Búin að koma mér fyrir í húsi Larentzakis-hjónanna í Gerani sem er eitt af litlu þorpunum sem liggur við ströndina vestur af Hania næststærstu borg Krítar. Húsið er stórt og rúmgott, fernar svalir og eldhús fyrir bústnar bústýrur.

Búin að koma mér fyrir í húsi Larentzakis-hjónanna í Gerani sem er eitt af litlu þorpunum sem liggur við ströndina vestur af Hania næststærstu borg Krítar. Húsið er stórt og rúmgott, fernar svalir og eldhús fyrir bústnar bústýrur. Þegar ég drekk morgunkaffið mitt á eldhússvölunum horfi ég upp í Lefka Ori, Hvítufjöll sem ná upp í 2.500 metra hæð, en þar leysir ekki snjóa á efstu tindum fyrr en í júní. Lyktin af vorinu er ilmandi og sumarið á næsta leiti, enn er þó svalt á kvöldin og á næturnar pakka ég mér inn í tvær ábreiður. Frú Larentzakis sem heitir Dimitria færir mér appelsínur og sítrónur sem ég raða á eldhússkenkinn eins og Elín Edda vinkona mín gerir svo smart. Tek síðan mynd af "installasjóninni". Frúin færir mér líka ólífuolíu og heimatilbúið rauðvín á plastflösku. Hún spyr mig reglulega hvernig ég hafi það. Gestrisni hennar eru engin takmörk sett, hún er bæði til í að þvo af mér og elda ofan í mig. Stelios, maðurinn hennar, kemur líka reglulega til að tékka á að allt sé í lagi. Hann sér um heita vatnið og rafmagnið. Sonur þeirra, Vangelis, býr í sama húsi og hann er líka til þjónustu reiðubúinn eins og reyndar allir Krítverjar sem ég hitti. Þegar ég finn ekki lyklana mína er hann með aukalykla, ef eitthvað bilar, þá lagar hann það. Það er sem sé allt í himnalagi hér í Gerani, nema hvað einhver bóndi hefur komið upp hænsnabúi hér við hliðina á húsinu. Ég er þess vegna orðin eins og "hann Tumi fer á fætur við fyrsta hanagal", sem væri svo sem í lagi, ef haninn væri bara einn að góla þetta, en þeir eru ekki færri en þrír og galast á með látum fram eftir öllum morgnum. Eina leiðin til að afbera þá eins og önnur karlkyns leiðindi, er að láta sem þeir séu ekki til.

Ströndin vestur af Hania iðar öll af lífi. Ferðamannavertíðin er að byrja og það eru iðnaðarmenn út um allt. Innan skamms flykkjast hingað tugþúsundir ferðamanna norðan úr Evrópu þar á meðal Íslendingar sem koma nú í fysta sinn í beinu leiguflugi til Krítar. Fátt er jafnhrífandi og sjá hrausta karlmenn taka til hendinni og hreyfa sig almennilega. Hvar sem ég kem eru múrskeiðar á lofti, pensill í hendi, sementspokar á baki og flísar í fangi. Krítverjar eru vinnusamir fram úr hófi, það er ekkert "á morgun" kjaftæði hjá þeim, þeir framkvæma hlutina fljótt og vel. Það er verið að moka, bora, gróðursetja og flísaleggja fyrir ferðamennina, steypan vart þornuð á svölum og veröndum. Ungri samstarfskonu minni verður ekki um sel þegar hún sér alla þessa karlmenn við vinnu. Konurnar vinna jafnmikið, en eru ekki eins áberandi. Þær eldri eru innandyra að þrífa og þvo þvotta, þær yngri vinna á skrifstofum eða reka sína eigin veitingastaði. Mér er sagt af upplýstum grískum konum að fallókrötunum fari fækkandi. Fallókratis er gríska orðið yfir karlrembur, en grískir karlmenn hafa fyllt þann flokk með ágætum frá því í fornöld. Hér á Krít eimir meira eftir af gamla samfélaginu en á meginlandinu, nútíminn og túrisminn hafa þó gert sína innrás og útkoman er sérkennileg blanda af sveitamennsku og heimsmenningu.

Þingkosningar eru nýafstaðnar í Grikklandi og það var verulega mjótt á mununum milli stærstu flokkanna tveggja. Margir eru orðnir langþreyttir og leiðir á stjórn Pasok-flokksins sem er búin að vera við völd í 17 ár. Pasok er einhvers konar vinstri "sullflokkur" bæði rotinn og spilltur að mati margra Grikkja. Þess vegna vildu margir sjá breytingu og fá hægrimennina í Nýja lýðræðisflokknum til valda, sem hinum finnst auðvitað hægri "bullflokkur". Annars fór lítið fyrir kosningunum og fólk rólegt yfir úrslitunum.

Kvöldið fyrir kosningarnar rölti ég inn á dæmigert grískt "kafeneion" og þar situr skemmtilegt kompaní. Gamall, gráhærður og síðskeggjaður rétttrúnaðarprestur í fullum skrúða sem nikkar til mín af og til en þó aðallega þegar hann tekur út úr sér bleikan góminn með fölsku tönnunum og brosir til mín. Við hliðina vinur hans, fótbrotinn í gifsi með hækju, aðeins við skál, líklega búinn að fá sér einu staupi of mikið af rakí, sem er krítverskt brennivín. Sá veifar hækjunni í takt við einræðu sína og til að leggja áherslu á það sem hann hefur að segja. Þriðji maðurinn er einhver Sólon Krítíkos, lúinn flakkari með flauturæfil, sem hann nær litlu sem engu hljóði úr og ef það kemur er það falskt og mjálmandi. Hinum er því ekki skemmt við tónmennt hans.

Kosningakvöldið sjálft fer ég á bílnum inn í Haniaborg niður á gömlu feneysku höfnina, sem er aðal aðdráttarafl borgarinnar. Veitingastaðirnir liggja þétt hlið við hlið og þar er hægt að gæða sér á krítverskum réttum m.a. djúpsteikta "myzíþra" ostinum sem aðeins er framleiddur hér.

Krítverjar eru stoltir af sinni matargerð og sjálfum sér nógir um flest matarkyns. Sjálfri finnst mér matur þeirra betri en á meginlandinu. Ég er auðvitað dottin ofan í Kaszantzakis, einn frægasta rithöfund þeirra Krítverja, en Zorba hans er af slóðunum hér í kring og er auðvitað jafnóviðjafnanlegur og Bjartur í Sumarhúsum okkar Laxness. Ég rek líka augun í bók sem ætluð er erlendum ferðakonum, svona tilvonandi Sigrúnum Ástrósum.

Hún heitir "Greek men made simple" og er krufning á kynferðissjálfi grískra karlmanna. Aðalatriðið er þó að vita, að þegar grískir karlmenn tala og gala eins og hanar er best fyrir konur að þegja. Eða eins og einn fallokratis sagði við mig um daginn; "Þegar ég tala, þá tala ég."