EIRÍKUR Þorláksson forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur sagði í samtali við blaðamann að aðstaðan í Hafnarhúsinu væri mikið framfaraskref, en á miðvikudaginn kl.

EIRÍKUR Þorláksson forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur sagði í samtali við blaðamann að aðstaðan í Hafnarhúsinu væri mikið framfaraskref, en á miðvikudaginn kl. 14 opna 2 sýningar í þremur sölum í hinu nýja Hafnarhúsi, sem báðar eru liður í dagskrá menningarárs. Önnur sýningin er einskonar úrval úr listaverkaeign safnsins og hefur einfaldlega verið gefið nafnið "Myndir á sýningu" og mun standa út árið 2000. Sú sýning er að sögn Eiríks ekki endilega sett upp með beinu tilliti til hefðarinnar, - hún er ekki í tímaröð eða sögulegs eðlis, heldur er hún er sett upp með þetta nýja húsnæði í huga þar sem gömul list er sett upp í nýju og spennandi samhengi.

Á miðvikudaginn verður einnig opnuð sýning á innsetningu eftir franska listamanninn Fabrice Hybert, en hann hlaut gullljónið, æðstu verðlaun Feneyja-tvíæringsins árið 1997. Innsetningunni í sal Hafnarhússins hefur Hybert valið yfirskriftina "Á eigin ábyrgð", en sýningin stendur til 14. maí. Við opnunina verður svo frumsýnd ný heimildarmynd um listamanninn Erró, en leikstjóri hennar er Ari Alexander Ergis Magnússon.

Að sögn Eiríks veitir þetta nýja hús svigrúm til að vera með fastar sýningar, en slíkt tækifæri hefur ekki gefist áður. Nú verður hægt að vera með fastar sýningar á verkum Jóhannesar Kjarval á Kjarvalsstöðum, Ásmundar Sveinssonar í Ásmundarsal í Sigtúni og á verkum Erró í tveimur sölum í Hafnarhúsinu. Þar með hafa öll þessi föstu nöfn Listasafns Reykjavíkur loksins fengið varanlegt heimili. Fastar sýningar á verkum Erró verða þó ekki settar upp í Hafnarhúsinu fyrr en árið 2001, þar sem menningarárið býður upp á margvísleg tækifæri varðandi sýningarhald sem vert er að nýta á meðan það varir, en síðan er hægt að snúa sér að fastri starfsemi. Þar að auki vill svo til að mörg verka Erró eru á flakki um heiminn þetta árið, og verða m.a. sýnd í Frakklandi, Noregi og Hong Kong. Hinn 30. apríl verður svo opnuð sýning í tveimur sölum til viðbótar í Hafnarhúsinu, auk þess sem útirými verður tekið í notkun. Um er að ræða sýningu á vegum minjasafns Reykjavíkur og Árbæjarsafns í samstarfi við erlenda aðila, en Listasafn Reykjavíkur leggur til húsnæði.