Bush neyðist til að endurskoða skattastefnuna Washington. Reuter. NÚ VIRÐIST ljóst að George Bush Bandaríkjaforseti getur ekki staðið öllu lengur við loforð sitt um engar skattahækkanir.

Bush neyðist til að endurskoða skattastefnuna Washington. Reuter.

NÚ VIRÐIST ljóst að George Bush Bandaríkjaforseti getur ekki staðið öllu lengur við loforð sitt um engar skattahækkanir. Margir repúblikanar óttast að þetta kunni að koma niður á frammistöðu frambjóðenda flokksins í þingkosningum á þessu ári.

Eitt eftirminnilegasta kosningaloforð George Bush árið 1988 var þegar hann hét því að skattar yrðu ekki hækkaðir og undirstrikaði það með því að segja: "Lesið af vörum mínum, engir nýir skattar". Á þriðjudag átti forsetinn fund með leiðtogum Bandaríkjaþings. Eftir fundinn gaf ríkisstjórn Bush út tilkynningu þarsem sagði að skattahækkanir væru á meðal aðgerða sem nauðsynlegar væru til að minnka fjárlagahallann.

Tilkynning þessi hefur þegar verið túlkuð svo að um stefnubreytingu sé að ræða hjá forsetanum og fráhvarf frá loforðinu fræga. Margir leiðtogar repúblikana höfðu hvatt Bush til að gefa sig ekki. "Repúblikanar hafa notað andstöðuna við skattahækkanir til að skapa skörp skil á milli sín og demókrata," sagði Ed Rollins, formaður kosninganefndar repúblikana fyrir þingkosningar á þessu ári. Gordon Humphrey, öldungadeildarþingmaður frá New Hampshire, tók dýpra í árinni: "Nú heldur fólk að enginn munur sé lengur á flokkunum í skattamálum. Það er sama hvaða samkomulag næst [milli þings og ríkisstjórnar], kjósendur halda að nú séu flokkarnir komnir í eina sæng í þessu efni."

En Bush átti ekki margra kosta völ. Ef ekkert verður að gert má búast við að fjárlagahallinn verði á bilinu 160-230 milljarðar dala á næsta fjárlagaári sem hefst 1. október. Fari svo kemur til kasta laga sem skera ríkisútgjöld sjálfkrafa niður um marga milljarða dala. Þá neyðist ríkisstjórnin tilað draga saman seglin og skera fé við nögl til alríkislögreglunnar og til námslána svo dæmi séu tekin af pólitískt viðkvæmum málaflokkum.

Leiðtogar demókrata segjast ekki munu nota stefnubreytingu Bush gegn honum. Þeir búast samt við pólitískum ávinningi af þessum sökum. "Margir frambjóðendur repúblikana í þingkosningunum hafa gert skattamálin að höfuðkosningamáli. Það fer ekki hjá því að þeim finnist þeir illa sviknir nú," sagði ónefndur starfsmaður demókrataflokksins.