Leikstjóri: Stacy Title. Handrit: Stacy Title og Jonathan Penner. Aðalhlutverk: Jonathan Penner, Jaqueline Bisset. (100 mín.) Bandaríkin 1999. Stjörnubíó. Bönnuð innan 16 ára.

HÉR ER á ferð enn ein nútímaútgáfan af Shakespeare-verki og nú er það sjálfur Hamlet sem fær andlitslyftingu og það upp á "Tarantinoska" vísu. Sögusviðið hefur verið fært frá Danaveldi til Englaborgarinnar og stundin er myrkur og kaldur nútíminn; Hamlet er því ekki lengur prins heldur ofsa svalur sonur auðugs athafnamanns sem við upphaf myndar er nýfallinn frá með sviplegum hætti. Soninn, sem á í mikilli sálarkreppu, grunar þegar ráðabrugg milli móður sinnar og gerspillts frænda síns en reynist erfitt að færa sönnur fyrir því.

Þessi kolsvarta mynd er gerð af Stacy Title höfund Síðustu kvöldmáltíðarinnar sem einnig var á myrkum nótum en þó talsvert gamansamari. Hér er hinsvegar fátt sem hægt er að brosa yfir. Efniviðurinn er grafalvarlegur og af ofbeldi og kynlífi gnægð. Title tekst að búa til nokkuð áhrifaríka heildarmynd úr þessari uppskrift en mistekst hinsvegar að skapa áhrifamátt fyrirmyndarinnar, sjálfs Shakespeare-verksins, og má því kannski segja að tilraunin hafi mislukkast.

Skarphéðinn Guðmundsson