HIN umdeilda samsteypustjórn austurrískra íhaldsmanna og liðsmanna Frelsisflokks Jörgs Haiders hefur nú verið við stjórnvölinn í Vínarborg í rúma tvo mánuði.

HIN umdeilda samsteypustjórn austurrískra íhaldsmanna og liðsmanna Frelsisflokks Jörgs Haiders hefur nú verið við stjórnvölinn í Vínarborg í rúma tvo mánuði. Og í nákvæmlega jafnlangan tíma hefur Austurríki verið í hlutverki hins útskúfaða í "fjölskyldu" Evrópusambandsíkjanna. Raddir ráðamanna í Kaupmannahöfn og Helsinki, sem hafa ítrekað mælt með því að slakað yrði á hinum pólitísku einangrunaraðgerðum gegn Austurríki, hafa vakið vonir hjá ráðamönnum í Vín um að fyrir endann sæi á ástandinu. Þingflokkur frjálsra demókrata á þýzka þinginu hefur líka lagt fram tillögu um að Þýzkaland hætti að taka þátt í einangrun grannlandsins. En að sögn þýzka dagblaðsins Die Welt eiga slíkar tilslökunartillögur ekki upp á pallborðið í höfuðborgum margra hinna ríkjanna fjórtán. Í París væru jafnvel tillögur uppi á borðinu um að þegar Frakkar taka við formennskunni í ráðherraráðinu í sumar yrði hert enn frekar á hinum pólitísku refsiaðgerðum gegn Austurríki vegna ríkisstjórnarþátttöku Frelsisflokksins.

Jörg Haider, sem lét af formennsku í Frelsisflokknum skömmu eftir að ríkisstjórnin var mynduð en er áfram fylkisstjóri í suður-austurríska héraðinu Kärnten, var í Brussel á fimmtudag til að sækja fund héraðanefndar ESB, sem hann á sæti í í krafti fylkisstjóraembættisins.

Við það tækifæri gagnrýndi hann enn á ný einangrunaraðgerðirnar og beindi orðum sínum einkum að frönskum ráðamönnum. Að hans sögn væru Frakkar að reka eigin innanríkispólitík á vettvangi ESB, þar sem hún ætti ekki heima, og þar með væru þeir að beita smærri aðildarríkin pólitísku ofbeldi.

Á miðvikudag ávarpaði Thomas Klestil Evrópuþingið í Strassborg og skoraði á þingmenn að leggja sitt af mörkum til að fá því framgengt að refsiaðgerðunum yrði hætt.

Berlín. Morgunblaðið.