Guðrún Jónsdóttir í húsagarði Hafnarhússins sem nú hefur fengið nýtt hlutverk
Guðrún Jónsdóttir í húsagarði Hafnarhússins sem nú hefur fengið nýtt hlutverk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Jónsdóttir, arkitekt og formaður menningarmálanefndar Reykjavíkurborgar, ræddi við Fríðu Björk Ingvarsdóttur um Hafnarhúsið og hlutverk þess, en það verður vígt miðvikudaginn 19. apríl.

FYRSTI áfangi húsakynna Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu verður tekinn í notkun næstkomandi miðvikudag, en þá verður húsið vígt og borgarstjóri Reykjavíkur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, tekur formlega við húsinu í tilefni opnunar á tveimur sýningum, þeim fyrstu í nýjum salarkynnum.

Í gönguferð um húsið með Guðrúnu Jónsdóttur, formanni menningarmálanefndar Reykjavíkurborgar, kom í ljós að húsið er allt hið glæsilegasta og kemur til með að verða mikilsverð viðbót við starfsemi Listasafns Reykjavíkur í framtíðinni. Auk þess að vera í forsvari fyrir menningarmálanefnd er Guðrún formaður byggingarnefndar Hafnarhússins og nýs safnahúss í Tryggvagötu sem nýverið var gefið nafnið Grófarhús. Auk Guðrúnar hafa starfað í nefndinni Árni Þór Sigurðsson, formaður Hafnarstjórnar, Ingimundur Sveinsson arkitekt, Jón Björnsson, yfirmaður þróunarsviðs Reykjavíkurborgar, og fjórir forstöðumenn þeirra safna sem flytja húsin. Frá byggingardeild borgarverkfræðings komu Rúnar Gunnarsson og Þorkell Jónsson að þessu starfi.

Áhersla var lögð á að halda í sérkenni hússins

"Upprunalega var Hafnarhúsið teiknað af Sigurði Guðmundssyni arkitekt, en það var tekið í notkun á fjórða áratugnum," segir Guðrún. "Þegar farið var að huga að endurbyggingu hússins var mikil áhersla lögð á að halda í sérkenni hússins og reyna að gera ekkert sem drægi úr meginhugmynd Sigurðar, er hverfist um húsagarðinn í miðjunni. Efnt var til boðskeppni um breytingarnar á húsinu og voru fjórir aðilar valdir til að setja fram tillögur. Studio Granda varð síðan hlutskarpast en að þeirri tillögu standa arkitektarnir Margrét Harðardóttir og Steve Christer. Þau hafa byggt fleiri hús í miðbænum, m.a. hús Hæstaréttar og Ráðhúsið. Að mati dómnefndar fóru þau mildustum höndum um húsið og komu til móts við það á aðlaðandi hátt," segir Guðrún ennfremur.

"Á miðvikudag verða opnaðar tvær hæðir í húsinu en þar eru sex sýningarsalir auk sjöunda salarins sem er fjölnotasalur. Önnur sýningin sem opnar á miðvikudaginn er hugsuð sem stefnumót listaverkaeignar borgarinnar og Hafnarhúss. Menn eru að byrja að fikra sig áfram með það hvernig eigi að taka á sýningarmálunum. Þetta eru myndir úr eigu Listasafns Reykjavíkur, en um 14.000 listaverk eru í eigu borgarinnar. Listaverkaeignin skiptist að nokkru leyti upp í einkasöfn; í Kjarvalssafni eru um 5.000 verk, þar af eru um 250 málverk auk skissna og annarra hluta frá Kjarval. Errógjöfin er um 3.000 verk núna þótt hún hafi ekki verið svo stór í byrjun. Hún hefur sífellt verið að vaxa, en hluti af þessum verkum Erró eru t.d. skólaverk, sem segja til um þróun hans sem listmanns. Þessi gjöf var færð Reykjavíkurborg árið 1989, svo það eru liðin 11 ár síðan Erró gaf þetta og kominn tími til að geta sinnt þessu eitthvað. Nú, svo heyrir Ásmundarsafn líka undir Listasafn Reykjavíkur, en þar eru um 2.300 verk, þar af tæplega 400 höggmyndir. Verk eftir aðra en þessa þrjá eru í dag um 3.200," segir Guðrún.

Kjarval, Ásmundur og Erró eiga allir sinn stað

Hvaða breytingar hefur tilkoma þessa nýja húss í för með sér fyrir starfsemi listasafnsins á Kjarvalsstöðum?

"Samþykkt um byggingu Kjarvalsstaða var gerð árið 1965 á 80 ára afmæli Kjarvals. Þegar húsið var vígt árið 1973 átti það annars vegar að hýsa verk hans í svonefndum Kjarvalssal, en hins vegar átti þar að vera sýningarsalur fyrir almennar listkynningar, sem tók þá í rauninni við af gamla Listamannaskálanum. En síðan hefur þróunin orðið sú að við höfum ekki alltaf getað haft Kjarval á veggjum, hann hefur stundum þurft að víkja fyrir stærri sýningum sem verið hafa í öllu húsinu. Á þessu verður breyting núna, þegar Kjarval fer í sinn Kjarvalssal og verður þar. Hinn salurinn verður áfram notaður sem sýningarsalur, svo húsið er núna að færast yfir í sitt upprunalega hlutverk. Á sama máta verður Erró alltaf uppi í Hafnarhúsinu, honum er ætlaður varanlegur staður í norðurálmu þess húss, en þar eru tveir salir sem ganga undir starfsheitinu "Errósafn"."

Nú er þetta mikil aukning á salarkynnum fyrir Listasafn Reykjavíkur. Verður þetta til þess að hægt verður að þróa starfsemina þar í samræmi við þarfir framtíðarinnar?

"Já," segir Guðrún, "nú eigum við að geta sett upp sýningar í hinum sölunum með verkum í eigu safnsins, svo við eignumst í fyrsta skipti, að segja má, listasafn yfir fleiri en einn listamann, - þar sem sýnd verða þau verk sem við eigum og hægt er að ganga að því vísu, hvort heldur sem er fyrir erlenda gesti, okkur borgarbúa eða aðra landsmenn, að alltaf sé uppi sýning sem sýnir ákveðna þróun í íslenskri myndlist, eða kafla úr henni.

Í öðrum sölum í Hafnarhúsinu verða svo breytilegar sýningar, bæði íslenskar og erlendar, svo og í vestursal Kjarvalsstaða. Þetta nýja hús eykur því mjög möguleikana á því að hafa eitthvað fast, en viðhalda engu síður fjölbreytileikanum í sýningarhaldinu."

Margar leiðir að opnast inn í alþjóðlegan listaheim

Á Listasafn Reykjavíkur eingöngu íslensk verk eða eru verk eftir erlenda listamenn þar á meðal?

"Þetta eru ekki alveg eingöngu íslensk verk, en ársframlag til listaverkakaupa hefur undanfarin ár verið 12 milljónir króna sem er ekki há fjárhæð. Við höfum samt verið svo heppin að það hafa margir gefið okkur góð verk og svo höfum við getað keypt einstaka erlent verk. Það er þó alveg ljóst að við þurfum að reyna að sinna þessum þætti líka. En miðað við þetta fjárframlag höfum við lagt megináherslu á íslenska samtímalist, auk þess að kaupa góð verk eftir Kjarval og fleiri til að fylla inn í safn okkar af verkum eftir eldri málara," segir Guðrún.

Verða þessar fjárveitingar auknar með tilkomu Hafnarhúss?

"Það á auðvitað eftir að ræða það, því það er stór biti fyrir okkur að opna þetta safn, koma því í notkun og nýta það vel. Við þurfum aðeins að auka starfsmannahald, svo við verðum að sjá hvernig það kemur til með að þróast. En vonandi verður hægt að auka framlög til listaverkakaupa, því þetta er orðið safn sem menn taka mark á í heiminum og með því að efla það sköpum við óskaplega mörg tækifæri, bæði fyrir okkar listamenn og líka á sviði atvinnustarfsemi. Þessari starfsemi fylgja mörg störf og ef við komumst inn í þetta alþjóðlega umhverfi er þetta auðvitað atvinnuskapandi, ekki síður en ýmislegt annað. Fjármagnið kemur þannig að einhverju leyti til baka.

Erró hefur t.d. orðið okkur til mikils framdráttar, því í eigu safnsins eru mörg hans bestu verka sem hafa opnað okkur leið inn í alþjóðlegt listaumhverfi. Hann hefur sýnt úti um allan heim, verkin okkar eru tekin á þessar sýningar og þá er Listasafnsins og Reykjavíkurborgar getið. Út á þetta höfum við jafnframt getað fengið sýningar til okkar frá söfnum erlendis, svo þetta hefur auðveldað okkur þau samskipti mjög."

Þarna er þá vaxtarbroddur í menningarlegum samskiptum?

"Já, mjög mikill. Sem verður vonandi einnig til þess að við eignumst alþjóðlegra samtímalistasafn og komum okkar listamönnum á framfæri erlendis, sem er óhemju mikils virði. Það víkkar líka sjónarhornið hér heima, því þetta er stór heimur að fara inn í og það eru ákaflega spennandi möguleikar sem opnast með bættum aðbúnaði að Listasafni Reykjavíkur. Þróunin hefur verið mjög hröð frá því að Kjarvalsstaðir opnuðu og ég hef líka orðið vör við mikla framþróun þessi sex ár sem ég hef verið í menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar. Áherslurnar eru að breytast og það er orðið auðveldara að fá aðstoð og auknar fjárveitingar til ýmissa verkefna á þessu sviði. Þetta er ekki eingöngu á sviði myndlistar heldur á öðrum sviðum menningar líka."

Betri aðstaða til að sinna rannsóknum

Nú á að vera þarna önnur starfsemi líka?

"Já, þarna á t.d. að vera bókasafn, sem bætist við það safn sem er á Kjarvalsstöðum. Markmiðið er að laga bókasafnið að nútímanum því bókasöfn veita ekki lengur bara aðgang að bókum, heldur margvíslegu öðru efni," segir Guðrún. "Svo verður þarna líka arkitektúrsafn, því byggingarlistadeild Kjarvalsstaða flytur líka í Hafnarhúsið, þótt það verði ekki núna alveg í fyrstu. Sú deild stækkar ört þótt þar sé aðeins einn starfsmaður, Pétur Ármannsson. Á Kjarvalsstöðum hafa verið sýningar um ákveðin hverfi í Reykjavík og einnig um ákveðna arkitekta. Þannig á þessi deild eftir að þróast og taka þessa listgrein inn í þetta umhverfi á mjög skemmtilegan hátt.

Í Hafnarhúsinu verður einnig starfrækt verslun, með ýmislegt til fróðleiks og skemmtunar sem tengist listinni og safninu.

Svo má ekki gleyma því að með þessu húsi fáum við mun betri geymslur og aðstöðu fyrir starfsfólkið. Þarna fáum við tækifæri til að nota fullkomnar geymslur sem eru staðsettar við sýningarsalina þar sem fólkið er að vinna, þannig að það verður miklu auðveldara að stunda alla rannsóknarstarfsemi, einnig fyrir þá sem koma utan að. Við megum ekki gleyma því að vaxandi þáttur í starfsemi allra safnanna er safnafræðsla. Með Hafnarhúsinu skapast þetta bakland sem er svo nauðsynlegt þegar verið er að kenna fólki og fræða það."

Að hvaða leyti tengist það sem er framundan í húsinu, margumræddu menningarári?

"Sýningarnar sem nú verða opnaðar tengjast menningarárinu og húsið verður að sjálfsögðu nýtt bæði í þágu menningarborgar og listahátíðar. Enda var það markviss ákvörðun að koma sem stærstum hluta þess í notkun á þessu ári. Þótt ýmislegt verði eftir við framkvæmdina verður vonandi öllum ljóst hvert stefnir með húsið."

Öflugur menningarkjarni í Grófinni

Hvaða þýðingu finnst þér þetta hús hafa á þessu svæði í miðbænum?

"Þessi starfsemi, bæði í Hafnarhúsinu og í Grófarhúsinu, er mikið framfaraspor á þessu svæði og hefur geysilega þýðingu. Það koma afskaplega margir á þessar stofnanir, Borgarbókasafnið dregur mikið að og öll söfnin raunar, þannig að við erum þarna að færa miðbænum margt fólk í margvíslegum erindum. Það hefur mjög mikið að segja fyrir miðbæinn að fá þangað alls konar starfsemi og fólk í fjölbreyttari erindum heldur en nú er. Þetta er eiginlega ein af meginástæðum þess að menningarmálanefndin stóð að þessari tillögugerð. Okkur fannst að þetta myndi geta farið svo vel saman, menningarhús af þeirri stærðargáðu sem Hafnarhúsið er og sú lyftistöng fyrir miðbæinn sem felst í starfsemi þess. Þetta er þarna í næsta nágrenni við Hlaðvarpann og starfsemi æskulýðsráðs í Hinu húsinu, þannig að þetta er mjög öflugur menningarkjarni sem myndast þarna í kringum Grófartorgið," sagði Guðrún Jónsdóttir að lokum.