þéttbýlis og bæjarlífs hér á landi yfirleitt.
Sé sjónaukanum á hinn bóginn beint austur um haf, er ljóst að í fjölmörgum löndum Norðurálfu hefur frá miðöldum orðið mikil og merkileg þróun á sviði íbúðabygginga og húsagerðarlistar, sem með réttu má líta á sem upphaf félagslegra íbúðabygginga í Evrópu á 20. öld.
Raunar má fara allt aftur í gráa forneskju og finna þar mörg dæmi um skipulega byggingarstarfsemi valdhafanna fyrir sinn vinnulýð; fyrir um fjögur þúsund árum var mikla miðstöð kornræktar að finna í bænum Harappa í Indusdal þar sem reist hafði verið heilt hverfi verkamannabústaða. Enn eldra dæmi um slíkar byggingar er t.d. að finna frá byggingu Keóps-pýramídans í Egyptalandi fyrir 4650 árum.
Félagslegt framtak á miðöldum
Með vaxandi velmegun Evrópubúa á síðmiðöldum og eftir að Norðurálfumenn höfðu kynnst arabískri hámenningu á krossferðatímanum fer talsvert að bera á byggingu húsnæðis með velferðarinntaki af hálfu veraldlegra afla, áður hafði kaþólska kirkjan verið ein um hituna hvað ýmiss konar fátækrahjálp og velferðaraðgerðir snerti.Eitt fyrsta og merkasta dæmið sem nefnt er til þessarar sögu er Casa della Marinarezza, sem var hluti af "félagsíbúðakerfi" síns tíma, sem enn þann dag í dag má finna leifar af í Feneyjum. Fyrir landafundina miklu var feneyska borgríkið geysiauðugt og veldi þess teygðist um allt austanvert Miðjarðarhaf. Veldi Feneyinga byggðist á öflugum flota, sem vitanlega kallaði á öflugar skipasmíðar. Talið er, að allt að 40.000 verkamenn hafi starfað í skipasmíðastöðvum feneyska lýðveldisins. Allstórum hluta verkamannanna var tryggt ódýrt húsnæði, sem stjórnvöld borgríkisins létu reisa. Sjómenn sem komnir voru á eftirlaun eftir að hafa þjónað dyggilega í flota borgríkisins áttu einnig rétt á að búa í "félagslegum íbúðum" borgarinnar.
Leiddar hafa verið getur að því að fyrirmynd Feneyinga að þessu fyrsta félagsíbúðkerfi í Evrópu hafi að einhverju leyti verið sóttar til hins íslamska heims - sem þeir þekktu náið allt frá krossferðatímanum - þar sem réttlæting á félagslegri samhjálp sé sterkari í íslamstrú en í öðrum trúarbrögðum.
Annað dæmi - af mörgum - frá miðöldum um byggingarframkvæmdir í velferðarskyni er "Die Fuggerei" í Augsburg í Suður-Þýskalandi, kennt við auðugan kaupmann, Jakob Fugger, sem erft hafði mikið vefnaðavöruveldi í Þýskalandi og Suður-Evrópu.
Athyglisvert er að finna má sterka samsvörun með Die Fuggerei í Augsburg og skipulagshugmyndum Thomasar More í bókinni "De optimo rei publicae statu deque nove insula Utopia" bókinni um staðleysulandið Útópíu, sem öll "útópísk" hugsun hefur síðan verið heitin eftir. Rétt til búsetu áttu fátækir, öryrkjar og aldraðir, leigan var eitt svonefnt "Rínargyllini" og einnig fylgdi sú kvöð að íbúarnir skyldu reglulega biðja fyrir sálu Jakobs Fuggers.
"Die Fuggerei" skemmdist í þrjátíu ára stríðinu á 17. öld og var lagt í rúst í síðari heimsstyrjöldinni á þeirri tuttugustu. Svæðið var hins vegar endurbyggt; enn þann dag í dag er mánaðarleigan sem svarar einu Rínargyllini (1,72 þýsk mörk) og enn biðja leigjendurnir reglulega fyrir sálu Jakobs Fuggers.
Þegar á miðöldum skapaðist sú venja að húsnæði sem látið var í té í velferðarskyni væri lokað af, í það minnsta um nætur og að íbúarnir yrðu að hlíta sérstökum reglum. Lengst gekk slík innilokun sérstakra hópa í gyðingagettóunum sem finna mátti í öllum stærri borgum Evrópu. Öll slík "gettó" drógu nafn sitt af hverfi gyðinga, sem sest höfðu að í Feneyjum eftir að hafa verið hraktir frá Spáni árið 1492 af þeim frægu hjónum Ferdínand og Ísabellu. Hverfi gyðinga í Feneyjum lá við hlið járnsteypu nokkurrar og er orðið "gettó" talið dregið af ítalska orðinu "gettare", er merkir að "kasta, steypa eða hella".
Mótunarskeið félagslegra íbúðabygginga á 19. öld
Iðnbyltingin hafði í för með sér gífurlegan vöxt borga. Í húsnæðismálum alþýðu ríkti algert neyðar- og óreiðuástand. Á fyrsta skeiði iðnvæðingarinnar bar mjög á frumkvæði manna úr stétt atvinnurekenda, sem auðgast höfðu á hinni nýju hagskipan, en töldu kjör verkalýðsstéttarinnar, ekki síst á sviði húsnæðismála, óviðunandi. Þekktastur slíkra manna var líklega velski verksmiðjueigandinn Robert Owen, sem með réttu er talinn einn af frumkvöðlum sósíalismans sem stjórnmálastefnu. Owen gerði tilraunir með sköpun heilla samfélaga (m.a. New Lanark í Skotlandi) þar sem húsnæðiskjör verkafólks voru allt önnur og betri en annars staðar þekktist.Hér má einnig geta tveggja enskra kvekara og súkkulaðiframleiðenda, þeirra Joseph Rowntrees og George Cadbury og eru nöfn þeirra beggja enn í dag velþekkt vörumerki. Samkvæmt trúarhugmyndum kvekara var mönnum leyfilegt að auðgast, en bar hins vegar heilög skylda til þess að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið og lifa sjálfir án íburðar og eyðslusemi.
Bæði Rowntree og Cadbury stóðu að byggingu fyrirmyndarhúsnæðis fyrir verkamenn sína, sá fyrrnefndi í New Earswick rétt hjá York, sá síðarnefndi í bænum Bournville nálægt Birmingham, sem talinn er vera fyrsta "Garðborg" (Garden City) í nútímalegum skilningi þess heitis. Við andlát Joseph Rowntrees var hluti af auði hans notaður til þess að koma á fót sérstakri velferðarstofnun, "The Joseph Rowntree Foundation", sem enn starfar af miklum krafti.
Eitt helsta starfsvið stofnunarinnar er húsnæðisrannsóknir og áttu rannsóknarniðurstöður "The Joseph Rowntree Foundation" m.a. stóran þátt í því að sýna fram á ýmsar neikvæðar félagslegar afleiðingar thatcherismans í Bretlandi. Enn má hér geta Williams Hesketh Lever, stofnanda hinnar miklu alþjóðasamsteypu Unilever, sem lét byggja upp fyrirmyndarbæinn "Port Sunlight" fyrir verkamenn sína. "Port Sunlight" var að sjálfsögðu nefnt eftir einhverri þekktustu framleiðsluvöru fyrirtækisins, Sunlight-sápunni.
Frumkvæði að umbótum í húsnæðismálum á 19. öld kom einnig oft frá læknastéttinni. Vísindaleg læknisfræði var á þessum tíma að ryðja sér til rúms og í kjölfarið var farið að gera fastmótaðar kröfur um heilbrigðara borgarumhverfi. Í þáverandi höfuðborg Íslands, Kaupmannahöfn, braust út mannskæður kólerufaraldur árið 1853 og var ekki síst um að kenna óheilsusamlegu húsnæði og miklu þröngbýli.
Danska læknafélagið hvatti borgarstjórnina til þess að beita sér fyrir heilsusamlegum íbúðarbyggingum, en þegar ekki reyndist vera fyrir hendi vilji til slíks, beitti læknafélagið, undir forystu Claus Jacob Emil Hornemanns yfirlæknis, sér fyrir byggingu nær 300 íbúða á Øster Fælled í Kaupmannahöfn. Þetta framtak læknanna telst marka upphaf félagslegra íbúðabygginga í Danmörku.
Ekki sakar að geta þess, að eitt fyrsta rit sem gefið var út hér á landi um húsnæðis- og skipulagsmál, er út kom árið 1916, var eftir einn af merkari fulltrúum íslenskrar læknastéttar á fyrri hluta þessarar aldar, Guðmund Hannesson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Takmarkanir góðgerðastefnunnar
Megineinkenni umbótaviðleitni á sviði húsnæðismála á 19. öld var það að hún var borin uppi af einstaka mannvinum sem rann til rifja hin bágu húsnæðiskjör alþýðu. Þrátt fyrir ótal mörg dæmi um vel heppnaðar aðgerðir af þessu tagi, voru þær eigi að síður eins og litlar gárur á vatni þegar þjóðfélag eins og t.d. það breska var skoðað í heild sinni.Það átti eftir að koma í hlut verkalýðshreyfingarinnar og stjórnmálaflokka hennar, sem byrjaðu að láta til sín taka um alla Evrópu á síðari hluta 19. aldar, að gerast helstu örlagavaldarnir um það hvernig það sem við þekkjum sem félagslegar íbúðarbyggingar átti eftir að þróast og dafna á 20.öldinni.