21. mars 2000 | Íþróttir | 414 orð | 1 mynd

Þróttur meistari í annað sinn

Íslandsmeistarar Þróttar frá Neskaupstað. Efri röð frá vinstri: Sæunn Svana Ríkharðsdóttir, Anna Pavliouk, Svetlana Morochkina þjálfari, Natalia Domzina og Petrún B. Jónsdóttir þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Johanna Wojtowicz, Elma Eysteinsdóttir, Þorbj
Íslandsmeistarar Þróttar frá Neskaupstað. Efri röð frá vinstri: Sæunn Svana Ríkharðsdóttir, Anna Pavliouk, Svetlana Morochkina þjálfari, Natalia Domzina og Petrún B. Jónsdóttir þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Johanna Wojtowicz, Elma Eysteinsdóttir, Þorbj
ÞRÓTTUR Neskaupstað hampaði Íslandsmeistaratitlinum í blaki kvenna fyrir fullu húsi áhorfenda í íþróttahúsinu í Neskaupstað á laugardaginn. Þetta er í annað sinn sem Þróttur vinnur þennan titil. Síðast gerðist það árið 1996 og þá var úrslitaleikurinn einnig leikinn í Neskaupstað. Þróttur sigraði ungt og efnilegt lið KA örugglega í þremur hrinum, 25-16, 25-16 og 25-18.
Framan af hverri hrinu stóðu KA-stúlkur svolítið í nýkrýndum deildarmeisturum en þegar leið á hrinurnar sigldu reynslumeiri Þróttarstelpur fram úr. Leikurinn var skemmtilegur og sýndu bæði liðin góða takta.

Þorbjörg Ó. Jónsdóttir, fyrirliði Þróttar, var að vonum ánægð með leikinn sem hún telur þann besta sem liðið hefur spilað í vetur og þakkar þennan frábæra árangur liðsins fyrst og fremst liðsheildinni og góðum æfingum. Þróttarstelpurnar hafa æft 5-6 sinnum í viku í allan vetur undir góðri stjórn þjálfaranna Svetlönu Morochkina og Petrúnar B. Jónsdóttur. Þá var Þorbjörg mjög ánægð með stuðninginn sem liðið fékk frá áhorfendum og segir að það hljóti að hafa tekið á taugar hins unga liðs KA enda hafi það spilað undir getu að þessu sinni. "Lið KA er efnilegt og á meira inni en það sýndi í þessum leik," sagði Þorbjörg.

Síðastliðin tvö ár hefur verði spilað um Íslandsmeistaratitillinn í blaki með breyttu sniði. Í undanúrslitum er spilað um tvo unna leiki en í sjálfum úrslitaleiknum er einungis spilaður einn leikur og því mikið í húfi. Þorbjörg er ekki ánægð með þetta: "Þetta fyrirkomulag er í raun fáránlegt og fyrst og fremst dagsformið sem ræður því hver hlýtur titilinn. Ef leikirnir hefðu verði fleiri hefðu KA-stelpur fengið að spila á heimavelli og þar hefðu þær eflaust náð upp meiri baráttu," sagði fyrirliðinn.

Þetta er í fyrsta sinn sem tvö lið af landsbyggðinni spila til úrslita um titilinn og í fyrsta sinn sem kvennalið KA spilar um Íslandsmeistaratitilinn. Lið KA hefur tekið miklum framförum í vetur undir stjórn þjálfarans Mikes Perres.

Mikil stemmning var í íþróttahúsinu í Neskaupstað. Félagar í Blús-, rokk- og djassklúbbnum á Nesi hituðu upp með léttri tónlist fyrir leikinn og yngri kynslóðin, máluð í Þróttarlitunum, sló á trumbur. Um þrjú hundruð manns voru á leiknum og hvöttu stelpurnar til dáða. Heiðursgestir á leiknum voru Guðmundur Bjarnason, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Stefán Þorleifsson íþróttafrömuður til margra ára í Neskaupstað og Ólafur H. Sigurðsson, bæjarstjóri Seyðisfjarðar, sem hefur verið titlaður faðir blaksins í Neskaupstað en þar starfaði hann um árabil sem kennari.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar úrslit lágu fyrir og ríkti sannkölluð hátíðarstemmning í blakbænum fram eftir nóttu. Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri afhenti sigurvegurunum bikarinn og formaður Þróttar, Björgúlfur Halldórsson, afhenti blakstúlkunum veglega blómakörfu fyrir vasklega framgöngu í vetur.

Stúdentar meistarar

Lið Stúdenta varð Íslandsmeistari karla eftir jafnan og spennandi leik við Stjörnuna, 3:2. Stúdentar byrjuðu betur og unnu hrinuna 15:13. Stjörnumenn svöruðu með sigri í tveimur næstu hrinunum - 25:23 og 25:18. Leikmenn ÍS gáfust ekki upp, unnu fjórðu hrinuna 25:15 og oddahrinuna 25:13.

Kristín Ágústsdóttir skrifar

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.