Stefán Jörgen er að vinna að því að elda vin um nokkra áratugi.
Stefán Jörgen er að vinna að því að elda vin um nokkra áratugi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Jörgen kemst varla fyrir í herberginu sínu fyrir kynjaverum ýmsum, hrærivélum, höndum og hausum. Hildur Loftsdóttir reyndi að troða sér þangað inn.

ÉG ER ekki sammála Óskarsverðlaununum hvað förðunina varðar. Mér finnst Rick Baker eiga þau skilið fyrir myndina Life með Eddie Murphy og Martin Lawrence," segir Stefán Jörgen Ágústsson 23ja ára áhugamaður um þessi mál.

"Á ensku heitir þetta "special make-up effects", en íslenska þýðingin á því er misjöfn. Mér finnst flottast að segja tæknibrelluförðun, af því að það er verið að blanda saman brellum og förðun."

Og Stefán Jörgen veit um hvað hann er að tala því hann hefur sjálfur verið að farða leikara, búa til grímur og brúður, og er auk þess að kenna grundvallaratriði í grímugerð í Förðunarskóla Íslands. "Ég er að kenna þeim að smíða aukastykki í andlit, mótleira, teikna og allt sem þessu fylgir."

Stefán Jörgen hefur þegar fengið nokkur stór verkefni ásamt aðstoðarmanni sínum Sigurjóni Garðarssyni við Myrkrahöfðingja Hrafns Gunnlaugssonar, Oiko logos stuttmynd Rúnars Rúnarssonar og Gríms Hákonarsonar og Latabæ "og svo nokkur minni verkefni. Ég bjó til gervisár fyrir myndina Popp í Reykjavík og var aðstoðarmaður í Stikkfrí, þar sem ég hjálpaði til við að gera litlu stelpuna sjálflýsandi," segir Stefán Jörgen. Herbergið hans Stefán Jörgens er vægast sagt ótrúlegt einsog hálfóhuggulegur ævintýraheimur; fullur af skrímslum, blóðugum hausum og það liggur meira að segja lík við hurðina! Blaðamaður er þó hræddari við risastóra dalmatíuhundinn sem vill endilega koma með inn í herbergið, en má það sem betur fer ekki.

"Ég hef alltaf haft áhuga á þessu," rifjar Stefán Jörgen upp. "Ég man að við afi vorum að líma saman beinagrind með sílíkoni og þá fannst mér þetta mjúka efni svo skemmtilegt en þá var ég alltaf að leira og föndra. Þegar ég var tíu ára þráði ég af öllu hjarta að eignast grímur einsog þær í kvikmyndunum; Svarthöfða og fleiri, og reyndi að búa þær til, án þess að kunna neitt, og með þrjóskunni varð ég laginn.

Þegar ég er 15 eða 16 ára fékk ég fyrstu bókina um brellugerð, en þar sem ég kunni ekki að lesa ensku skoðaði ég bara myndinar og rýndi í hvaða verkfæri voru notuð og hvaða aðferðum var beitt, og þannig hef ég lært tæknibrelluförðun sem er aðaláhugamálið mitt í dag og mig langar til að vinna við í framtíðinni."

-Er þetta ekki frekar þráhyggja?

"Jú, ég er alltaf að eins og sést á herberginu mínu. Það eru ekki margir sem myndu nenna að sofa í fullu herbergi af drasli og kynjaverum, mótum, hausum og höndum. Ef ég er ekki að gera eitthvað, er ég að hugsa um það og pæla hvernig ég geti gert þetta og hitt betur, reyna að finna einhverjar nýjar aðferðir. Ég ætlaði alltaf að verða uppfinningamaður þegar ég var lítill og þetta er mjög svipað því."

Geimverur og dúkkur í þrívídd

Innan um afskorna hausa og hendur leynast áhöld meistarans eins og hrærivél, örbylgjuofn og loftpressa til að sprauta málningu á grímur og nota í mótagerð.

"Hrærivélina nota ég til að hræra froðulatexið til að nota í grímur til að breyta andlitsfalli fólks. Það hefur verið notað mest í kvikmyndum. Ég geri afsteypu af leikaranum úr gifsi, leira síðan yfir það og bý til mót af því sem ég set froðulatex eða gelatín í og geri þannig grímu sem passar algjörlega á andlitið og þá getur leikarinn hreyft andlitið eðlilega."

-Ertu ekki kominn langt í þessu?

"Það er fátt sem kemur mér á óvart lengur og ég hef lesið mér mjög mikið til."

-Hvað gerðir þú í Myrkrahöfðingjanum?

"Við Sigurjón unnum í tvo mánuði við myndina og gerðum drukknuðu konuna í vatninu, nokkur brennd höfuð, líkama til að henda á eldinn og líkið sem er á bak við hurðina. Þetta átti að vera náungi sem var búið að hengja, en var síðan ekki notaður.

Í Oiko lokos hjálpaði Sigurjón mér líka og þar gerðum við fimmtán grímur, og við unnum við það í tvö sumur. Það var mjög mikil vinna, en ég hannaði og gerði allar geimverurnar, auk þess að sjá um förðunina.

Svo vann ég með Guðmundi Kárasyni í fjóra mánuði við að smíða þrettán gúmmídúkkur fyrir Latabæ, sem var fín lífsreynsla."

Skrímsli í uppeldinu

-Hvort er skemmtilegra að hanna geimverur eða lík, eða fást við fólk og breyta því?

"Mér finnst hvort tveggja jafnspennandi og það er gott að geta skipt á milli upp á fjölbreytnina. Ef fæ ekki vinnu í sumar hér á landi, ætla ég að reyna erlendis. Mig langar ekki í skóla. ég þarf bara enn meiri reynslu."

-Er draumurinn að vinna með Rick Baker?

"Já, að fá að vinna með frægustu köllum, Rick Baker og hitta Dick Smith. Hann er guðfaðir þessarar tegundar förðunar og fann upp fullt af aðferðum. Hann er afi allra tæknibrellu- og förðunarkarla, en er hættur að farða og er að hjálpa ungum mönnum að koma sér áfram og er með námskeið sem ég hef m.a. keypt."

-Er þetta algjör karlagrein?

"Já, mér sýnist það. Ein frægasta förðunarkonan, Vanille, setur bara stykkin á, en býr þau ekki til. Frægustu nöfnin eru allt karlar. Ég veit ekki af hverju. Ætli það hafi ekki með uppeldið að gera. Strákar eru aldir upp við það að "fíla" skrímsli og ógeð, á meðan stelpurnar eru í barbíleik. En annars er ég að kenna núna fjórum stelpum sem sýna að þær hafa hæfileika og það gæti vel orðið eitthvað úr þeim."