Kvartett Andrésar Þórs Gunnlaugssonar. Auk hans skipa sveitina Ólafur Stolzenwald, Árni Heiðar Karlsson og Kári Árnason.
Kvartett Andrésar Þórs Gunnlaugssonar. Auk hans skipa sveitina Ólafur Stolzenwald, Árni Heiðar Karlsson og Kári Árnason.
AÐ VANDA mun jassinn duna á efri hæð Sólon Íslandus í kvöld þar sem Múlinn tónlistarklúbbur hefur jafnan farið með völd á sunnudögum. Í þetta sinn mun Kvartett Andrésar Þórs Gunnlaugssonar sjá um að framreiða jassinn.

AÐ VANDA mun jassinn duna á efri hæð Sólon Íslandus í kvöld þar sem Múlinn tónlistarklúbbur hefur jafnan farið með völd á sunnudögum. Í þetta sinn mun Kvartett Andrésar Þórs Gunnlaugssonar sjá um að framreiða jassinn. Andrés Þór leiðir kvartettinn með gítarleik sínum en auk hans fara fimum höndum um hljóðfæri sín þeir Árni Heiðar Karlsson píanóleikari, Ólafur Stolzenwald kontrabassaleikari og Kári Árnason, sem taktfast lemur húðirnar.

Á efnisskránni eru einvörðungu frumsamin lög eftir Andrés Þór: "Þetta er nokkuð aðgengilegur jass sem saminn er undir áhrifum frá rjómanum af þeim sem ég hef hlustað á í gegnum tíðina. Þar eru jassgítarleikarar vissulega fyrirferðarmiklir; menn eins og Jim Hall og John Abercroimbie en kunnari meistarar á borð við John Coltraine hafa einnig veitt mér innblástur og setja sterkan svip á tónlist mína."

Andrés Þór segist hafa haft það að leiðarljósi að efnisskráin yrði sem fjölbreyttust og því hafi hann einnig sótt í smiðju sígildrar tónlistar til blæbrigðaauka: "Þannig ægir ýmsu saman; blús, latíntónlist og ballöðum."

Á brottfarartónleikunum frá FÍH flutti Andrés Þór nokkur frumsamin lög og hefur lætt einu og einu inn á efnisskrána er hann hefur spilað með hinum og þessum aðilum upp á síðkastið. Þetta er hinsvegar í fyrsta sinn sem hann flytur einvörðungu frumsamið efni og segist hlakka til þess að sjá viðbrögðin. Hann hyggur þó ekki á útgáfu í bráð því næst á stefnuskránni er framhaldsnám erlendis. Hann segist þó vonast til að sjá efni sitt útgefið í framtíðinni.

Andrés Þór steig fyrst fram á sjónarsviðið sem poppari en hann var einn liðsmanna afturhvarfssveitarinnar Sixties sem rúllaði upp sveitaballarúntinum hér um árið. Hann segir jassinn smám saman hafa fangað huga sinn og það sé að miklu leyti tónlistarnáminu að kenna en hann útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH síðastliðið vor. Hann segir þó aldrei að vita nema hann fari einhvern tímann síðar meir að gæla við poppið á nýjan leik, þ.e.a.s. ef jassinn ætli einhvern tímann að losa takið á sér.

Þessir áhugaverðu jasstónleikar munu eins og fyrr segir vera á efri hæð Sólon Íslandus og hefjast kl. 21.