Anna, þú átt afmæli apríldag að vanda. Það er komið þíðviðri; þér skal óðinn blanda. Gakktu lífs á götunni glöð og hress í anda. -Vörð um hús og heimili heilladísir standa.

Það leiðir af sjálfu sér, að þeir sem víða fara, kynnist mörgum. Ekki er þó sjálfgefið, að allt þetta fólk sé manni að skapi, því að svo margt er sinnið sem skinnið. Og vitanlega kynnumst við aldrei nema fáum að nokkru ráði, þótt við umgöngumst marga.

Hún Anna Þorsteinsdóttir, sem lengi var prests- og prófastsfrú í Heydölum í Breiðdal, er orðin hálfníræð. Hvað tíminn flýgur! Fyrir réttum 15 árum fagnaði hún sjötugsafmæli á heimaslóðum, og var þá margt gesta á prestssetrinu í miðri sveit. Þegar þetta var gegndi ég kennslustörfum við barnaskóla sveitarinnar, sem þá var til húsa í Staðarborg. Þar hafði Anna kennt áður og einnig eiginmaður hennar, séra Kristinn Hóseasson. Anna og maður hennar buðu okkur hjónum til sín þau jól, sem við áttum heima á Breiðdalsvík og veittu vel. Er þess gott að minnast.

Ég sá Önnu fyrir fáum dögum á fundi hjá Ættfræðifélagi Íslands. Hún er manneskja, sem lætur aldurinn ekki buga sig. Er virk og áhugasöm um andleg mál. Einnig hefur hún sinnt handverki, eins og bókbandi með góðum árangri um langt árabil. Ellin hefur ekki verið henni neitt þung, fremur en skáldinu sem orti forðum um það efni. Og ríkir eru þeir, sem eiga sér áhugamál, hvað sem aldrinum líður.

Ég enda þetta afmælisspjall með erindi, sem ég flutti Önnu á heimili hennar að Heydölum, á sjötugsafmælinu, 8. apríl 1985, og mér finnst enn eiga við:

Anna, þú átt afmæli

apríldag að vanda.

Það er komið þíðviðri;

þér skal óðinn blanda.

Gakktu lífs á götunni

glöð og hress í anda.

-Vörð um hús og heimili

heilladísir standa.

Önnu óska ég allra heilla á þessum tímamótum í ævi hennar.

Auðunn Bragi Sveinsson, fyrrverandi kennari og skólastjóri.

Í dag laugardaginn 8. apríl verður 85 ára gömul heiðurskonan Anna Þorsteinsdóttir, fyrrum prófastsfrú að Heydölum í Breiðdal, nú húsmóðir í Reykjavík. Anna fæddist þann 8. apríl 1915 að Óseyri við Stöðvarfjörð þar sem hún ólst upp ásamt sex systkinum sem öll eru látin. Systkini hennar voru Skúli, Pálína, Friðgeir, Halldór, Björn og Pétur. Anna er dóttir hjónanna Þorsteins Þ. Mýrmanns útvegsbónda og borgara á Óseyri við Stöðvarfjörð og Guðríðar Guttormsdóttur húsmóður. Faðir Guðríðar var séra Guttormur Vigfússon í Stöð í Stöðvarfirði. Kona hans var Þórhildur Sigurðardóttir frá Harðbak á Sléttu. Foreldrar Þorsteins Mýrmanns voru Þorsteinn Þorsteinsson og kona hans Valgerður Sigurðardóttir. Foreldrar Þorsteins Þorsteinssonar voru Þorsteinn Þorsteinsson og kona hans Sigríður Jónsdóttir Þorsteinssonar prests að Kálfafellsstað. Foreldrar Valgerðar Sigurðardóttur voru Sigurður Eiríksson af Skálafellsætt og kona hans Valgerður Þórðardóttir.

Anna lauk barnaskólaprófi árið 1927, 12 ára að aldri, og prófi frá Húsmæðraskólanum á Hallormsstað 1934. Hún sótti námskeið í tungumálum og fleiri greinum á árunum 1932-1944. Anna var húsmóðir að Heydölum í Breiðdal frá 1947-1987. Hún var aðstoðarkennari við húsmæðraskólann á Hallormsstað og við gestamóttöku þar á árunum 1934-1936, að undanskildum hluta af vetri sem hún starfaði sem vefnaðarkennari hjá Sambandi austfirskra kvenna. Barnakennari víða á árunum 1939-1970 og skólastjóri á Stöðvarfirði 1965-1966. Anna var forstöðukona mötuneytis stúdenta 1943-1944. Í stjórn Austfirðingafélagsins í Reykjavík 1944-1946, hreppsnefnd Breiðdalshrepps 1958-1962, sóknarnefnd Heydalasóknar 1964-1970 og ritari Sambands austfirskra kvenna 1967-1970. Anna var jafnframt formaður slysavarnadeildarinnar Einingar í Breiðdal og Skógræktarfélags Breiðdæla um skeið. Meðstofnandi kvenfélagsins Hlífar í Breiðdal og formaður um árabil. Anna starfaði sem formaður barnaverndarnefndar Breiðdalshrepps frá 1966-1982.

Anna Þorsteinsdóttir giftist hinn 31.12. 1944 Kristni Hóseasyni presti og prófasti í Heydölum, fæddum þann 17.2. 1916. Foreldrar hans voru hjónin Hóseas Björnsson, húsasmíðameistari, og Ingibjörg Bessadóttir, húsmóðir, Höskuldsstaðaseli, Breiðdal. Kjörbörn þeirra Önnu og Kristins eru: Hallbjörn fæddur 5.1. 1953, vélstjóri í Reykjavík, ókvæntur og barnlaus og Guðríður fædd 22.5. 1955, húsmóðir í Garðabæ, maki: Óskar Sigurmundason, þeirra börn eru: Anna Kristín og Andri Valur.

Anna Þorsteinsdóttir er ein af þessum kraftmiklu konum sem vekur athygli viðstaddra fyrir orðfærni, líflega framkomu og létta lund. Hún er kona sem geislar af frásagnargleði og hefur frá mörgu að segja enda man hún tímana tvenna. Skólaganga Önnu hófst hjá afa hennar séra Guttormi Vigfússyni. Hjá honum lærði hún að lesa og skrifa en frekari tilsögn fékk hún heima eins og venja var á þeim tíma. Hugur Önnu hneygðist snemma til bókar en sá tími sem gafst til lestrar var lítill og segir hún svo frá: "Ég þótti víst heldur þung til vinnu, enda sveikst ég um þegar ég gat og notaði hverja stund til að lesa. Ég las fram eftir öllum nóttum og hafði bók í barminum þegar ég sat yfir lambánum". Það tíðkaðist ekki á þeim tíma að mennta ungar stúlkur og sumarið 1930 var hún send í kaupavinnu. Um sumarið hafði hún gott kaup en naut sjálf ekki uppskerunnar því hún lánaði eldri bróður sínum launin svo að hann gæti farið í skóla. Það fór þó svo, að Anna lét til sín taka í menntamálum og átti kennslan hug hennar og hjarta í liðlega þrjátíu ár.

Anna bjó lengstum á Stöðvarfirði og á Heydölum í Breiðdal. Að Heydölum hélt hún myndarheimili með Kristni í tæplega fjörutíu ár. Á prestsheimilinu var afar gestkvæmt og þeim ekki í kot vísað er þangað rötuðu. Árið 1987 luku presthjónin vistinni á Heydölum og héldu til höfuðborgarinnar. Þegar þangað kom settist Anna ekki í helgan stein heldur tók til við skriftir. Af mikilli eljusemi hefur Anna safnað saman og skrifað niður þjóðlegan fróðleik. Hún hefur mikið yndi af því að segja frá öllu því sem viðkemur lifnaðarháttum fólks eins og þeir voru í hennar ungdæmi. Anna hefur verið óþreytandi að leita uppi og safna saman ljóðum eftir séra Guttorm, afa sinn ásamt því að skrifa æviþætti um foreldra sína, ömmu og afa. Margt af því sem hún hefur fest á blað er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni og er hún enn að bæta við það safn. Anna hefur tekið saman mörg minningarbrot um samferðafólk sitt. Skrifin eru ómetanlegar heimildir um líf og störf fólks um síðustu aldamót og hafa sumar greinarnar birst í dagblöðum og tímaritum.

Anna er hagmælt mjög og skrifar skemmtilegar sögur sem tengjast lífi hennar og minningum. Sumar þessara sagna hafa birst á prenti og fleiri á hún í fórum sínum sem bíða síns tíma. Hana munar heldur ekki um að setja saman stökur við ýmiss tækifæri eða senda kærum vinum ljóðabréf. Sumt af því sem hún hefur samið birtist í bókinni Raddir að austan-ljóð Austfirðinga (1999). Mörg af hennar bestu ljóðum eru ort til ástvina eða annarra sem hún hefur átt samleið með. Sumarið 1983 lá Anna á Landsspítalanum og naut þar góðrar umönnunnar starfsfólks. Það er gjarnan hennar siður að þakka fyrir sig með ljóði og svo var einnig í það sinn:

Fylgi ykkur gleði í göfugum starfa

gæfan ei bregðist þá mest liggur við.

Starf sem að unnið er öðrum til þarfa

andanum lyftir á hærra svið.

Ryð má á skjöld ykkar fagran ei falla

friðarins Guð ávallt til ykkar sér.

Hafið nú þökk fyrir umönnun alla

og uppörvun sem að veittuð þið mér.

Anna er ennþá, þó komin sé hátt á níræðisaldur, ern og sístarfandi. Hún hefur alla tíð unnið mikið í höndum þó svo hún vilji sjálf ekki hampa því verki né telji sig hannyrðakonu. Vinir og venslafólk hafa fengið að njóta þeirrar eljusemi og liggur margt fallegt og nytsamlegt handverk eftir hana. Anna lætur þjóðmál sig miklu varða og hefur ákveðnar skoðanir á þeim málum sem eru efst á baugi á hverjum tíma. Hún lætur sig ekki vanta á þingpalla ef málefni sem þar er verið að fjalla um eru henni hugleikin. Anna fylgist mjög vel með og liggur ekki á skoðunum sínum hvort sem umræðuefnin eru háalvarleg eða á léttum nótum.

Anna er mikil nútímakona. Hún ræktar sjálfa sig bæði líkamlega og andlega en nýlega lauk hún nokkurrra vikna tölvunámskeiði. Hún er farin að nýta sér tæknina við sín hugðarefni, skriftirnar, á milli þess sem hún bregður sér á veraldarvefinn. Margir mættu hafa lífssýn hennar að leiðarljósi. Hún telur það heilaga skyldu hvers manns að gera það sem getan leyfir til að njóta lífsins. Má með sanni segja að viðhorf Önnu, viljastyrkur og sterkur persónuleiki hafi fleytt henni yfir mörg boðaföllin. Nafna hennar og dótturdóttir sem er hennar besta vinkona sagði eitt sinn: "Hún Anna-amma er sú frábærasta manneskja sem ég hef kynnst" og erum við sem þekkjum hana sammála fullyrðingu barnsins.

Klara Sigurmundadóttir,Lára Halldóra Eiríksdóttir.

Auðunn Bragi Sveinsson, fyrrverandi kennari og skólastjóri.