Eftir William Shakespeare. Leikstjóri: Magnús Geir Þórðarson. Leikmynd og búningar: Rannveig Gylfadóttir. Lýsing: Sigurvaldi Ívar Helgason.
YS og þys útaf engu er einn hinna rómantísku gamanleikja Shakespeares. Ástarsaga án ærsla meðal aðalsfólks og sögusviðið er Messína, við hirð Leónatós, landstjórans á Sikiley. Hann á dótturina Heró og bróðurdótturina Beatrís; Kládíó greifi frá Flórens er kominn til Messína ásamt vini sínum, Don Petró Aragoníuprinsi. Kládíó biður um hönd Herós og fær. Beatrís hinsvegar ætlar sér aldrei að giftast og sama loforð hefur Benedikt, ungur aðalsmaður frá Padúu, tekið af sjálfum sér. Þau verða auðvitað ástfangin uppfyrir haus hvort af öðru og ná saman að lokum.

Illmennið í þessari sögu er Don Jóhann, hálfbróðir Don Petrós. Hann sviðsetur næturfund Heró við karlmann að Kládíó og Don Petró ásjáandi. Mærin er auðvitað ekki hin skírlífa Heró heldur Margrét, þerna hennar, lauslát píka lægri stéttar. Kládíó hafnar Heró á kirkjutröppunum og eftir að allir hafa verið í rusli um stund kemur sannleikurinn í ljós og allt fellur í ljúfa löð. Sannarlega ys og þys útaf engu.

Herranótt velur sér nokkuð erfitt verkefni að fást við með þessu. Sem gamanleikrit er Ys og þys snúið viðfangs. Gamansemin byggist á orðaleikjum en ekki ærslum; útúrsnúningum Betrísar og Benedikts sem eru þeirrar gerðar að fyndnin felst í því hvernig þeir eru sagðir fremur en hvort. Önnur tækifæri til gamansemi bjóðast fá og líklegt að forsendur plottsins, meydómur Heró, sé ekki lengur þess gulls ígildi sem verkið setur sér. Þannig verður verkefni leikenda og leikstjóra ærið, að halda uppi sýningu á þessu verki sem byggist fyrst og fremst á hnyttinni persónusköpun og ytra útliti, hugsanlega leggja útfrá eilítið háðskum tóni Shakespeares á þeim ys og þys sem aðgerðalaus aðallinn gerir sér útaf engu.

Hinum unga hópi leikenda undir stjórn Magnúsar Geirs tekst þetta að nokkru leyti, söguþráðurinn kemst vel til skila en persónur voru fremur keimlíkar og hefði mátt beita hinum ytra umbúnaði sýningar, (búningum og ljósum) markvissara til að aðgreina þær. Aldur leikenda háir einnig nokkuð þar sem aldursmunur persóna verður ekki jafnskýr fyrir bragðið. Þorgeiri Arasyni (Leónató) tókst þó að koma hugmynd um aldursmun til skila og studdist þar við hatt og pípu. Gautur Sturluson og María Stefánsdóttir voru frískleg og örugg í hlutverkum Beatrís og Benedikts. Þrátt fyrir lipran talanda léku orðaleikirnir þeim ekki á tungu en sjóaðri leikurum gæti reynst erfitt að koma því til skila. Þarna hefði leikstjóri mátt vera ósparari á styttingar. Gyða Valdís Guðmundsdóttir og Hannes Þórður Þorvaldsson náðu sér vel á strik í kirkjuatriðinu og má það hiklaust teljast áhrifamesta atriði sýningarinnar. Umgjörð sýningarinnar er stílhrein og trékassinn í miðju var notadrjúgur. Dansatriði var líflegt og vel æft. Búningar eru veikur hlekkur sem gefa ekki nógu skýra hugmynd um hvað að baki þeim býr. Þeir benda til sjötta eða sjöunda áratugarins en því er ekki fylgt eftir í öðrum hlutum sýningarinnar, s.s. látbragði leikenda eða tónlistinni sem er engu að síður kröftug og sómasamlega flutt. Geri ég ennfremur ráð fyrir því að þar sem einhverjar breytingar hafa verið gerðar á texta þýðingarinnar sem notuð er sé farið að óskum þýðandans og hans að engu getið í leikskrá.

Hávar Sigurjónsson