Kristinn E. Andrésson var aðalhvatamaður að stofnun Máls og menningar árið 1937. Hér sést hann ásamt Þóru konu sinni.
Kristinn E. Andrésson var aðalhvatamaður að stofnun Máls og menningar árið 1937. Hér sést hann ásamt Þóru konu sinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mál og menning og Vaka-Helgafell eiga sameiginlegar rætur í bókaforlaginu Heimskringlu sem Kristinn E. Andrésson og Ragnar í Smára ráku á fjórða áratugnum. Svo virðist sem sagan hafi því farið í hring með sameiningu þeirra nú. Þröstur Helgason tók sér far með hringekju sögunnar og skoðaði feril þessara stærstu útgáfufyrirtækja landsins sem væntanlega munu skyggja á önnur slík er þau sameinast - nema þau verði þeim skjól.

SAMEINING Máls og menningar og Vöku-Helgafells hefur sögulega tilvísun. Fyrirtækin eiga sameiginlegar rætur í bókaforlaginu Heimskringlu sem stofnað var árið 1934. Að rekstri þess stóðu Kristinn E. Andrésson og Ragnar Jónsson í Smára. Heimskringla stóð að stofnun Máls og menningar árið 1937 ásamt Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda.

Ragnar yfirtók Heimskringlu árið 1940 og hóf eigin útgáfu, fyrst undir merkjum Víkingsútgáfunnar en Helgafell stofnaði hann 1942. Hjá því komu út margir helstu höfundar landsins fram eftir öldinni, svo sem Halldór Laxness, Þórbergur Þórðarson, Gunnar Gunnarsson og Davíð Stefánsson. Erfitt er að sjá pólitískan lit á útgáfu Helgafells en Ragnar virðist ekki hafa átt samleið með Kristni og Máli og menningu.

Bókaforlagið Vaka keypti Helgafell árið 1985 og hefur síðan starfað undir heitinu Vaka-Helgafell. Með sameiningu Máls og menningar og Vöku-Helgafells nú hefur sagan því farið í hring. Kunna menn að leggja einhverja dýpri menningarpólitíska merkingu í það.

Tvö forlög úr einu

Halldór Laxness segir frá því í viðtali við Ingólf Margeirsson um kynni sín af Ragnari í Smára að Heimskringlu hefðu þeir Ragnar og Kristinn stofnað í kringum sig og útgáfu Heimsljóss sem hann hafði gengið með milli útgefenda árangurslaust. Þetta forlag var reyndar ekki annað en nafnið tómt, að sögn Halldórs, en Ragnar upplýsti hann um það síðar að þeir Kristinn hefðu þurft að taka átján víxla fyrir prentkostnaði skáldsögunnar.

Það er vafalaust sitthvað til í þessari frásögn Halldórs en samkvæmt bók Arnar Ólafssonar, Rauðu pennarnir, var Heimskringla þó stofnuð árið 1934 og fyrsta bókin sem hún gaf út var leikritið Straumrof eftir Halldór Laxness. Kristinn var framkvæmdastjóri félagsins en Ragnar stjórnarformaður. Örn telur nokkuð augljóst að Heimskringla hafi verið stofnuð til að auðvelda róttækum höfundum útkomu. Það var þó ekki einhlítt. En útgáfan var allnokkur og meðal höfunda voru auk Halldórs Jóhannes úr Kötlum, Steinn Steinarr, Halldór Stefánsson, Guðmundur Böðvarsson, Þórbergur Þórðarson, Jón Helgason og Gunnar Gunnarsson. Heimskringla gaf einnig út tímaritið Rauðir pennar sem var stofnað árið 1935 af Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda. Kristinn var ritstjóri tímaritsins.

Þeir Ragnar og Kristinn voru stórhuga því þeir greiddu hærri ritlaun en höfðu þekkst. Vinfengi var gott með þeim en samvinna þeirra stóð ekki lengi.

Bókmenntafélagið Mál og menning var stofnað 17. júní árið 1937. Að stofnun þess stóðu Félag byltingarsinnaðra rithöfunda, sem Kristinn var helsti forsprakki að, og bókaútgáfan Heimskringla. Fyrir hönd félags byltingarsinnaðra rithöfunda voru þrír menn kosnir í stjórn Máls og menningar við stofnun þess, Halldór Laxness, Halldór Stefánsson og Eiríkur Magnússon en fyrir hönd Heimskringlu sátu þar Sigurður Thorlacius og Kristinn E. Andrésson, sem varð svo formaður félagsins.

Hjá Máli og menningu var haldið áfram að gefa út undir merkjum Heimskringlu, auk þess sem hið nýja fyrirtæki tók við Rauðum pennum við stofnun; voru þeir gefnir út í tvö ár en síðan má segja að Tímarit Máls og menningar hafi tekið við hlutverki þeirra.

Útgáfa Heimskringlu varð mest þrettán titlar árið 1939 en upp úr því virðist róðurinn þyngjast og árið eftir yfirtekur Ragnar fyrirtækið. Þar með hefst hin mikla bókaútgáfa hans undir ýmsum nöfnum, svo sem Víkingsútgáfan, Víkingsprent, Unuhús og Helgafell sem hann stofnaði 1942. Ragnar seldi svo Heimskringlu aftur til Máls og menningar árið 1945 og herma sögur að hann hafi verið feginn að losna við hana. Hann hélt hins vegar helstu höfundunum, meðal annars Halldóri, Þórbergi og Gunnari Gunnarssyni. Telur Örn Ólafsson að Ragnar hafi getað boðið þeim betri kjör en Mál og menning.

Munurinn lá í íslenskum samtímaskáldskap

Um þetta leyti er Helgafell komið vel á legg, hafði gefið út samnefnt tímarit í þrjú ár og var með fjölda höfunda á sínum snærum. Tímaritið, sem fjallaði almennt um bókmenntir og listir, var gefið út til ársins 1946 í ritstjórn Magnúsar Ásgeirssonar og Tómasar Guðmundssonar. Í framhaldi af Helgafelli kom Nýtt Helgafell sem gefið var út á árunum 1956 til '59 í ritstjórn Jóhannesar Nordal, Kristjáns Karlssonar, Ragnars Jónssonar og Tómasar Guðmundssonar.

Helgafell gaf út listaverkabækur um íslenska listamenn og bryddað var upp á nýjungum eins og Íslendingasögum með nútímastafsetningu. Meginhluti útgáfunnar var þó íslenskur samtímaskáldskapur og framan af felst meginmunurinn á Helgafelli og Máli og menningu í þeirri útgáfu, en síðarnefnda forlagið einbeitti sér að útgáfu þýðinga á erlendum ritum, fræðiritum og innlendri klassík.

Í upphafi markast útgáfustefna Máls og menningar nokkuð af vinstrisinnuðum viðhorfum en fljótlega var áherslum breytt. Halldór Guðmundsson, núverandi útgáfustjóri Máls og menningar, sagði frá þessum fyrstu árum í viðtali við Morgunblaðið í tilefni af sextíu ára afmæli forlagsins:

"Árin 1939 og 1940 verða nokkur átök um Mál og menningu; Morgunblaðið ritar gegn félaginu og einnig Jónas frá Hriflu í Tímann. Í kjölfarið var sett á stofn svokallað félagsráð Máls og menningar sem gegndi hlutverki aðalfundar og kaus stjórn. Þetta ráð var stofnað meðal annars í þeim yfirlýsta tilgangi að fá fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum, eða öðrum áttum, til liðs og slá skjaldborg um fyrirtækið, eins og það var kallað. Í þessu ráði sátu því menn með allt aðrar skoðanir en Kristinn, eins og Gunnar Gunnarsson, Páll Ísólfsson og Sigurður Nordal og fleiri borgaralegir lista- og menntamenn.

Á þessum árum var mikið gefið út af þýðingum og ákaflega erfitt að sjá neina pólitíska slagsíðu á þeim; þarna má sjá höfunda eins og John Galsworthy, John Steinbeck, Ernest Hemingway og svo framvegis. En höfuðverkið sem félagið ætlaði að vinna að á stríðsárunum við oft erfiðar aðstæður - pappírsskömmtun og pólitísk átök - var stórvirki sem hét Arfur Íslendinga sem átti að verða margra binda verk með skrifum eftir fjölda manna. Sigurður Nordal var ritstjóri verksins og þurfti að verja hendur sínar í greinum á þessum tíma gegn því að hann væri farinn að þjónusta kommúnistana. En það kom aðeins út eitt bindi í þessum flokki sem var Íslenzk menning sem Sigurður skrifaði sjálfur.

En það er kannski ágætt að minnast þess í ljósi pólitískrar umræðu um þetta tímabil að bandalagið við borgaralega menntamenn helst í nokkur ár; Sigurður Nordal er til dæmis í stjórn langt fram á sjötta áratuginn þegar hann fer til Kaupmannahafnar. Á þessu tímabili eru einkum gefnar út þýðingar og svo íslensk klassík; Sigurður sá til að mynda um útgáfu á Andvökum Stephans G. og Gunnar Gunnarsson gaf út Jóhann Sigurjónsson. Það er hins vegar ekki gefið út mikið af íslenskum samtímabókmenntum, þær koma frekar út hjá Heimskringlu eða þá öðrum fyrirtækjum. Þessi útgáfa hafði ekki mikinn pólitískan lit enda voru straumarnir sem léku um fyrirtækið í upphafi ekki jafn einsleitir og í kalda stríðinu. Það er vitað að róttækir rithöfundar voru mjög áberandi í íslenskum bókmenntum á fjórða áratugnum en það var í raun ekki fyrr en fór að líða á sjötta áratuginn sem hin pólitísku átök milli hægri og vinstri manna í íslenskri bókaútgáfu fóru að tvíeflast. Þá voru hinir borgaralegu félagsráðsmenn flestir farnir úr Máli og menningu, auk þess sem Almenna bókafélagið var stofnað árið 1955."

Heill hringur og staðan snúist við

Helgafell var enn það forlag sem sinnti íslenskum samtímabókmenntum hvað best á sjöunda áratugnum. Halldór segir í viðtalinu að Kristinn hafi ekki verið í takt við samtímabókmenntir lengur. "Það var ekki gefin út nema ein og ein bók eftir unga höfunda [hjá Máli og menningu] og yfirleitt hélst honum ekki á þeim; þeir fóru frekar til Helgafells eða jafnvel Almenna bókafélagsins. Á sjöunda áratugnum var því kannski mest reisn yfir Tímariti Máls og menningar sem Sigfús Daðason sá mikið til um og birti margar merkar greinar í," sagði Halldór.

Síðustu tvo áratugi eða svo hefur þessi staða snúist við. Mál og menning hefur eflt mjög útgáfu á íslenskum samtímaskáldskap en á sama tíma hefur talsvert dregið úr honum hjá Helgafelli. Fyrirtækið var selt Vöku, útgáfufyrirtæki Ólafs Ragnarssonar og Elínar Bergs, árið 1985. Er Vaka keypti Helgafell átti það fyrst og fremst útgáfurétt á verkum margra virtustu höfunda þjóðarinnar af eldri kynslóð, þar á meðal Halldórs Laxness sem síðan hefur verið aðalhöfundur Vöku-Helgafells. Á síðustu tveimur til þremur árum hefur Vaka-Helgafell þó eflt útgáfu sína á innlendum samtímabókmenntum.

Í skjóli risans eða skugga

Síðustu ár hafa Mál og menning og Vaka-Helgafell haft algera yfirburðastöðu á bókamarkaði landsins. Bæði fyrirtækin standa á traustum rekstrarlegum grundvelli. Mál og menning hefur það þó enn fram yfir Vöku-Helgafell að vera með fleiri samtímahöfunda á sínum snærum, auk þess að standa að meiri útgáfu á erlendum bókmenntum og fræðiritum fyrir almenning. Mál og menning hefur og verið afar áberandi í bókmenntaumræðunni með Halldór Guðmundsson útgáfustjóra í fararbroddi. Þótti sumum forlagið jafnvel orðið full áhrifamikið fyrir fáeinum árum og þurftu forsvarsmenn þess æ ofan í æ að svara spurningum fjölmiðla um hvort fyrirtækið væri ekki orðið óæskilega stórt og valdamikið á þessum litla markaði.

Hringekja sögunnar hefur nú fært þessi fyrirtæki saman á ný. Ljóst má vera að sameining þeirra breytir landslagi á íslenskum útgáfumarkaði verulega. Til verður langstærsta og öflugasta útgáfufyrirtæki landsins. Spurningin er hvaða áhrif þetta muni hafa á önnur fyrirtæki í þessum geira.

Nokkrar hræringar hafa orðið í honum síðustu misseri. Í febrúar síðastliðnum stofnaði Jóhann Páll Valdimarsson, fyrrverandi útgáfustjóri Forlagsins og yfirmaður markaðssviðs Máls og menningar, nýtt forlag, JPV-forlag, sem hyggur á talsverða útgáfu. Nýja bókafélagið var stofnað á síðasta ári og Iðunn og Fróði hafa sameinast og mynda eitt af stærri útgáfufyrirtækjum landsins. Forlagið Bjartur hefur og aukið útgáfu sína nokkuð. Hvort þessi fyrirtæki muni blómstra í skjóli risans eða fölna í skugga hans verður að koma í ljós.

En hvað sem því líður liggur fyrir að stofnun hins nýja fyrirtækis markar ákveðin menningarpólitísk tímamót; múrar sem risu eru augljóslega fallnir.