Fyrirgefðu, frá 1996, er meðal margra heillandi verka Önnu Líndal í Gerðubergi.
Fyrirgefðu, frá 1996, er meðal margra heillandi verka Önnu Líndal í Gerðubergi.
Til 19. apríl. Opið mánudaga til fimmtudaga frá kl. 9-21; föstudaga frá kl. 9-19 og laugardaga til sunnudaga frá kl. 12-16.

ÞAÐ er ekki nema áratugur síðan Anna Líndal brautskráðist frá Slade í Lundúnum. Á þeim tíma hefur hún markað sér mjög ákveðna og áhugaverða stefnu sem listamaður. Reyndar var það verkið Viðgerðarmaðurinn, frá 1994, sett saman úr nærri tólf hundruð tvinnakeflum, sem kom Önnu á kortið svo um munaði. Þetta snjalla verk sem endurspeglaði að nokkru leyti bakgrunn hennar sem kjólameistara var um leið inngangur að áleitinni gagnrýni á stöðu og hlutverk konunnar í hefðbundnu, kyngreindu samfélagi.

Þótt íslenskt þjóðfélag sé ekki sem verst þegar kemur að stöðu kvenna er ýmislegt merkilegt í fari okkar sem telja verður vafasamt frá jafnræðislegu sjónarmiði séð. Til dæmis fannst útlendingum það merkilegt að sjá íslenskar konur standa við uppvartningar meðan karlarnir hámuðu í sig kostinn. Til eru lýsingar erlendra gesta á því sem þeir tóku fyrir fullkomið kvennaplagerí hér á landi og líktu við múslímska mismunun. Þar nefndu þeir gjarnan fyrst þann sérkennilega sið að konur sáust aldrei matast. Reyndar eru það bara hin verstu flögð sem taka hraustlega til matar síns eins og sannast á vondu stjúpunum í ævintýrunum.

Enn eimir eftir af þessari merkilegu kynjaskiptingu sem vísast á sér saklaust upphaf í skýrri verkaskiptingu fyrri tíðar þegar eldhússtörf voru ámóta flókin og umfangsmikil og veitingahússrekstur nú til dags. Til dæmis er það lenska að sjá konur og karla flokka sig í veislum, hvort kynið á sínum bás, líkt og þau eigi sér enga málefnalega samleið. Þótt eflaust sé þessi siður á undanhaldi loðir hann þó býsna langvinnur við kynslóðirnar sem komnar eru yfir miðjan aldur.

Það eru slík ósýnileg lögmál sem verða Önnu Líndal tilefni til listsköpunar. En líkt og lögmálin eru verk Önnu engar upphrópanir. Þau eru gagnrýnin á þann hátt sem gagnrýni ætti að vera; ísmeygilega upplýsandi og meinfyndin, en hógvær og yfirveguð um leið. Hvað varðar svo hófstillta afstöðu - það mætti kalla það eðalborna meinhæðni - svipar Önnu mest til þýsku listakonunnar Rosemarie Trockel, sem festir eldavélahellur ofan á "hvíta kubbinn".

Einmitt í þessa veru er verk Önnu, Fyrirgefðu, 1996, þar sem hún hamast við að strauja með kraumandi straujárni í skugga karlmanns sem stendur keikur og les upp úr bók. Eflaust er það skyrtan hans sem hún er að strauja en það kemur ef til vill ekki málinu svo mjög við. Hitt er augljósara - reyndar eins og í eldavélarhellunum hennar Trockel - að kristalskenndur tærleiki menningarinnar verður ekki lengur aðskilinn frá undurstöðunni hversu ómerkileg og soðningsmenguð sem sú hlóðakompa er.

Baðstofulesturinn er aldrei laus við matarlyktina.

Þannig er fokið í flest skjól fyrir öllu hinu tæra, hreina og háleita í menningunni því samkvæmt Önnu Líndal - og Rosemarie Trockel - má alltaf finna vott af fitubrákinni úr eldhúsinu á yfirborði fágunarinnar.

Vissulega væri hægt að fá stofupíu með tusku til að halda hlutunum hreinum en þá væri þrælahaldið of augljóst. Hið skondna við opinberun Önnu er einmitt allur afsökunartónninn. Hin góða húsmóðir biðst auðvitað forláts á tilveru sinni um leið og hún reynir að troða meira kaffi ofan í fullan bollann.

Hún er fangi þráðanna sem hún spinnur utan um alla skapaða hluti eins og köngurló - tvinnakeflin kallast snjallt á við lopaþræðina í verkum þeirra Louise Bourgeois og Annette Messager - sumpart til að sýna hvað hún getur, sumpart til að skýla sér eins og fanga í púpu. Með verkum sínum - sem einnig eiga það sammerkt með þýsku elhúsvalkyrjunum Trockel og Katarinu Fritsch að ná yfir ótrúlega breitt svið myndmiðla svo sem saumaskap, vefnað, höggmyndalist, ljósmyndun og myndbandagerð - er Anna Líndal einn af helstu brautryðjendum okkar í strúktúralískri hugmyndlist.

Yngsta verkið á sýningunni, ljósmyndin Það jafnast ekkert á við raunveruleikann, frá 1999, sem sýnir listakonuna bera að ofan með hatt, mála lítið málverk á ferðatrönum af seigveltandi jökulruðningnum á Vatnajökli - trúlega blandaðan hraunvellingi úr Grímsvatnagosinu 1996 - er ekkert minna en verðug tileinkun til Vermeer, sem mér finnst Anna alltaf andlega skyldust, og allra hinna raunsæismannanna sem hafa skynjað sannleikann í hinu smáa - saumaskapnum og mjólkurkrúsinni - andspænis óendanlegum stórfengleik tilverunnar.

Þótt eiginlegt sjónþing Önnu Líndal sé liðið er sem betur fer hægt að sjá valin sýnishorn af áratugarlangri listsköpun hennar í Gerðubergi, allt til 19. apríl.

Halldór Björn Runólfsson