HUGMYND er uppi um að leggja jarðgöng fram hjá Barnafossi í Norðlingafljóti, til þess að áin geti orðið sjálfbær laxveiðiá.

HUGMYND er uppi um að leggja jarðgöng fram hjá Barnafossi í Norðlingafljóti, til þess að áin geti orðið sjálfbær laxveiðiá. Slíkt hefur ekki verið gert hér á landi áður, en Norðmenn hafa langa og góða reynslu af fiskvegagerð í formi jarðganga og er á fjórða tug fiskvega þar í landi jarðgöng.

Kostar 38 til 58 milljónir

Frá árinu 1987 hefur hafbeitarlaxi verið sleppt í ána, en í fyrra var leyfið fyrir sleppingu háð því að hafist yrði handa um athuganir á þeim möguleika að gera Norðlingafljót að sjálfbærri laxveiðiá. Veiðifélag Hvítár og Norðlingafljóts stendur að málinu, en þeir Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur og Vífill Oddsson verkfræðingur hafa kannað málið nánar.

Barnafoss er friðaður og því hefur sá möguleiki að setja þar hefðbundna laxastiga ekki verið fyrir hendi. Samkvæmt hugmyndum Vífils Oddssonar þyrfti innganga í göngin að koma til 150 metrum neðan við fossinn og gera kostnaðaráætlanir ráð fyrir að framkvæmdin muni kosta 38 til 58 milljónir, eftir því hvort útbúin yrði göngubraut til hliðar við fiskveginn til viðhalds og eftirlits. Gerð hefðbundins laxastiga í Barnafoss myndi kosta um 27 milljónir.