Jakob Þór Einarsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir í hlutverkum sínum í Leikir.
Jakob Þór Einarsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir í hlutverkum sínum í Leikir.
Höfundur: Bjarni Bjarnason. Leikstjóri: Stefán Karl Stefánsson. Leikarar: Jakob Þór Einarsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir. Leikmynd og búningar: Rannveig Gylfadóttir. Lýsing: Kjartan Þórisson. Hádegisleikhús 10. mars

LEIKIR Bjarna Bjarnasonar eru þriðja verkið sem vann til verðlauna í leikritasamkeppni Leikfélags Íslands sem efnt var til í hittifyrra. Þar var kallað eftir einþáttungum eða stuttum leikverkum ætluðum til sýninga í hádegisleikhúsi Iðnó. Nú þegar öll verðlaunaverkin hafa verið sviðsett er við hæfi að þakka fyrir framtakið því Hádegisleikhúsið hefur reynst hin skemmtilegasta viðbót við annað leikhúslíf í landinu og vonandi verður saga þess lengri. Verðlaunaverkin þrjú (þau fyrri eru eftir Kristján Þórð Hrafnsson og Hallgrím Helgason) hafa öll þó nokkuð til síns ágætis og eru skemmtilega ólík.

Leikir Bjarna eru í raun þrír sjálfstæðir einþáttungar þar sem höfundur spinnur tilbrigði út frá sama stefi, ef svo má að orði komast. Stefið sem spunnið er út frá er einfalt: Samskipti kynjanna og, eins og titill verksins gefur til kynna, þeir leikir sem til geta orðið í þeim samskiptum. Mjög auðvelt væri að klúðra þessu efni með klisjum, einföldunum og/eða áróðri, en Bjarni fellur aldrei í slíkar gildrur. Hann nálgast viðfangsefnið af húmor og skarpri athyglisgáfu og hefur skrifað texta sem er meitlaður en spannar vítt svið. Bjarni mun hafa skrifað fleiri þætti út frá sama stefi, en dómnefndin valdi saman þá þrjá sem hér eru færðir á svið.

Hver þáttur lýsir samskiptum pars, karls og konu, þannig að um sex hlutverk er að ræða í heild. Það er sama leikaraparið sem leikur í öllum þáttunum, Jakob Þór Einarsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir, og er virkilega gaman að sjá hvernig þau fara úr einu hlutverki í annað og skipta um ham á augabragði. Einnig hlýtur að vera nokkurs virði fyrir leikarana sjálfa að fá að spreyta sig á ólíkum hlutverkum innan sömu sýningar og þau Jakob Þór og Nanna Kristín stóðu sig firnavel hvað þetta varðar, sköpuðu hvort um sig þrjár skemmtilega ólíkar persónur. Fyrsti þátturinn lýsir samskiptum ungrar konu og afar uppáþrengjandi náunga á kaffihúsi. Þau takast fremur góðlátlega á; karlinn í sókn og konan í vörn - svona framan af. Jakob Þór var mjög sannfærandi sem hinn uppáþrengjandi náungi, en kannski hefði hann mátt draga aðeins úr kraftinum þarna í byrjun svo áhorfandinn færi ekki að spá í hvers vegna stúlkan forðaði sér ekki strax. Miðþátturinn lýsir því er karl og kona ræða saman um kossa og það að kyssast - sem þau greinilega blóðlangar til án þess að geta komið sér að verki! Þetta er bráðfyndinn þáttur, mjög skemmtilega skrifaður og leikararnir fóru báðir á kostum í ýktu látbragði. Síðasti þátturinn lýsir því hvernig hjón (söngkona og píanóleikari) takast á af nokkuð illskeyttri kynferðislegri spennu og ófullnægju rétt áður en þau eiga að koma fram fyrir áhorfendur. Öfugt við fyrsta þátt er konan hér í sókn og karlinn í vörn. Þessi þáttur var ekki síður fyndinn er sá á undan, frábær stígandi í orðaskaki hjónanna helst í hendur við tilfinningalega afhjúpun sem er þó skemmtilega tvíræð og vekur upp margar spurningar um samband hinna stríðandi hjóna og forsendur "stríðsins" . Nanna Kristín og Jakob Þór áttu frábæran samleik í þessu atriði og þótt konan sé hér í hlutverki kvalarans og karlinn fórnarlambið, skein þó ófullnægjan af þeim báðum í jöfnum hlutföllum.

Þótt þættirnir séu sjálfstæðir er skemmtilegur stígandi í þeim sem gefur sýningunni þéttari heildarsvip en ella og hefur hér án efa komið til kasta leikstjórans, Stefáns Karls Stefánssonar, sem hér stýrir í fyrsta sinn og að því er virðist af miklu öryggi. Sviðsmynd og búninga hannar Rannveig Gylfadóttir og vil ég sérstaklega benda á skemmtilega sviðsmynd í öðrum þætti, þar sem parið orðmarga en ókyssta situr á miklum bókarhlaða; orðin eru undir, yfir og allt um kring - en stundum er best að láta verkin tala.

Bjarni Bjarnason hefur áður sýnt að hann er með athyglisverðustu skáldsagnahöfundum okkar af yngri kynslóðinni. Leikir vekja upp vonir um að hann hafi ekki síður hæfileika á sviði dramatískrar orðlistar og að hann verði virkur þátttakandi í þeirri uppsveiflu sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma er í vændum (og er reyndar þegar hafin) á sviði íslenskrar leikritunar.

Soffía Auður Birgisdóttir