Í DAG kl. 12:30 fer fram á Wembley leikvangnum í Lundúnum úrslitaleikur í svonefndri Auto-Windscreen bikarkeppni í knattspyrnu.

Í DAG kl. 12:30 fer fram á Wembley leikvangnum í Lundúnum úrslitaleikur í svonefndri Auto-Windscreen bikarkeppni í knattspyrnu. Uppselt er á leikinn; tæplega 70 þúsund áhorfendur hafa því greitt talsvert fé til að fylgjast með Bristol City etja kappi við ensk/íslenska liðið Stoke City undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar.

Óhætt mun að fullyrða að leikurinn á Wembley í dag sé sögulegur fyrir margra hluta sakir. Ekki einasta verður Guðjón Þórðarson fyrsti norræni knattspyrnustjórinn til að leiða lið sitt út á hinn fræga þjóðarleikvang Englendinga, heldur er hitt ekki síður merkilegt að útlit er fyrir að þrír leikmenn íslenskir muni taka þátt í leiknum; verða annað hvort í byrjunarliðinu eða meðal varamanna á bekknum. Ekki þarf að taka fram að fjórir Íslendingar hafa ekki áður tekið þátt í leik sem þessum á erlendri grundu.

NÚ er það svo að AWS-bikarkeppnin er keppni liða í neðri deildum ensku knattspyrnunnar, nánar tiltekið liðum úr 2. og 3. deild, og kannski því ekki beinlínis árangur á heimsmælikvarða að komast með lið í úrslit keppninnar. Engu að síður er keppikefli liðanna í deildunum tveimur á hverri leiktíð ávallt að komast í úrslitin, enda eru verðlaunin ekki af verri endanum; úrslitaleikur á Wembley. Æðsti draumur margra knattspyrnumanna er að leika listir sínar á vellinum þeim og það er til marks um stemmninguna fyrir leiknum nú að uppselt skuli á hann. Hvort lið um sig hefur ráðstafað sínum 35.000 miðum og það er ekki svo lítið þegar haft er í huga að um tíu þúsund áhorfendur sækja að jafnaði leiki Stoke City á Britannia, heimavelli liðsins, og í tilfelli Bristol City er sú tala jafnvel lægri. Af þessu má ráða að fjölmargir áhangendur liðanna sem alla jafna sækja þó ekki leiki muni verða á meðal áhorfenda á Wembley í dag.

VÍKVERJI naut þess fyrr í vetur að sækja heim Stoke-on-Trent héraðið og fylgdist með þegar stolt borgarinnar, knattspyrnuliðið Stoke City, komst í eigu íslenskra fjárfesta. Undrunarsvipur sumra íbúa hefði vart verið meiri þótt geimverur hefði keypt knattspyrnuliðið, en fjárfestarnir íslensku báðu fólk sýna þolinmæði; betri tíð væri í vændum. Framhaldið hefur síðan verið upp og ofan og miður hefur gengið í mörgum leikjum við markaskorun, en þegar fimm leikir eru eftir af leiktíðinni - fimmtán stig í pottinum - á Stoke City enn raunhæfan möguleika á að komast í umspil um sæti í 1. deild að ári. Ekki er síður um vert að Guðjón gulldrengur Þórðarson á raunhæfa möguleika í dag á að næla sér í enn ein sigurverðlaunin.

ENSKIR fjölmiðlar hafa sýnt úrslitaleiknum áhuga að undanförnu og rifjuð hefur verið upp nær samfelld sigurganga Guðjóns í íslenskri knattspyrnu, með KA, ÍA og KR. Frá föstudeginum 7. ágúst 1992, þegar ÍA undir stjórn Guðjóns tapaði fyrir KA, hefur lið undir hans stjórn nefnilega ekki beðið lægri hlut í bikarkeppni hér á landi. Fjögur ár í röð hampaði Guðjón bikarnum, með ÍA og KR, árin 1993, 94, 95 og 96 og að viðbættri sigurgöngu Stoke City í AWS-keppninni nú má fullyrða að hann hafi ekki tapað bikarleik sem þjálfari í átta ár. Frá þessu og meiru til er greint í sérdeilis ítarlegum Stoke-vef á vefritinu deiglan.com.

EKKI er að efa að fjölmargir Íslendingar munu setjast fyrir framan sjónvarpsskjáinn í dag og fylgjast með leiknum í beinni útsendingu á Sýn. Í það minnsta mun Víkverji sitja límdur við skjáinn og hrópa: Áfram Ísland! Áfram Stoke City!