EFTIRFARANDI ályktun var samþykkt á fundi jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar 11. apríl sl.: "Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar lýsir yfir mikilli ánægju með frumvarp ríkisstjórnar Íslands til að laga fæðingar- og foreldraorlof.

EFTIRFARANDI ályktun var samþykkt á fundi jafnréttisnefndar Reykjavíkurborgar 11. apríl sl.:

"Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar lýsir yfir mikilli ánægju með frumvarp ríkisstjórnar Íslands til að laga fæðingar- og foreldraorlof. Verði frumvarpið að lögum markar það tímamót í þróun jafnréttismála og skipar Íslandi í fremstu röð hvað rétt feðra til fæðingarorlofs snertir.

Þau markmið frumvarpsins að veita feðrum sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs, samræma réttindi starfsfólks á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera og lögfesta tilskipun ESB um foreldraorlof eru lofsverð. Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar hefur áður beitt sér í þessa veru en eitt markmiða nefndarinnar með verkefninu Karlar og fæðingarorlof 1996-1998 var að þrýsta á löggjafarvaldið um breytingu á fæðingarorlofslögum til að tryggja feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs og jafnframt að hvetja feður til að nýta sér þann rétt.

Jafnréttisnefnd er í meginatriðum sammála því að réttur feðra eigi að öllu jöfnu að vera óframseljanlegur, enda verði markmiði frumvarpsins um að börn njóti umönnunar beggja foreldra best náð þannig. Hinsvegar eru ófá börn í samfélagi okkar sem njóta aðeins umönnunar annars foreldrisins og fá þau engan ávinning af nýjum fæðingarorlofslögum ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt. Jafnréttisnefnd fellst ekki á þau rök að ekki sé unnt að auka rétt einstæðra foreldra vegna hættu á misnotkun af þeirri tegund að sambúðarfólk slíti sambúð á pappírum í þeim tilgangi einum að framselja rétt föður til móður. ...

Þá minnir jafnréttisnefnd á að þrátt fyrir ótvíræða ávinninga af frumvarpinu ef að lögum verður eru fæðingarorlofsréttindi kvenna lakari hér á landi en í nágrannalöndum okkar. Frumvarpið tryggir konum þriggja mánaða fæðingarorlof en það eru lágmarksréttindi sé miðað við reglur á EES-svæðinu sem Ísland er skuldbundið til að hlíta og skerðing á réttindum þeirra frá því sem verið hefur." Ályktunin var samþykkt með þremur greiddum atkvæðum. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi ekki atkvæði.