Þóra Bjarnadóttir Timmerman fæddist á Höfn í Hornafirði 28. apríl 1912. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík 20. mars síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni 27. mars.

Í minningargrein um Þóru í blaðinu 26. mars sl. féll niður texti í eftirfarandi grein. Hlutaðeigendur eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum.

27. mars sl. var kær vinkona og fjölskylduvinur, frú Þóra Timmermann. Fyrstu minningar um Þóru eru þegar hún ásamt elstu systur minni, Sigrúnu, kom að aflokinni bíóferð heim til móður minnar. Mér eru í barnsminni þessar stórglæsilegu ungmeyjar, þar sem þær sátu og útlistuðu fyrir móður minni ævintýrin sem þær höfðu upplifað í bíóferðinni.

Því nefni ég þetta atvik að mér hefur fundist að frá þessum árum hafi Þóra verið eins og ein af fjölskyldunni.

Það er erfitt í stuttri grein að koma að því sem mér finnst þurfa að nefna um þessa óvenjulegu konu, og ekki má gleyma bónda hennar, náttúrufræðingnum Dr. Günther Timmermann, sem meðal annars reit eina merkustu bók um íslenska fugla, Die Vögel Islands.

Þá kemur upp í huga mér þegar hún flyst til Þýskalands með manni sínum í lok 1939. Þá var hann kallaður heim sem ræðismaður Þýskalands, þar eð hann var ekki talinn nógu þægur við sjónarmið þáverandi valdhafa í Þýskalandi. Ég vil geta tveggja mála sem hann leiddi farsællega til lykta í ræðismannsstörfum sínum, en hann var ræðismaður Þýskalands á Íslandi frá 1934 til 1938. Í bókinni ,,Götuvísa Gyðingsins'' eftir Einar Heimisson segir frá því þegar gyðingnum Natan hafði verið neitað um landvistarleyfi á Íslandi og hann færður í lögreglufylgd til hins unga ræðismanns og honum fyrirskipað að koma honum tafarlaust til Þýskalands. Játti Günther Timmermann því að hann tæki við honum, en þegar henn sá að vegabréf mannsins var með stóru J-i framan á vissi hann hvað biði júðans ef hann væri sendur til Þýskalands, svo hann reif vegabréfið og aðra pappíra og gaf manninum jafnframt ráð sem dugðu til að bjarga lífi hans. Sama gilti með ungan flugmann sem sýndi listflug með þýska svifflugleiðangrinum sem heimsótti Ísland sumarið 1939. Var Günther falið að sjá um að hann sneri til heimalands síns, en þá upplýsti ræðismaðurinn hann um ástæðu heimköllunarinnar og ráðlagði honum að komast með skipi vestur um haf, sem með vissu forðaði honum frá óvissum örlögum. Þessi mannúðarverk urðu til þess að þegar heim kom var hann kallaður í herinn og varð að sæta harðræði. Naut hann á engan hátt þeirrar stöðu sem menntun hans hefði kallað á.

Þegar líða tók að lokum styrjaldarinnar tókst Þóru að komast með dóttur þeirra í barnavagni, þá tveggja ára, um tugi kílómetra leið úr rústum Hamborgar til bændafjölskyldu og vina, og kom þannig vannærðu barninu til nokkurrar heilsu. Svo er forsjóninni fyrir að þakka að þau hjón komust heil á húfi út úr hörmungum styrjaldarinnar og með meðfæddri ráðdeild og dugnaði vann Þóra sig upp í að vera aðalgjaldkeri Landssíma Íslands og Günther varð prófessor í fuglafræði við háskólann í Hamborg.

Það var svo til mikillar ánægju að Þóra flutti í sama hús og við hjónin, og áttum við margra ára góða tíma saman. Það var aðdáunarvert að sjá dugnaðinn í Þóru, hvernig hún tókst á við elli kerlingu. Göngutúrar í öllum veðrum og þátttaka í því félagslífi sem sambýlið í Efstaleiti bauð upp á. Lét hún sig aldrei vanta þar svo lengi sem heilsan leyfði.

Á þessari skilnaðarstundu þakka ég ævilanga vináttu við þessa elskulegu fjölskyldu og bið Guð að blessa minningu Þóru.

Karl Eiríksson.