13. apríl 2000 | Íþróttir | 228 orð

Róbert Julian Duranona, handknattleiksmaður, leikur með...

Róbert Julian Duranona, handknattleiksmaður, leikur með Nettelstedt frá og með næstu leiktíð, eftir að hafa leikið með Eisenach frá 1997, en þaðan kom hann frá KA.
Róbert Julian Duranona, handknattleiksmaður, leikur með Nettelstedt frá og með næstu leiktíð, eftir að hafa leikið með Eisenach frá 1997, en þaðan kom hann frá KA. Frá sölunni var gengið í gær en Duranona á eitt ár eftir af samningi sínum við Eisenach og leikur með félaginu út leiktíðina sem lýkur í lok maí. Samningur Duranona við Nettelstedt er til tveggja ára, en Duranona er 34 ára gamall. Duranona hefur ekki náð sér á strik í vetur eftir að hafa leikið sérlega vel í fyrravetur og verið m.a. einn af markahæstu leikmönnum þýsku 1. deildarinnar í handknattleik og valinn í úrvalslið deildarinnar í mótslok. Hefur það því verið vilji bæði Duranona og forráðamanna Eisenach um tíma að hann breytti um vettvang.

Eftir að forsvarsmenn Nettelstedt ákváðu á dögunum að endurnýja ekki samning sinn við Bogdan Wenta vaknaði áhugi á að klófesta Duranona til þess að leysa Wenta af hólmi.

Tveir Íslendingar hafa leikið með Nettelstedt, Bjarni Guðmundsson og Sigurður Sveinsson - þeir léku saman með liðinu keppnistímabilið 1982-1983, en þá fór Bjarni til Wanne Eickel og Sigurður til Lemgo.

Nettelstedt er greinilega að sækja liðsstyrk fyrir næstu leiktíð því forráðamenn félagsins gengu í gær einnig frá kaupum á Tobias Skerka frá Flensburg-Handewitt. Nettelstedt er sem stendur í 14. sæti af átján liðum í þýsku 1. deildinni, hefur 20 stig, einu stigi færra en Eisenach. Liðið er hins vegar ekki í neinni fallhættu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.