Íkon, María Guðsmóðir með Jesúbarnið, eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur. Kort útgefið af Thorvaldsenfélaginu.
Íkon, María Guðsmóðir með Jesúbarnið, eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur. Kort útgefið af Thorvaldsenfélaginu.
Keltneskur þáttur Íslands sögu er stærri en margur hyggur. Stefán Friðbjarnarson telur kristinn sið hafa átt ítök hér frá fyrstu mannvist í landinu.

ÞAÐ er hafið yfir efasemdir að mikill meirihluti landnámsmanna (870 til 930) var af norrænu bergi brotinn. Hluti norrænna landnámsmanna var á hinn bóginn Vestmenn, en svo vóru norrænir menn nefndir, er sezt höfðu tímabundið að á Bretlandseyjum, Írlandi, Orkneyjum, Skotlandi og Suðureyjum. Fjölmargir Vestmanna höfðu tekið sér maka af keltnesku kyni og sumir hverjir tekið kristna trú. Landnámsmenn höfðu og með sér fjölda þræla, einkum hertekið fólk, flest keltneskt frá Vesturhafseyjum og Írlandi. "Þrælar urðu aðalatvinnustétt á stórbýlum hérlendis á 10. öld og hlutfallslega fjölmennir," segir Einar Laxness í Íslandssögu sinni. Í hópi landnámsmanna vóru og nokkrir Keltar. Hermann Pálsson segir í bók sinni Keltar á Íslandi (Háskólaútgáfan 1996): "Írskt þjóðerni eða tengsl við Írland eru stundum gefin í skyn með nafni landnámsmanns eða viðurnefni, án þess að getið sé berum orðum hvaðan komið var; Bekan á Bekansstöðum, Beigan á Beigansstöðum, Þorsteinn lunan í Lunansholti, Þorgeir meldún í Tungufelli.

Af írskum konum sem settust hér að þykir mikið koma til Mýrúnar Maddaðardóttur... Írakonungs, sem varð húsfreyja í Hraunsfirði, Myrgjolar Gljómalsdóttur Írakonungs... og Grélaðar dóttur Bjartmars jarls á Írlandi, sem varð húsfreyja á Eyri í Arnarfirði... Löngu eftir að írskar höfðingjadætur voru hættar að giftast íslenzkum bændum bregður Höskuldur Dalakollsson sér til útlanda og kaupir ambátt á torgi og tekur hana heim í Dali; síðar reyndist hún vera Melkorka Mýrkjartansdóttir Írlandskonungs ("Hið írska man"). Og enginn skyldi gleyma móðerni þeirra Helga magra... og Þorgríms Grímólfssonar..., þeir vóru dætrasynir Kjarvals Írakonungs." Fyrir norrænt landnám, á 7. eða 8. öld, lögðu írskir einsetumenn, kristnir, leið sína til Íslands. Elzta frásögn um mannvist hér á landi er frá árinu 795. Í ritinu De mesura orbis (um stærð jarðar) greinir írskur munkur, Dicuil að nafni, frá munkum sem dvöldu á eyjunni Thule, "en það nafn höfðu Írar um Ísland", segir Einar Laxness í Íslandssögu sinni. Ótal íslenzk örnefni minna á keltneskan uppruna. Hér verða talin nokkur, sem vísa beint til Írlands, og stuðst við fyrrnefnda bók, "Keltar á Íslandi", eftir Einar Pálsson.

Í Ásólfsþætti alskiks í Landnámu er getið Írár undir Eyjafjöllum. Hjá Efra-Hvoli í Hvolhreppi er Írahvammur og skammt frá Íraheiði. Í bændatali frá 1681 er fyrst getið um Íragerði í Stokkseyrarhreppi. Þar er einnig örnefnið Íragarður. Í Sogi er Írafoss. Svæðið sem íbúðarhús Landsvirkjunar standa á heitir Ýruholt. Í Kjós er Írafell og samnefndur bær. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta um Írafell á Reykjanesi. Írafell er einnig í Helgafellssveit norður af Ljósufjöllum. Í Svefneyjum eru Íralönd. Hjá Myrká í Hörgárdal er Íragerði. Hér eru aðeins talin örfá af fjölmörgum örnefnum, sem minna á Kelta á Íslandi. Fjölmörg bæjar- og mannanöfn benda til sömu áttar. Niðurstöður nýlegra rannsókna um uppruna íslenzkra kvenna, er benda til Bretlandseyja ekkert síður en Noregs, þurfa ekki að koma neinum í opna skjöldu. Við erum norræn þjóð en teljum jafnframt til frændsemi við íbúa Bretlandseyja, ekki sízt Kelta.

Keltneskt fólk, frjálst og hernumið, sem hér settist að á landnámsöld, var flest kristið, að ekki sé nú talað um Papana, er hér dvöldu á 7. og 8. öld. Vestmenn, norrænir menn, sem sezt höfðu að á Bretlandseyjum, og komu þaðan til Íslands, voru og sumir hverjir kristnir. Það er því ljóst að kristinn siður hefur haft ítök hér á landi allar götur frá fyrstu mannvist í landinu. Kristinn siður er lögtekinn á Alþingi árið 1000. Þá vóru aðeins 130 ár frá því norrænt landnám hófst og 70 ár frá því íslenzkt ríki varð til (með stofnun Alþingis árið 930). Það er því ljóst að heiðinn siður spannar tiltölulega stuttan kafla í þjóðarsögunni. Íslenzk kristni rekur hins vegar rætur til Papa, sem hér dvöldu löngu fyrir norrænt landnám. Hún verður og vegvísir okkar inn í 21. öldina.