EITT sinn var rætt um ofangreind sagnorð í þessum pistlum. Komst ég þá m.a. svo að orði, að mér hafi "í seinni tíð fundizt sem so. að labba sé á góðri leið með að útrýma so. að ganga, a. m. k. úr mæltu máli".

EITT sinn var rætt um ofangreind sagnorð í þessum pistlum. Komst ég þá m.a. svo að orði, að mér hafi "í seinni tíð fundizt sem so. að labba sé á

góðri leið með að útrýma so. að ganga, a. m. k. úr mæltu máli". Á liðnum vetri var ég nokkrar vikur erlendis, þar sem víða mátti fara í góðar gönguferðir. Ég fullyrði, að ég heyrði engan Íslending á þeim stað tala um að ganga, það löbbuðu allir. Ég opna tæplega - að ég segi ekki alltaf - svo viðtækið mitt, þar sem verið er að lýsa gönguleiðum, að so. að labba hljómi ekki í mín eyru. Í fyrra var verið að lýsa svonefndum Laugavegi í Ríkisútvarpinu. Göngumaður gekk aldrei þessa skemmtilegu leið, heldur labbaði hana. Það er miður farið, ef so. að ganga, sem er gamalt germanskt mál, lýtur í lægra haldi fyrir so., sem hefði verið talið hálfgert barnamál í mínu ungdæmi. So. að ganga merkir að ferðast fótgangandi, vera í hreyfingu. So. að labba kemur samkv. heimildum ekki fyrir í íslenzku fyrr en á 17. öld. Það merkir ekki alveg hin sama og ganga, heldur að ganga hægt, rölta. Þeir, sem fara um Laugaveginn, ganga trúlega margir greiðlegar en svo, að þeir rétt rölti veginn. Í nýnorsku merkir samsvarandi so. að þramma og í sænskum mállýzkum ganga þyngslalega, og er hér auðsær skyldleiki á milli. Menn skulu ganga sér til heilsubótar, ekki labba. - J.A.J.